Vegabréf

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:36:23 (1986)

1998-12-10 15:36:23# 123. lþ. 37.5 fundur 231. mál: #A vegabréf# (heildarlög) frv. 136/1998, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:36]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Þetta mál var rætt nokkuð ítarlega í allshn. og voru nefndarmenn sammála um að leggja til að frv. væri samþykkt svo til óbreytt. Smávægilegar breytingar, aðallega orðalagsbreytingar, eru lagðar til. Ábending hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar var ekki rædd sérstaklega að því er ég best man og gestir sem komu í nefndina tjáðu sig ekki um það mál. Væntanlega er verið að tala hér um ákvæði 1. mgr. 2. gr. um að vegabréf skuli gefið út af ríkislögreglustjóra. Í 2. mgr. 2. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að fela öðrum stjórnvöldum að gefa út vegabréf til bráðabirgða þegar sérstaklega stendur á.``

Þegar litið er á athugasemdir um 2. gr. segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Í 1. mgr. er lagt til að ríkislögreglustjóri einn gefi út almenn vegabréf, en gert er ráð fyrir því að sótt verði um útgáfu vegabréfa hjá öllum lögreglustjórum eða sendiráðum. Með tölvuvæðingu lögreglu verður unnt að gera það í hvaða umdæmi sem er, án tillits til lögheimilis umsækjanda. Rafræn samskipti við myndasöfn og aðra gagnabanka gætu einnig komið til álita. Lögreglustjóri eða starfsmaður sendiráðs gengur úr skugga um að umsækjandi sé sá sem hann lætur uppi og kannar jafnframt ríkisfang hans. Að því búnu er umsókn send ríkislögreglustjóra til afgreiðslu. Samhliða því að taka við umsókn og leggja á hana mat verður lögreglustjóra falið að innheimta lögboðin gjöld.``

Sjálf var ég ekki viðstödd 1. umr. um málið þannig að mér er ekki kunnugt um hvaða athugasemdir hæstv. dómsmrh. kom með á því stigi málsins, en auðvitað er sjálfsagt að koma þessari ábendingu á framfæri.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði um reglugerð um vegabréf. Hún var líka rædd sérstaklega í allshn. og lögð þar fram. Þar var okkur einmitt tjáð að nýbúið væri að þrengja heimildir fyrir þá sem geta borið öðruvísi vegabréf, ef svo má að orði komast. Vegna orða hæstv. forsrh. hér áðan er rétt að geta þess að í nefndinni kom einmitt fram að einn nefndarmanna hafði einmitt orðið fyrir sams konar reynslu og taldi að mun erfiðara væri að vera með þessa sérstöku passa en venjulega. Það kom fram um þetta mál.

Að öðru leyti þakka ég fyrir þær ábendingar sem hér hafa komið fram. Þetta er samkomulagsmál í nefndinni og ég vona að það nái fljótt fram að ganga.