Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 16:03:03 (1995)

1998-12-10 16:03:03# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[16:03]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta misskilning sem kom fram í máli hv. þm. þegar hann fjallaði um Endurbótasjóð menningarstofnana og þá skerðingu sem lögð er til á þeim sjóði upp á 80 millj. kr. og blandaði því síðan inn í lesaðstöðu í Þjóðarbókhlöðunni. Þeir fjármunir sem um er að ræða renna til framkvæmda við byggingar og endurbætur á menningarhúsum. Ef hann lítur á þá skiptingu sem liggur fyrir í fjárlagafrv. og einnig í áliti meiri hluta fjárln. þá er þar verið að fjalla um hús og byggingar en ekki minnst á Þjóðarbókhlöðuna, enda hefur Þjóðarbókhlaðan verið reist og smíði hennar er lokið og ekkert fé veitt úr þessum sjóði til Þjóðarbókhlöðunnar.

Varðandi hins vegar lesaðstöðu í Þjóðarbókhlöðunni þá er það rétt að unnið hefur verið markvisst að því að bæta hana og lengja þann tíma sem námsmenn geta verið í Þjóðarbókhlöðuhúsinu til að lesa og stunda sína vinnu. Menntmrn. hefur m.a. gert tillögur um það og nú hefur fjárln. gert tillögur um að 14 millj. kr. renni til Háskóla Íslands til að bæta lesaðstöðu nemenda sem stunda nám við Háskóla Íslands. Þetta held ég nauðsynlegt að hafa í huga vegna þess að það var eins um þetta mál og þau atriði önnur sem fram komu í máli hv. ræðumanns, og sérstaklega þegar hann fjallaði um efnahagsmálin, að það stendur ekki steinn yfir steini og maður skilur ekki hvað hv. þm. er að fara þegar hann kemur hér í ræðustól og leggur út af þeim frv. sem eru til umræðu án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað stendur í þeim eða um hvað þau fjalla.