Vegabréf

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:25:47 (1982)

1998-12-10 15:25:47# 123. lþ. 37.5 fundur 231. mál: #A vegabréf# (heildarlög) frv. 136/1998, EKG
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við 1. umr. þessa máls fór fram talsverð efnisleg umræða. Hún var ekki um grundvallaratriði þessa frv. sem ég held að flestir séu sammála um að séu til bóta. Mér skilst að í umsögnum hafi komið fram afar jákvætt viðhorf í þessum efnum og svo var einnig við 1. umr. málsins.

Hins vegar ræddu allnokkrir þingmenn um hvort frv. leiddi til þess að sú framleiðsla á vegabréfum, sem gert er ráð fyrir að sé á einum stað í landinu, yrði að vera í nánd við skrifstofu ríkislögreglustjóra og hvort ekki væri möguleiki fyrir ríkislögreglustjóra að koma slíkri framleiðslu fyrir annars staðar á landinu. Rætt var um hvort það gæti orðið í tengslum við sýslumannsembætti á landsbyggðinni þar sem til staðar væri húsakostur, í samræmi við það viðhorf stjórnvalda, bæði fyrr og síðar, að auka hlut landsbyggðarinnar í opinberum störfum.

Þetta er ekki eitt af hinum stóru málum heldur örlítill angi af mjög stóru máli, möguleikum á að efla hlut landsbyggðarinnar í opinberum störfum. Þetta var í rauninni eina efnisatriðið sem rætt var í tengslum við frv. þegar það var lagt fram fyrr í haust. Á brtt. þeirri eða nál. sem hér eru get ég ekki séð að þetta mál hafi komið sérstaklega til umræðu. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til lagabreytingar til að tryggja að mál af þessu tagi nái fram að ganga. Ég vildi hins vegar spyrja hv. formann nefndarinnar hvort þetta atriði sem rætt var við 1. umr. málsins hafi komið á dagskrá þegar málið kom fyrir hv. allshn. Hvort t.d. fulltrúi ríkislögreglustjóra, eða a.m.k. dómsmrh., hafi tjáð sig um þetta mál sérstaklega þegar þeir komu fyrir nefndina?

Ástæðan fyrir því að þessi atriði komu til umræðu við 1. umr. málsins er m.a. sú byggðaumræða sem fram hefur farið á þinginu og annars staðar í þjóðfélaginu, í ljósi þeirrar skelfilegu stöðu sem er víða uppi. Enn fremur hafa aðstæður til að sinna störfum af þessu taginu annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu batnað verulega. Í því sambandi má nefna að framfarir í póstþjónustu sem hafa leitt til þess að póstflutningar taka nú orðið mjög skamman tíma. Við sjáum dæmi um að póstur berst á milli landshluta á hálfum eða einum degi. Það er því ljóst að mjög auðvelt er að koma þessari starfsemi við annars staðar en í nágrenni við mesta fjölmenni landsins.

Manni sýnist að hér gæti verið um lítið en athyglisvert mál að ræða sem lið í að efla dálítið atvinnustarfsemi hins opinbera á landsbyggðinni. Þess vegna vildi ég, virðulegi forseti, leyfa mér að inna hv. formann eftir því hvort þetta mál hafi verið sérstaklega rætt og hvort hv. þm. formaður nefndarinnar sé ekki sammála hv. dómsmrh. sem tók afar jákvætt í þessa hugmynd. Hann vildi láta kanna þetta mál betur. Því vildi ég spyrja hv. formann nefndarinnar hvort hann sé ekki sammála hæstv. ráðherra um málið að þessu leyti.