Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 20:45:36 (2080)

1998-12-10 20:45:36# 123. lþ. 37.10 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[20:45]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. flutti áðan efnismikla ræðu og víða var komið við. Ég hef þá trú að með þessu máli sem nú snýr að Lífeyrissjóði sjómanna með þá ásýnd sem betur fer að örorkulífeyrisþegum fækkar, þá mun Lífeyrissjóður sjómanna standa við skuldbindingar sínar er fram líða stundir.

Hitt er annað mál, sem ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, en það er varðandi þá ávöxtun sem allir tryggingafræðingar sem komið hafa nærri lífeyrissjóðunum hafa bent á, þ.e. 3,5%, og margir hafa talað um í gegnum árin. Meira að segja er ekki langt síðan að hljóð kom frá Seðlabankanum um að það væri óraunhæft hjá tryggingafræðingunum að reikna bara með 3,5% ávöxtun því að á Íslandi yrðu þeir aldrei svona lágir. Nokkuð hafa menn litið til þess með ótta sem ég held að sé eðlileg varúðarráðstöfun sem lífeyrissjóðirnir hafa gripið til, en það er að ávaxta fé sitt erlendis. Það er bara af hinu góða. Hvernig hins vegar fer hér á fjármálamarkaðnum getur enginn spáð um en auðvitað setur ugg að öllum sem vilja passa lífeyrissjóðina þannig að þeir eigi fyrir skuldbindingum sínum, ef svo fer sem horfir að vextirnir eigi eftir að fara jafnvel niður fyrir 3,5%.