Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 16:24:30 (2004)

1998-12-10 16:24:30# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[16:24]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að þegar við tölum hér um frv. sem miðar að því að draga úr útgjöldum séu menn að vitna í orð, sem gjarnan eru viðhöfð úti í bæ, t.d. af hagfræðingum, um að kosningaár séu sérstaklega hættuleg. Þetta segir hver á eftir öðrum og gefa þar með til kynna að þingmenn séu svo ístöðulitlir að þegar þeir mæti kjósendum þá gefi þeir allt laust og frjálst. Það erum við einmitt ekki að gera með þessu frv. Við tökum á okkur árásir í því skyni að reyna að halda í við okkur. Þetta er því athyglisvert.

Í annan stað er rétt að geta þess að það virðist draga úr þenslu og jafnvel nokkuð hratt. Á haustmánuðum þegar þjóðhagsspá hafði verið endurskoðuð þá gerðu menn ráð fyrir að viðskiptahallinn á þessu ári yrði um 38 milljarðar kr. Nú telja menn að hann verði mun minni en þær tölur gefa til kynna, jafnvel nokkrum milljörðum minni, jafnvel 30 milljarðar. Það er há tala, ég dreg ekki úr því, en engu að síður virðist þróunin vera sú að úr hinum mikla viðskiptahalla sé að draga og muni draga nokkuð ört á næsta ári. Áhyggjur af ofþenslu í efnahagsbúskapnum virðast því ekki reistar á jafnsterkum rökum og áður.