Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 13:03:47 (1939)

1998-12-10 13:03:47# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[13:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu hæstv. ráðherra kom fram mjög mikilvægt atriði, þ.e. að hæstv. ráðherra hefur sama skilning og minni hluti heilbr.- og trn. á því hvað fara skuli inn í gagnagrunninn. Hæstv. ráðherra sagði að enginn gæti samið um hvað fari inn í grunninn nema þeir sem halda utan um sjúkraskrár. Sá skilningur kom fram að inn í grunninn færi ekki nema það sem kæmi úr sjúkraskrám. Það er nákvæmlega sami skilningur og minni hlutinn í nefndinni hefur.

Því miður hefur því verið haldið fram í umræðunni, bæði frá varaformanni nefndarinnar og einnig hv. þm. Tómasi Inga Olrich, að svo sé ekki. Meiri hlutinn hefur lýst yfir allt öðrum skilningi á málinu sem hefur eiginlega komið málinu í uppnám hér í þinginu undanfarna daga. Það er mjög mikilvægt innlegg í umræðuna að hæstv. ráðherra skuli hafa skilning á málinu og minni hluti heilbr.- og trn. Þetta er mál sem við þurfum að skoða nánar, ef samflokksmenn ráðherrans og talsmenn Sjálfstfl. skilja málið ekki eins og hæstv. ráðherra. Ég vil fá að vita ef þetta er röng túlkun hjá mér því ég vitnaði orðrétt í ráðherrann.