Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 20:37:14 (2079)

1998-12-10 20:37:14# 123. lþ. 37.10 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[20:37]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Eins og áður þegar við ræddum um Lífeyrissjóð bænda geri ég fyrirvara við eign og stjórn sjóðsins. Ég tel að sjómenn eigi þennan sjóð og engir aðrir og ég tel að sjómenn eigi að kjósa stjórn hans og engir aðrir. Þeir eigi að gera það beint. Það er mjög góð reynsla fyrir því hjá sjómönnum að kjósa beint bréfakosningu og þetta á ekki að vera neitt mál.

Ég er þannig gerður að ég treysti sjómönnum fullkomlega til þess að kjósa í þessa stjórn. Þetta eru fullveðja menn og ég treysti þeim sem einstaklingum algerlega til þess að kjósa sér stjórn. En mér heyrist greinilega að margir aðrir treysti þeim ekki til þess að kjósa sér stjórn.

Herra forseti. Þessi sjóður ber meiri örorkuáhættu en aðrir sjóðir og hann þyrfti hærra iðgjald. Spurning er hvort atvinnureksturinn, sem býður upp á þessa háu örorku, ætti ekki að taka þátt í því með því að greiða hærra iðgjald í þennan sjóð en greitt er í aðra.

Herra forseti. Árið 1980 var staða lífeyrissjóðanna almennt skelfileg. Þá hafði verið verðbólgutímabil, neikvæðir vextir og eignir sjóðanna brunnu upp. Þá stóð ég í því að reikna út sjóði og þá var niðurstaðan iðulega sú að það þyrfti að skerða lífeyri um 60--70, jafnvel 80% og þessar úttektir voru kirfilega lokaðar niðri í skúffum. Síðan var tekin upp verðtrygging, m.a. að frumkvæði Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Ég var þá framkvæmdastjóri þess sjóðs og ég sá það að hann tapaði jafnmiklu 1979 á neikvæðum vöxtum eins og allt iðgjald til sjóðsins var. Það hefði mátt sleppa öllu iðgjaldi sjóðsins, þ.e. 10% af launum allra verslunarmanna þess tíma ef eingöngu hefði náðst verðtrygging án vaxta. Slík var brennslan.

Nú hafa háir vextir síðan 1980 lagað stöðu sjóðanna almennt. Það gerðist að sjálfsögðu með miklum fórnum skuldara og því má ekki gleyma að það er önnur hliðin á medalíunni. Háu vextirnir sem löguðu stöðu sjóðanna eru á kostnað skuldara sem hafa liðið verulega miklar hörmungar vegna hárra og síhækkandi raunvaxta.

Sumir sjóðirnir eru þannig staddir í dag að þeir geta bætt réttindi sín og það eru aðallega sjóðir með ungu fólki eins og ég gat um fyrr á þessum fundi. Aðrir sjóðir eru búnir að skerða réttindi sín vegna þess að sjóðfélagar eru gamlir, eingöngu vegna þess. Það er svo merkilegt að það skiptir miklu meira máli um afkomu lífeyrissjóðs hver er aldursdreifing sjóðfélaganna en nokkurn tíma sú ávöxtun sem stjórnin nær á féð eða kostnaður við rekstur hans. Sumir sjóðir eiga eftir að skerða réttindi sín þegar fram í sækir.

Í morgun var ávöxtunarkrafa á löngum skuldabréfum 3,75 og hefur lækkað mjög hratt síðustu vikuna og allt þetta ár, yfir 1,15% á einu ári. Með sama áframhaldi verða vextirnir komnir í 3,5%, ekki í mars eins og ég spáði fyrir stuttu heldur fyrr. Þá þarf að fara að huga að stöðu lífeyrissjóðanna almennt og hún er mjög alvarleg þegar vextirnir fara niður fyrir 3,5%.

Menn hafa spurt hvort ríkið geti á einhvern hátt bætt stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna. Á móti stendur að búið er að skerða lífeyrisréttindi margra lífeyrissjóða. Á þá ríkið að bæta þeim líka upp? Ríkið skyldaði sjóðfélaga til að borga í þessa sjóði með lögum 1974 og 1980. Löggjafarsamkundan ákvað að allir skyldu borga í lífeyrissjóði og gerði engar ráðstafanir til þess að sjóðirnir gætu borgað lífeyri. Er það ekki á ábyrgð löggjafans að greiða þessar skerðingar hjá lífeyrissjóðum sem af einhverri tilviljun eru með aldraða sjóðfélaga? Vandi lífeyrissjóðakerfisins er einmitt sá að lífeyririnn er ekki háður kyni og aldri og fjölskyldustöðu þannig að við munum lenda í svona vanda.

Herra forseti. Aðalvandi Lífeyrissjóðs sjómanna er gæska stjórnmálamanna og óraunsæi samningsaðila. Til þess að leysa ákveðin vandamál voru menn svo miklir öðlingar að þeir lækkuðu lífeyrisaldurinn um fimm ár, bara sisona. Þeir bara gleymdu að geta þess hver ætti að borga brúsann, það gleymdist. Menn voru svo óskaplega góðir, og nú er komið að skuldadögunum. Þetta eru sennilega aðrir eða þriðju skuldadagarnir. Ég ætla að vona að nú sé komin sú staða eftir þessa skerðingu að sjóðurinn muni standa en þá vantar fyrir auknum örorkulífeyri af því að hann kostar og fer vaxandi og það vantar ef vextirnir fara niður fyrir 3,5%, sem ég held að menn ættu að hafa miklu meiri áhyggjur af en þeir hafa.

Á sama tíma, herra forseti, erum við að horfa upp á sífellt stórauknar skuldbindingar ríkissjóðs vegna opinberu lífeyrissjóðanna. Og það er ekki verið að tala um einhverjar milljónir, nei, það er verið að tala um tugi milljarða á ári. Þetta horfa hv. þingmenn á og ég hef ekki heyrt menn hafa miklar áhyggjur af þessu.

Reyndar er þetta allt saman ógreitt. Menn hafa ekki miklar áhyggjur af því. Það mátti ekki einu sinni reikna út skuldbindingu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þegar ég lagði það til. Hv. þingmenn felldu það með mjög fagurrauðri töflu. Á sama tíma og aðrir sjóðir þurfa að skerða réttindi sín má ekki einu sinni reikna út þessa skuldbindingu sem er um 140 milljarðar króna, þ.e. milljón á hvern einasta vinnandi Íslending, milljón krónur. Skuldbinding sem er eftir að greiða. Á sama tíma ætlum við að skerða Lífeyrissjóð sjómanna og marga aðra lífeyrissjóði sem er búið að skylda fólk til að borga í með lögum. Þetta er til athugunar. Þegar vextirnir lækka og ég er nær viss um að þeir gera það vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru með 85 milljarða í ráðstöfun og ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna pressar vextina niður. Það er svo mikið að þegar vextirnir lækka þarf að skerða lífeyri hjá öllum almennu lífeyrissjóðunum hjá 80% þjóðarinnar sem ekki eru opinberir starfsmenn. En á sama tíma verða réttindi opinberra starfsmanna sem eru negld niður í lögum pikkföst en iðgjaldið hækkar og rýkur upp. Iðgjaldið sem hverjir greiða? Hverjir greiða iðgjaldið, síhækkandi iðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þegar vextirnir fara niður? Það eru að sjálfsögðu skattgreiðendur, það eru þessir 80% sem eru í hinum lífeyrissjóðunum sem er verið að skerða. Ég bíð bara eftir því hvernig menn ætla að leysa þann vanda.