Tryggingagjald

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 14:25:23 (1964)

1998-12-10 14:25:23# 123. lþ. 37.3 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður launamanns) frv. 148/1998, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[14:25]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um tryggingagjald með síðari breytingum. Jafnframt er á ferðinni breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og lífeyrissjóða.

Eins og fram kom í framsögu með frv., hæstv. forseti, felst í þessu að nýti launamaður sér viðbótarfrádrátt frá tekjuskatti vegna iðgjalds í lífeyrissjóð þá skuli vinnuveitandi viðkomandi launþega draga frá 0,2% af gjaldstofni tryggingagjalds og bæta við framlag launþegans til lífeyrissjóðsins.

Nefndin fjallaði um málið, sendi það til umsagnar og fékk á sinn fund fulltrúa fjmrn. Eftir nokkrar umræður í nefndinni var ákveðið að meiri hluti nefndarinnar styddi frv. án þess að gera brtt. Hv. þm. Svavar Gestsson ritar reyndar undir með fyrirvara.

Síðan hefur það helst borið til tíðinda, hæstv. forseti, að fjmrn. hefur látið nefndarmenn vita að það sé að velta fyrir sér að gera tillögu til okkar um smávægilegar tæknilegar breytingar sem gætu þá komið til atkvæða við 3. umr. málsins.