Vegabréf

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:41:18 (1988)

1998-12-10 15:41:18# 123. lþ. 37.5 fundur 231. mál: #A vegabréf# (heildarlög) frv. 136/1998, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:41]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þori ekki að fullyrða alveg 100% um þessa ábendingu hv. þm. en ég þykist nokkuð viss um að þetta hafi líka verið rætt í hv. fjárln. Þrír nefndarmenn í allshn. hafa setið mikið á fundum þar. Kannski hefur komið upp einhver smá misskilningur í því efni. En það er sjálfsagt að kanna þetta. Ég vil benda á það, vegna þess að rætt var sérstaklega um sýslumenn í þessu sambandi --- hv. þm. Einar K. Guðfinnsson benti á hlutverk þeirra í þessu sambandi --- að reyndar kom umsögn frá þeim. En hún kom nokkuð seint inn í nefndina. Hún er dagsett 3. desember en kom ekki inn í nefndina fyrr en eftir að málið var afgreitt. Ég hef þessa umsögn undir höndum. Þar segir, með leyfi forseta:

,,1. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að unnt verði að sækja um vegabréf hjá öllum lögreglustjórum á landinu án þess þó að það sé tiltekið í lagatextanum sjálfum. Sú tillaga er gerð að það verði tekið fram í lögunum sjálfum hvar beri að sækja um að fá útgefið vegabréf.

2. Í athugasemdum við frumvarpið undir lið III segir að útgáfa vegabréfa verði í höndum ríkislögreglustjóra og að hann meti hvort umsækjandi fullnægi skilyrðum til að fá útgefið vegabréf. Í athugasemdum við 1. mgr. 2. gr. laganna segir að samhliða því að taka við umsókn og leggja á hana mat verði lögreglustjórum falið ... etc. Undirritaður telur að hér verði að taka af öll tvímæli hvað sé í verkahring lögreglustjóra annars vegar og ríkislögreglustjóra hins vegar og í hverju umsókn verði að vera áfátt til þess að lögreglustjóri synji fyrir að afgreiða umsókn umsækjanda um vegabréf. Skýrar reglur í þessum efnum stuðla að skilvirkni í stjórnsýslunni.`` (Forseti hringir.)

Í 3. lið er fjallað um aðra ábendingu í sambandi við frv.

Virðulegi forseti. Ég skil að tíminn búinn. Ég vildi bara láta það koma fram út af ábendingum hv. þm. að sýslumannafélagið er ekki að gera beinar athugasemdir við þetta atriði.