Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 14:19:26 (1962)

1998-12-10 14:19:26# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[14:19]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Tölvunefnd hefur kallað eftir skýrum vinnureglum og mun fá þær. Lögin sem tölvunefnd á að vinna eftir, verði þetta frv. að veruleika, munu kveða á um að tölvunefnd þurfi að votta og samþykkja vinnuferlið sem starfsleyfishafi setur upp til að tryggja persónuverndina. Tölvunefnd fær það hlutverk að skoða ferlið, samþykkja það eða hafna því, láta bæta það. Við vitum það ekki í dag. (ÖJ: Við vitum það ekki í dag? Á ekki löggjafinn ...?) Tölvunefnd þarf að skoða þetta ferli. Tölvunefnd þarf að sjálfsögðu að skoða þetta ferli til að geta sagt til um hvort það standist eða ekki. Síðan á jafnframt óháður aðili að skoða vinnuferlið til að tryggja persónuverndina.

Varðandi það að hv. þm. Ögmundur Jónasson dregur fram, að upplýsingarnar geti verið persónugreinanlegar vil ég segja að ef grunnurinn væri þannig, sem hann er ekki, að inni væru allar heilsufarsupplýsingar, ættfræði- og erfðafræðigrunnurinn, væri þetta allt í einni súpu þá væru upplýsingarnar að sjálfsögðu persónugreinanlegar. Það liggur í augum uppi en þannig verður þetta ekki, hv. þm. Þarna verða heilsufarsupplýsingar í aðskildum litlum grunnum, erfðafræðigrunnurinn í aðskildum grunni, ættfræðigrunnurinn í öðrum grunni. Þess vegna er hægt að tryggja persónuverndina og með aðgangstakmörkunum líka og það er hægt að rekja ... (ÖJ: Sem enginn veit hverjir eru?) Við höfum rætt það hér í umræðunni að aðgangstakmarkanirnar verða t.d. þær að ekki er hægt að spyrja um minna úrtak en tíu einstaklinga, til að geta ekki persónugreint. Það hefur verið farið mjög náið yfir það í umræðunum. Niðurstaðan er sú að þetta er hægt. Sem betur fer er þetta hægt með því að setja upp mikið eftirlit. Það verður dýrt en það á starfsleyfishafinn að borga. Það verður mikið eftirlit og dýrt og þannig er hægt að tryggja persónuverndina. (ÖJ: Ríkisstjórnin fellur undir Nurnberg... Það er alvarlegt.)