Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:44:16 (1989)

1998-12-10 15:44:16# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1999. Að venju hefur verið safnað í eitt frv. þeim lagabreytingum sem gjaldaáætlun fjárlagafrv. gerir ráð fyrir til að leggja áherslu á þann samnefnara þeirra að stuðla að aðhaldi í ríkisútgjöldum og halda jafnvægi í ríkisbúskapnum. Ákvæði þessa frv. eru þó sýnu færri en oft áður. Frv. er aðeins fimm greinar, í samanburði við 16 greinar sams konar frv. í fyrra, 27 greinar í hittiðfyrra og 63 greinar árið þar áður. Ríkisstjórnin er þannig að uppskera árangur af þeim aðgerðum sem gerðar voru í upphafi kjörtímabils. Á sama tíma hefur svigrúm í ríkisfjármálum verið notað til að koma fram ýmsum umbótum sem hafa hingað til þurft að bíða.

[15:45]

Jafnframt er þess gætt að ríkisfjármálin styðji við stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og veiti það aðhald sem nauðsyn krefur. Styrk staða efnahagsmála er óumdeild, kaupmáttur hefur aukist hröðum skrefum, atvinnuleysi er með minnsta móti, fyrirtæki hafa fjárfest í nýjum framleiðslutækjum og verðlag er stöðugt. Batnandi hagur fyrirtækja og einstaklinga hefur skilað sér í auknum tekjum til ríkissjóðs en viðskiptahalli á hinn bóginn farið vaxandi. Því er mikilvægt að sýnd sé aðgát í ríkisfjármálum og eitt skref tekið í einu þegar kemur að nauðsynlegum verkefnum. Þrátt fyrir mikið umrót á erlendum fjármálamörkuðum og lækkandi lánshæfismati ríkja, sem hingað til voru álitin mjög traust, hefur Ísland haldið sinni stöðu eftir hækkun undanfarinna ára. Er það til marks um að sú stefna sem hér hefur verið fylgt hefur fengið viðurkenningu á erlendum markaði. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að bæta almenn rekstrarskilyrði og samkeppnisstöðu atvinnuveganna hefur skilað tilætluðum árangri. Ríkissjóður lækkar skatta á almenning og fyrirtæki á sama tíma og skuldir ríkissjóðs eru greiddar niður og vaxtakostnaður þannig lækkaður. Mikill vöxtur þjóðarútgjalda og útlánaaukning bankakerfisins eru vissulega atriði sem ríkisstjórnin hefur auga með en ekkert bendir til annars en sá stöðugleiki og árangur í efnahagsmálum sem náðst hefur sé byggður á traustum grunni. Opnun hagkerfisins og fjármálamarkaðar ásamt uppbyggingu innlends verðbréfamarkaðar hefur skotið styrkum stoðum undir stöðugleika. Ríkisfjármálum er einnig ætlað að stuðla að stöðugleika með því að gera auknar kröfur til ríkisins eins og einkafyrirtæki hafa gert til sín með útboðum á verkefnum og að ríkið hætti þátttöku í atvinnurekstri sem betur er komið í höndum einkaaðila.

Þá hafa verið boðaðar almennar aðgerðir til að efla sparnað og auka eignaraðild almennings í fyrirtækjum sem færð eru úr eigu ríkissjóðs. Ég hef áður gert að umtalsefni að lögbundin framlög og útgjöld til ýmissa viðfangsefna, ýmist með eða án sérstakra tekjustofna, hafi fest rætur allt of víða í íslenskri löggjöf. Sú tilhögun kann að vísu að vera réttlætanleg í einstökum tilvikum og jafnvel æskileg innan ákveðinna marka. Þegar slík ákvæði eru fest í lög er hins vegar nauðsynlegt að hafa hugfast að með því móti er fjárveitingavald Alþingis í raun fyrir fram bundið þegar að fjárlagagerðinni kemur. Slík ákvæði draga þannig úr áhrifum þess hagstjórnartækis sem þinginu er fengið með fjárstjórnarvaldi fjárlaga, tækis sem á að vera hægt að beita með virkum hætti við heildarhagstjórn þjóðarbúsins til að gæta aðhalds í ríkisrekstri og ná jafnvægi í ríkisbúskap án þess að bjástra um leið við að skera niður lögmæt útgjöld og ná mörkuðum tekjustofnun að einhverju leyti í ríkissjóð með frv. sem þeim er borið hafa sams konar heiti og það sem nú mælt er fyrir.

