Tryggingagjald

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 14:39:24 (1968)

1998-12-10 14:39:24# 123. lþ. 37.3 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður launamanns) frv. 148/1998, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[14:39]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þess að hér er á ferðinni viðbótarlífeyrissparnaður þar sem er algjört frelsi til ráðstöfunar á framlögunum, má gera ráð fyrir því að töluvert verði eftir þessu sóst og að auglýsingar og annað af hálfu lífeyrissjóðanna, bankanna, fjármálafyrirtækja annarra sem bjóða upp á þennan sparnað, muni verða til þess að almenningur verði bærilega upplýstur um þetta mál.

Hv. þm. þekkir það rækilega til bókhalds, tölvuvinnslu og annars slíks að ég held hann ætti að gera sér grein fyrir því að þessar færslur verða allar saman sjálfvirkar og tengjast líka þeirri færslu sem þarf yfirleitt að gera um hver mánaðamót og felst í því að borga þarf út laun og gera skil á öðrum gjöldum og sköttum og skyldum. Þessu til viðbótar er því fyrst og fremst ákveðin fjárfesting í breytingum á launakerfunum þegar þetta kemur inn, en um leið og þetta er farið að rúlla þá gerist það sjálfvirkt og allir sem koma nálægt því að meðhöndla þennan lífeyrissparnað munu að sjálfsögðu leggja sem allra mest upp úr því að kostnaðurinn við að meðhöndla þessa peninga verði sem allra lægstur. Ég endurtek það, hæstv. forseti, að mér finnst algjörlega ástæðulaust af hv. þm. að gera svo lítið úr þessu máli sem hann gerir.