Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 16:29:51 (2008)

1998-12-10 16:29:51# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[16:29]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst gæta þess misskilnings hjá hv. þm. að þjóðarbókhlöðuskatturinn rynni út núna um áramót. Hann rennur út um næstu áramót, þ.e. í lok ársins 1999. Þær ráðstafanir sem hér eru gerðar eru því á grundvelli gildandi laga.

[16:30]

Ég held að mig misminni það ekki. Annars hefði ég nokkuð örugglega, hv. þm., komið í ræðustól vegna þess að ég er á móti því að þjóðarbókhlöðuskatturinn verði framlengdur. Ég tel að við búum við hvað hæstu eignarskatta í OECD og það er mjög skaðlegt fyrir atvinnulífið og það er mjög skaðlegt fyrir sparnað. Allir tala um að auka sparnað, við ræddum það hér fyrr í dag. Ef einhver maður leggur á sig og dregur úr neyslu og sparar 1 millj. kr. þarf hann að borga rúmlega 14 þús. kr. á ári í eignarskatt. Að sjálfsögðu dregur þetta úr sparnaði þannig að ég er á móti því að framlengja þjóðarbókhlöðuskattinn. Fyrir utan það að hann kemur mjög illa við fátækt gamalt fólk sem býr í stórum íbúðum, þ.e. fólk sem hefur lágar tekjur. Ég vil því segja við hv. þm. að sú skoðun að framlengja þurfi þjóðarbókhlöðuskattinn á ekki við rök að styðjast.