Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 16:10:09 (1999)

1998-12-10 16:10:09# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[16:10]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hér var rætt um Framkvæmdasjóð fatlaðra og þá skerðingu sem þar er gert ráð fyrir. Nauðsynlegt er að taka fram örfáar staðreyndir um þetta mál og rifja upp að á árinu 1994 var í fyrsta skipti opnað fyrir heimild til að verja ákveðnum hluta af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra til rekstrarverkefna. Það hlutfall var 25% á því ári. Í fjárlögum 1997 var sú breyting gerð að rekstrarverkefnum vegna starfa var létt af sjóðnum. Þessi rekstrarverkefni eru nú samkvæmt tölum sem ég hef fengið um 170 millj. kr. Það er nauðsynlegt að halda því til haga í þessari umræðu. Þótt auðvitað megi deila um það að skerða framkvæmdasjóðinn miðað við þau verkefni sem liggja fyrir í málefnum fatlaðra, þá finnst mér að þær staðreyndir verði þó að liggja fyrir í umræðunni að að frádregnum þessum rekstrarverkefnum er skerðingin 75 millj. kr.