Afnám laga um húsaleigu sem fylgir vísitölu húsnæðiskostnaðar

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 18:53:31 (2055)

1998-12-10 18:53:31# 123. lþ. 37.8 fundur 322. mál: #A afnám laga um húsaleigu sem fylgir vísitölu húsnæðiskostnaðar# frv. 168/1998, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[18:53]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um að lög um húsaleigu sem fylgir breytingum vísitölu húsnæðiskostnaðar, nr. 62/1984, falli niður.

Lög þau sem hér um ræðir voru upphaflega gefin út af forseta Íslands sem bráðabirgðalög, nr. 48 frá 22. apríl 1983. Aðfaraorð þeirra voru svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Forsætisráðherra hefur tjáð mér, að brýna nauðsyn beri til að setja lög, sem komi í veg fyrir, að ójöfn dreifing hækkunar vísitölu húsnæðiskostnaðar á greiðslutímabil frá apríl 1982 til jafnlengdar 1983 leiði til óeðlilega mikillar hækkunar á húsaleigu frá 1. apríl 1983 að því er varðar leigusamninga, sem tengdir eru þessari vísitölu og gerðir voru á nefndu tímabili.``

Ákvæði laganna voru aðallega þessi:

1. Kveðið var á um hámark á hækkun húsaleigu fyrir íbúðarhúsnæði 1. maí 1983.

2. Kveðið var á um hækkun húsaleigu fyrir atvinnuhúsnæði 1. apríl 1983.

3. Kveðið var á um að frá þriðja ársfjórðungi 1983 skyldi húsaleiga, sem fylgt hafði vísitölu húsnæðiskostnaðar, fylgja breytingu meðallauna samkvæmt tilkynningu Hagstofu Íslands en jafnframt skyldi hætt að reikna vísitölu húsnæðiskostnaðar.

4. Kveðið var á um að frjálst væri að ákveða í leigusamningum gerðum eftir marslok 1983 að leiga skuli fylgja breytingum meðallauna.

Þessi bráðabirgðalög voru síðan staðfest óbreytt og gefin út sem lög nr. 62/1984.

Þessi lagasetning fól þannig í sér viðbrögð við þeirri miklu verðbólguöldu sem reis vorið 1983. Lögin eiga hins vegar ekki við lengur. Ákvæði þeirra um hámarkshækkun húsaleigu voru tímabundin. Ákvæði um tengingu húsaleigu við breytingar meðallauna var það í reynd einnig þar sem það tók einungis til húsaleigu sem samkvæmt samningi skyldi fylgja vísitölu húsnæðiskostnaðar, en hún var numin úr gildi með bráðabirgðalögunum nr. 48/1983.

Um húsaleigu og verðtryggingu hennar ríkir nú samningsfrelsi. Lögin nr. 62/1984 fela hins vegar í sér hvatningu til verðtryggingar og jafnframt til tengingar við einn tiltekinn mælikvarða, meðallaun, sem nú verður að telja að henti illa til þess. Þessi ákvæði koma því engan veginn heim og saman við núverandi stöðu mála hvað snertir verðtryggingu í íslensku efnahagslífi. Lögin hafa fyrir löngu lokið því hlutverki sínu að verja leigjendur gegn misgengi verðlags og launa og skapa festu um húsaleigu og leigusamninga. Það er álit mitt að lögin séu að öllu leyti úrelt, þau samrýmist ekki gildandi tilhögun verðtryggingar hér á landi auk þess sem ætla megi að sú tenging húsaleigu við laun sem lögin hvetja til sé verðbólguhvetjandi. Eðlilegt sýnist því að lögin séu numin úr gildi. Þessi er enn fremur afstaða Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands sem hvatt hafa stjórnvöld til að beita sér fyrir afnámi laganna.

Lögin nr. 62/1984 mæla fyrir um að Hagstofu Íslands skuli tilkynna í lok hvers ársfjórðungs hver sé verðbótahækkun húsaleigu sem taki gildi við upphaf næsta fjórðung ársins. Í frv. þessu er lagt til að Hagstofan tilkynni í síðasta sinn um þá verðbótahækkun húsaleigu sem taka á gildi 1. janúar 1999. Húsaleiga sem breytist samkvæmt ákvæðum laganna mundi þá breytast frá þeim degi og haldast óbreytt til 1. apríl, en lagt er til að lögin falli úr gildi þann dag. Þetta er gert til þess að ráðrúm gefist í kjölfar afnáms laganna, fyrir leigusala og leigutaka sem hafa verðtryggt húsaleigu á grundvelli laganna, að semja um hvort og þá hvernig leigufjárhæð skuli breytast frá og með öðrum ársfjórðungi 1999.

Í frv. þessu eru engin fyrirmæli um hvað taka skuli við í þeim samningum sem kveða á um verðtryggingu húsaleigu samkvæmt lögum nr. 62/1984 þegar lögin falla úr gildi og verðtryggingarákvæðin verða óvirk. Samningsfrelsi ríkir um húsaleigu og því þykir eðlilegast að aðilar að húsaleigusamningi taki til endurskoðunar verðtryggingarákvæði samnings síns án þess að þeim séu í löggjöf settar skorður þar að lútandi.

Á hinn bóginn er ljóst að nauðsynlegt er að þessar breytingar séu kynntar á skýran hátt og í tæka tíð. Er gert ráð fyrir að Hagstofa Íslands muni annast þá kynningu og upplýsingaþjónustu í því sambandi.

Ég vil að lokum leggja til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.