Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 16:26:02 (2005)

1998-12-10 16:26:02# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[16:26]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að viss hreyfing er í þá átt að þessi halli geti orðið minni en spáð var. Mér sýnist að í nál. meiri hluta og minni hluta fjárln., sem dreift var á borð okkar í gærkvöldi og í morgun, sé beinlínis gengið út frá því að aukning á einkaneyslu verði á næsta ári mun minni en hún er á þessu ári. Reyndar sýnist mér að rætt sé um að hún verði 5% á næsta ári frá því að vera 10% á þessu ári. Það er ansi mikil breyting. Ég dreg í efa að það standist en látum það vera. Ég held að hvað sem öllu öðru líður verði menn að gá aðeins betur að sér.

Varðandi það að kosningaár séu varasöm þá er það engin uppfinning frá mér, því miður liggur mér við að segja, heldur hefur það oft reynst satt. Ég nefni bara árið 1987, ég þarf ekki að segja mikið meira. Þar var ekki að öllu leyti staðið skynsamlega að málum í upphafi ársins, m.a. í trausti þess að við byggjum hér við bullandi góðæri. Ég tel að ríkisstjórnir Steingríms Hermannssonar, Þorsteins Pálssonar og síðan Davíðs Oddssonar hafi að nokkru leyti þurft að taka afleiðingunum af því hvernig staðið var að málum á fyrri hluta ársins 1987. Menn sáu ekki fram úr þeim hlutum og vissu ekki hvort þeir ættu fyrir þeim ákvörðunum sem þá voru teknar. Ég held því að reynslan sýni ótvírætt að þessi ár sem kölluð eru kosningaár geti verið varasöm hvað sem öllu öðru líður.