Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 20:50:15 (2083)

1998-12-10 20:50:15# 123. lþ. 37.10 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[20:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð í lokin um leið og ég þakka fyrir áhugaverða og að mörgu leyti fróðlega umræðu um þetta mál. Nokkrum spurningum var beint til mín í umræðunni. Hv. síðasti ræðumaður spurði mig í sinni fyrri ræðu hvort ákvæði 9. og 10. gr. frv. mundu nægja til þess að leysa þann vanda sem fyrir liggur upp á rúmlega 8 milljarða í skuldbindingum umfram getu eða eignir. Við höfum ekki annað við að styðjast í því efni en þá útreikninga sem sjóðurinn sjálfur leggur fram. Samkvæmt þeim á þetta að duga til þess að jafna þennan halla.

Að öðru leyti innti hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, og e.t.v. fleiri, mig eftir því hvort ríkissjóður bæri einhverjar skyldur umfram það sem lögákveðið er. Þar held ég að verði að tala alveg skýrt. Ríkissjóður ber enga fjárhagsábyrgð gagnvart Lífeyrissjóði sjómanna. Hins vegar hefur löggjafinn ítrekað, eins og á var bent, veitt sérstaka fjármuni inn í þennan sjóð, t.d. við niðurlagningu síldarútvegsnefndar og uppgjörið á Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins, og svo var gengismunasjóður hér áður fyrr meðan sú aðferð tíðkaðist, en það þýðir ekki að ríkissjóður standi á bak við skuldbindingar þessa sjóðs á sama hátt og t.d. Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þannig að það verður að liggja alveg fyrir.

Að öðru leyti held ég að öllum ræðumönnum í þessari umræðu sé ljóst að þessi sjóður á við mikinn vanda að stríða. Stjórn sjóðsins gerir það ekki að gamni sínu að leggja til réttindaskerðingu upp á 13,4%. En það gerir hún auðvitað af fyllstu ábyrgð vegna þess að henni ber skylda til þess að reyna að tryggja að sjóðurinn eigi fyrir skuldbindingum sínum. Stjórn sjóðsins er í nauðvörn í þessu máli. Þingið verður að vega það og meta hvort það verður við þessum óskum eða kemur með eitthvað annað í staðinn sem gerir sama gagn, til að mynda eitthvað í átt við það sem Farmanna- og fiskimannasambandið hefur lagt til. En þingið hefur ekki leyfi til þess að horfa aðgerðalaust á þetta gerast og má ekki sýna minni ábyrgð í þessu máli en stjórn sjóðsins hefur gert. Stjórn sjóðsins tekur skyldur sínar alvarlega. Þingið verður að gera það líka.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi umræðunnar að fyrir mitt leyti eru aðrar hugmyndir í þessu efni velkomnar og ekkert er sjálfsagðara en að skoða hvort hægt er að finna lausn á þessu máli sem breiðari sátt getur verið um en nú er, ef menn á annað borð ná utan um vandann og geta leyst málið. Það verður verkefni efh.- og viðskn. á næstunni að skoða það og ráðuneytið sem ég ber ábyrgð á mun að sjálfsögðu vera boðið og búið að koma að þeirri vinnu hvenær sem er.