Af þessum sökum hef ég á umliðnum árum beitt mér fyrir því að þessi tilhögun væri með markvissum hætti afnumin og framlög til þessara viðfangsefna þess í stað metin í tengslum við gerð fjárlaga og þannig tengd þeirri útgjaldastefnu sem mörkuð er með fjárlögum á hverjum tíma. Árangurs af þessum aðgerðum sér m.a. stað í þessu frv. á þann hátt að greinafjöldi þess er aðeins brot af því sem áður var í sams konar frv.

Vík ég þá, herra forseti, að einstökum ákvæðum frv. en greinum þess er raðað eftir ráðuneytum í sömu röð og í fjárlagafrv.

Í 1. og 3.--5. gr. frv. er að finna hefðbundin skerðingarákvæði er áður hafa verið kynnt í 6. gr. fjárlagafrv. eins og 23. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, gerir reyndar ráð fyrir. Í ljósi þess hvern áskilnað 1. mgr. 42. gr. stjórnarskrárinnar gerir um efni fjárlaga þykir hins vegar verða að leita eftir heimild til þessara skerðinga í almennum lögum jafnframt. Í 1. gr. er lagt til að tekjum af sérstökum eignarskatti sem verja á til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana renni að hluta í ríkissjóð, þ.e. um 80 millj. kr. af þeim 542 millj. sem áætlað er að skatturinn skili.

Í 3. og 4. gr. er lagt til að um 245 millj. kr. af þeim 480 millj. kr., sem ætlað er að erfðafjárskattur skili Framkvæmdasjóði fatlaðra á næsta ári, renni í ríkissjóð. Jafnframt er lagt til að framkvæmdasjóður greiði kostnað við félagslega hæfingu og endurhæfingu, svo og kostnað við starfsemi stjórnarnefnda sjóðsins eins og verið hefur.

Þá er í 5. gr. lagt til að af mörkuðum tekjum Brunamálastofnunar, brunavarnagjaldi, renni um 11 millj. kr. í ríkissjóð á næsta ári en það er sama skerðing og ákveðin var á fyrra ári. Loks er í 2. gr. frv. að finna tillögu um að gildistöku tiltekinna ákvæða í nýsettum lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, verði frestað um eitt ár. Þar er um að ræða ákvæði er varða vaktþjónustu dýralækna, starfsskyldu héraðsdýralækna, breytt umdæmamörk héraðsdýralæknisembætta og gerð gjaldskrár fyrir eftirlitsstörf héraðsdýralækna. Við undirbúning að gildistöku hinna nýju laga hefur komið í ljós að veruleg vandkvæði eru á að hrinda þessum ákvæðum þeirra í framkvæmd án verulegs kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, þ.e. kostnaðar sem ekki hafði verið gert ráð fyrir við setningu laganna og þá ekki heldur við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár. Forsendur fjárlagafrv. gera ráð fyrir að kostnaður við þessa þjónustu verði sambærilegur og samkvæmt eldri lögum um dýralækna. Með því að svo virðist ekki geta orðið að óbreyttu er í frv. þessu leitað eftir frestun á gildistöku þeirra ákvæða nýju laganna er kostnaðaraukinn stafar af.

Mér er ljóst að þessi meðferð málsins hefur sætt nokkurri gagnrýni og fram hafa komið þau sjónarmið að fresta beri gildistöku nýju laganna í heild sinni meðan ekki er útséð um hvernig þessum ákvæðum þeirra verður hrint í framkvæmd. Ég hef hins vegar kosið að leggja þetta fram í þessari mynd til að vandamálið lægi hér fyrir og hægt yrði að fjalla um það í þeirri nefnd sem frv. fær til meðferðar. Að öðru leyti eftirlæt ég hæstv. landbrh. sem hér er staddur að gera nánari grein fyrir þeim vanda sem hér er við að etja ef tilefni gefst til þess. Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.