Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 20:04:27 (2076)

1998-12-10 20:04:27# 123. lþ. 37.10 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv., ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[20:04]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Varðandi Lífeyrissjóð sjómanna er vert að benda á að eins og hér hefur komið fram voru lögin og reglurnar miðaðar við 60 ára aldur en verið er að breyta þeim í 65 ár. Og það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að fyrir 18 árum var aldursákvæðið lækkað með félagsmálapakka inn í kjarasamninga og það vantar því upp á að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Hins vegar er spurning mín til fjmrh. sú hvort það sé tryggingafræðilega útreiknað að sjóðurinn muni geta staðið við skuldbindingar sínar með þeim breytingum sem verið er að gera á 9. gr. og 10. gr. Þar er verið að hækka örorkuprósentuna og lífeyrisprósentuna frá því sem áður var. Ég get ekki séð að það muni bjarga fortíðinni, 8 milljarða hallanum, og ef miðað er við það líka að sjómönnum fjölgar ekki og þessi sjóður borgar einhverjar þær alhæstu örorkubætur sem til eru. Ungir sjómenn sem verða fyrir örorku fá örorkubætur það sem eftir er ævinnar og miðað við háar tekjur eru þetta háar upphæðir. Það er því ákaflega mikil sérstaða í þessum hóp.

En þetta snertir fleiri sjóði. Sumir sjóðir í landinu hafa orðið að taka á þessum málum vegna þess að sjómenn eru líka í þeim sjóðum. Nokkrir sjóðir á Austurlandi og á Vestfjörðum hafa orðið að breyta reglum sínum og breytt í deildir jafnvel fyrir sjómenn eftir atvikum eða axlað ábyrgðina sameiginlega. Þetta er því mjög flókið mál. Þetta á sér langa forsögu, marga fundi og miklar bollaleggingar í gegnum tíðina en þetta er sú stétt sem stendur undir lifibrauði okkar og þeir eiga svo sannarlega skilið að vel sé hugað að þeirra málum. Mér finnst persónulega, og ég held ég tali fyrir munn margra, að ríkissjóður beri þess vegna töluvert mikla ábyrgð á því sem gerðist fyrir 18 árum, að ekki sé hægt eins og segir í umsögn um frv. að segja að þetta hafi engin áhrif á útgjöld ríkissjóðs og afnema þar með öll tengsl vegna þess að hér er um ákveðinn vanda að ræða sem ég sé ekki annað en sé fullkomlega óleystur.

Ég fagna hins vegar þeim greinum og því efni sem verið er að aðlaga lögunum, öllum þeim þáttum, og tel það vera allt til hins betra, en hér þurfum við að huga vel að okkar mönnum. 87% af tekjum þjóðarbúsins koma í gegnum sjómenn og þeir eiga svo sannarlega skilið að þeirra sjóður sé í réttu horfi.