Embættiskostnaður sóknarpresta

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 14:22:18 (1963)

1998-12-10 14:22:18# 123. lþ. 37.2 fundur 232. mál: #A embættiskostnaður sóknarpresta# (samningur ríkis og kirkju) frv. 141/1998, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[14:22]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. á þskj. 381 um frv. til laga um breyting á lögum um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr. 36/1931.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hjalta Zóphóníasson, Benedikt Bogason og Sólmund Má Jónsson frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Einnig leitaði nefndin álits biskupsstofu, prestafélagsins og prófastafélagsins um málið og gerðu þessir aðilar ekki athugasemdir við efni frv.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæðum um embættiskostnað presta verði breytt á þann veg að kirkjuþing setji reglur og ákveði rekstrarkostnað prestsembætta en verkefni þetta hefur hingað til verið í höndum kirkjumálaráðherra. Breyting þessi er afleiðing af samningi milli ríkis og kirkju frá 4. sept. 1998. Sá samningur er nánari útfærsla á samningi frá 10. janúar 1997 um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju. Hann kveður á um að kirkjan láti af hendi kirkjujarðir að frátöldum prestssetrum og að andvirði seldra kirkjujarða renni í ríkissjóð. Á móti greiði ríkissjóður laun biskups Íslands, vígslubiskupa og 138 starfandi presta og prófasta kirkjunnar. Samkomulagið var lögfest með 60. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar, nr. 78/1997. Í 3. gr. sömu laga segir jafnframt að íslenska ríkið greiði þjóðkirkjunni árlegt framlag sem miðist við að það nægi til reksturs hennar ásamt öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum. Á grundvelli þessara tveggja greina þótti nauðsynlegt og skynsamlegt að gera samning milli ríkis og kirkju þar sem kveðið væri nánar á um einstaka kostnaðarþætti og um árlegar greiðslur ríkisins vegna þeirra. Sá samningur var undirritaður 4. september sl. eins og fyrr greinir.

Með samningnum ber þjóðkirkjan fulla ábyrgð á fjármálum sínum. Því þótti eðlilegt að breyta lögum um embættiskostnað sóknarpresta og færa ábyrgð af þeim kostnaði eins og öðrum kostnaði frá ríkinu til þjóðkirkjunnar. Frv. felur því einungis í sér að ákvarðanataka um embættiskostnað flyst frá dóms- og kirkjumrn. til kirkjuþings. Nefndin mælir með að frv. verði samþykkt óbreytt.

Undir nál. skrifa Sólveig Pétursdóttir, Jón Kristjánsson, Árni R. Árnason, Siv Friðleifsdóttir og Kristján Pálsson. Jóhanna Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson og Kristín Halldórsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.