Vegabréf

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:34:24 (1984)

1998-12-10 15:34:24# 123. lþ. 37.5 fundur 231. mál: #A vegabréf# (heildarlög) frv. 136/1998, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort þessir grænu passar eru til enn þá. Ég hafði sem borgarstjóri á sínum tíma svona grænan passa. Það gat orðið manni til gagns í austantjaldslöndum, en yfirleitt var maður bara handtekinn ef maður sýndi þetta einhvers staðar annars staðar því tollverðir og slíkir menn höfðu aldrei séð þessa grænu passa, nema í austantjaldslöndunum, þannig að maður var þegar í stað handtekinn ef maður fór að sýna þetta. Menn héldu að þetta væri falsað. Maður bað því fljótlega um að fá bara venjulegan passa til að lenda ekki í slíkum ógöngum. Ég vona hreinlega að hætt sé að nota þessa grænu passa. Reyndar eru rauðir passar, eins og þeir voru kallaðir, ekki notaðir lengur. Þeir eru orðnir alveg eins og aðrir nema það stendur diplómatapassi á þeim. En það er ekki víst þetta dugi mönnum þó að gott sé að hafa þetta sem fyrrverandi. Við sjáum nú einn í London með svona passa og það virðist ekki koma að haldi.