Ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 21:00:51 (2085)

1998-12-10 21:00:51# 123. lþ. 37.12 fundur 336. mál: #A ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði# (réttur til styrkja) frv. 143/1998, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[21:00]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég get fullvissað hæstv. menntmrh. um að ekki verða miklir erfiðleikar með fljóta afgreiðslu á því máli sem hann mælir fyrir. Þetta mál er eins og hann benti á ákveðið réttindamál fyrir stóran hóp framhaldsskólanema, um 360 nemendur eins og staðan er núna sem gætu notið góðs af.

Það sem rekur mig hins vegar í ræðustólinn, herra forseti, er eiginlega svolítil undrun. Í umræðunni undanfarið hefur annað veifið verið rætt um þingmenn með slaka meðalgreind og ég reikna með að ég sé einn af þeim því að ég skil ekki alveg framgang mála í þinginu.

Eins og hæstv. ráðherra gat um áðan liggur frv. sama efnis fyrir menntmn., þ.e. 25. mál þingsins. Forsaga þess máls er sú að sú sem hér stendur flutti mál sama efnis á síðasta þingi, þ.e. að réttur til námsstyrks, dreifbýlisstyrks, félli þá einungis niður ef viðkomandi nýtti sér rétt sinn til töku námsláns í stað þess að gildandi lög gera ráð fyrir því að rétturinn einn útiloki nemendur frá dreifbýlisstyrknum. Það mál sem var 645. mál 122. þings var sent út til umsagnar og þær umsagnir sem bárust voru þess eðlis að ég endurflutti málið strax í haust ásamt hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni. Þegar það mál kom til menntmn., vegna þess að fyrir því hefur verið mælt fyrir nokkru, var ákveðið að senda málið ekki aftur út til umsagnar heldur að kalla þá til viðtals við nefndina sem áhugi var að heyra í þegar komið yrði að vinnslu þess. En ekki þarf að orðlengja það frekar, herra forseti. Þessu máli hefur ekki verið hreyft í nefndinni.

Í sjálfu sér er þetta ekki nýtt í hv. menntmn. því að við stjórnarandstæðingar erum tiltölulega vön því að mál okkar liggi þar óunnin en ég varð samt satt að segja svolítið undrandi þegar því máli sem hæstv. ráðherra mælti fyrir var dreift á þinginu fyrir nokkrum dögum. Kannski undrandi vegna þess að það háttar þannig til að formaður hv. menntmn. er jafnframt þingflokksformaður Sjálfstfl. Ég ímynda mér að þegar málið var afgreitt frá þingflokknum hafi hún upplýst að mál þessa efnis lægi þegar fyrir nefndinni. Það er reyndar svo að orðalagið er ekki nákvæmlega eins vegna þess að í því frv., sem ég mælti fyrir fyrr í haust og reyndar einnig í fyrra eins og fram hefur komið, er hugsunin orðuð þannig að réttur til styrks falli niður ef nemandi nýtir sér rétt til töku námsláns. En í frv. ráðherrans segir að þeir skuli ekki njóta styrks sem nýta sér rétt til láns. Hugsunin er greinilega sú sama. Þetta er í raun sama málið þó orðalag sé ekki alveg hið sama.

Nú skilst mér, herra forseti, að þessu máli eigi að hraða í gegnum þingið fyrir jól og ég sé að til stendur að afgreiða jafnframt brtt. upp á 25 millj. vegna þeirra breytinga sem eiga að verða á lögunum. Þess vegna hlýt ég að spyrja: Af hverju var það frv., sem nú liggur fyrir nefndinni og er búið að liggja frá því í október og var þar líka á síðasta þingi, ekki afgeitt frá nefndinni og þá hugsanlega með einhverjum breytingum á orðalagi sem hefði þá verið þekkilegra? Það hefði verið mér að meinalausu. Af hverju var það ekki afgreitt frá nefndinni frekar en flytja sams konar mál í þinginu? Hver er venjan þegar svo háttar til að tveir aðilar hafa flutt sams konar mál? Er þá annað þeirra afgreitt frá nefndinni og hitt liggur áfram óafgreitt? Herra forseti. Ég spyr vegna þess að ég þekki hreinlega ekki framgang mála en ég velti því auðvitað fyrir mér hvort það er ekki venja eða gengur það ekki að frumkvæði komi frá þingmanni eða stjórnarandstöðuþingmanni? Verður frumkvæði að koma frá framkvæmdarvaldinu til að frv. sé tekið til efnislegrar afgreiðslu?

Slíkar spurningar hljóta auðvitað að vakna, herra forseti, vegna þess að bæði ég og hæstv. ráðherra hefðum getað sparað okkur biðina í dag eftir umfjöllun um þetta mál einfaldlega með því að afgreiða það mál, sem eins og ég segi, liggur þegar fyrir nefndinni og hefur legið þar um hríð, umsagnir eru til um það mál og það hefði verið fljótafgreitt ef vilji hefði verið fyrir hendi.

Ég þarf ekki að endurtaka það, herra forseti, að auðvitað styð ég þetta mál. Þetta er þörf breyting á þessum lögum. Ég rökstuddi það í framsöguræðu minni. Það hefur hæstv. ráðherra líka gert. Það hefur reyndar gerst síðan ég mælti fyrir máli mínu að sú skýrsla sem ráðherrann vitnar í kom fram. Það er gott að hún er komin fram. Hún er gagnleg inn í umræðuna um námsstyrki eða námsstuðning. Það mál sem við fjöllum um hérna er ekki stórt og það er ekkert mjög dýrt, 24--25 millj., en það skiptir máli fyrir býsna stóran hóp. Hins vegar er ég á því að bæði það sem fram kemur í skýrslu okkar og ýmislegt fleira í kerfi okkar kalli á heildarendurskoðun á námsstuðningi en það mál á ekki heima í þessari umræðu.

Herra forseti. Ég hlaut að koma upp til að ræða þessa sérkennilegu stöðu, af hverju er verið að flytja mál á síðustu dögunum fyrir jól, mál sem er áhugi á að gera að lögum þegar tillaga sama efnis liggur þegar fyrir nefndinni? Tillaga sama efnis lá fyrir nefndinni í fyrra og þá var leitað umsagna. Kannski er þetta eitthvað sem hefur oft gerst og þykir bara sjálfsagður siður en ég þarf a.m.k. að fá skýringar á því hvernig þetta gengur síðan fram vegna þess að mér er ekki alveg ljóst, hvorki af hverju þarf að hafa þennan háttinn á né hvernig framgangsmátinn verður síðan í hv. nefnd þegar hún fer að fjalla um málið sem ég geri ráð fyrir að hún geri á næstu dögum.

Að lokum, herra forseti, ekki mun standa á mér að styðja þetta mál og ég geri ráð fyrir að stjórnarandstaðan muni slást í lið með stjórnarflokkunum þegar að því kemur vegna þess að um réttlætismál er að ræða.