Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:08:59 (1978)

1998-12-10 15:08:59# 123. lþ. 37.11 fundur 334. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (innflutningur lifandi sjávardýra) frv. 134/1998, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:08]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Á þskj. 416 er frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Með framlagningu þessa frv. er verið að framlengja ákvæði til bráðabirgða um að leita skuli leyfis sjútvrh. til innflutnings á lifandi sjávardýrum. Eins og kunnugt er gera samningar okkar við Evrópusambandið ráð fyrir að allur innflutningur á lifandi sjávardýrum verði frjáls og án leyfa. En af því að viðræðum um þetta efni milli Íslands og Evrópusambandsins er ekki lokið og embætti yfirdýralæknis hefur af því nokkrar áhyggjur að þessi innflutningur verði að fullu án leyfa, án þess að til frekari undirbúnings komi, þá þykir rétt að framlengja þau bráðabirgðaákvæði sem samþykkt hafa verið um þetta efni í eitt ár.

Frv. lætur lítið yfir sér en verði ekki breytingar á lögunum fyrir áramót kemst hin nýja skipan á þegar í byrjun næsta árs. Það er því ósk mín til þingsins að hraða megi afgreiðslu þessa máls fyrir jólaleyfi þingmanna. Í von um gott samstarf við það legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. sjútvn.