Málefni fatlaðra

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 10:56:11 (2096)

1998-12-11 10:56:11# 123. lþ. 38.5 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[10:56]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessi málflutningur hv. þm. er með ólíkindum og ótrúlegt hve langt þingmaðurinn seilist til að hefja máls á útsvarshækkun hjá Reykjavíkurborg þegar til umræðu er flutningur á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga. Hv. þm. ætti að líta sér nær, t.d. að því er varðar Kópavog. Kópavogsbúar hafa búið við útsvarshækkun allan þann tíma sem íhaldið hefur stjórnað, hið sama og Reykjavíkurborg gerir nú fyrsta skiptið í mörg herrans ár. Það hefur aldrei heyrst í hv. þm. þó Kópavogsbúar hafi mátt búa við miklu hærri útsvarsálagningu en Reykvíkingar sl. fimm ár ef ekki lengur. Félagsleg þjónusta er síðan miklu betri í Reykjavík en nokkurn tímann í Kópavogi.

Aldraðir eru t.d. hlutfallslega miklu fleiri í Reykjavík en úti á landi eða í kjördæmi hv. þm. Sama má segja um fjárhagsaðstoð. 20% þeirra sem fengu fjárhagsaðstoð 1996 áttu árið áður lögheimili í öðrum sveitarfélögum. Ég held að það séu fá sveitarfélög, ef nokkur, sem búa betur að fötluðum en Reykjavíkurborg Þessi málflutningur hv. þm. er því alveg með ólíkindum. Það að kenna Reykjavíkurborg um að þessu sé frestað og Reykjavík sé vanbúin til að taka við þessu er ekki boðlegur málflutningur. Fyrir það fyrsta var allt of lítið fjármagn flutt til sveitarfélaganna þegar grunnskólinn var færður yfir til þeirra. Sveitarfélögin eru að súpa seyðið af því núna.

15 milljarðar af skuldahala sveitarfélaga eru vegna verkefna sem ríkið hefur fært yfir til þeirra. Það er fyrst og fremst vegna þess að ríkið hefur ekki skilað niðurstöðu sinni að því er varðar fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, um hve mikið fjármagn verði flutt yfir til sveitarfélaganna við yfirtöku þeirra á málefnum fatlaðra, að málið er vanbúið. Það eru allar staðreyndir málsins. Ég held að hv. þm. ætti að muna að það á að skerða Framkvæmdasjóð fatlaðra um 250 millj. sem (Forseti hringir.) gerir auðvitað sveitarfélögin óróleg þegar þau eiga að taka inn þennan málaflokk.