Ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 21:17:03 (2088)

1998-12-10 21:17:03# 123. lþ. 37.12 fundur 336. mál: #A ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði# (réttur til styrkja) frv. 143/1998, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[21:17]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Bara smáleiðrétting vegna þess að hæstv. ráðherra talaði um svipað efni. Það er ekki um svipað efni að ræða, herra forseti, það er sama efnið. Það er blæbrigðamunur á orðalagi en það er nákvæmlega sama efni sem er í þessum tveimur frumvörpum og það er nákvæmlega sami tilgangur með þeim báðum, þ.e. að breyta lögunum um jöfnun námskostnaðar þannig að þeir sem eiga rétt á námsláni séu þá ekki einungis vegna þess réttar sviptir þeim möguleikum að þiggja dreifbýlisstyrk.

Það er alveg rétt sem ráðherrann vísar í að það eru ágætar upplýsingar og gagnlegar sem koma fram í skýrslu hans en það vita líka allir sem hafa heyrt í námsmönnum, ekki síst iðnskólanemum eða iðnnemum, að þeir hafa auðvitað haft áhyggjur af því að þurfa að nýta námslánarétt sinn þegar á framhaldsskólastigi af því að þeir vilja gjarnan eiga hann óskertan ef þeir ætla sér í frekara nám. Þess vegna er þessum nemendum alveg sérstakur fengur að því að fá líka eða geta átt von á dreifbýlisstyrknum og geta geymt sér lánsréttinn en geta fengið dreifbýlisstyrkinn til stuðnings í námi sínu.

Þetta erum við sammála um og það er m.a. til þess að mæta þessu fólki sem mál mitt var flutt og sömuleiðis mál ráðherrans. Þetta er ekki svipað efni, herra forseti. Það er sama efni. Auðvitað hlýtur að vera hægt með einhverjum hætti tæknilega að greiða úr þessu í menntmn. En eigi að síður, herra forseti, skilur þessi málsmeðferð eftir ákveðnar spurningar í huga mínum, spurningar um vinnubrögð á Alþingi. Þeim hefur ekki verið svarað en þær sitja svo sannarlega eftir.