Málefni fatlaðra

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 10:58:36 (2097)

1998-12-11 10:58:36# 123. lþ. 38.5 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[10:58]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fer um víðan völl og talar um að Kópavogur ætti frekar að vera mér hugleikinn en Reykjavíkurborg. Ég get lýst því hér yfir, herra forseti, að ég er afskaplega hreykinn af því hvernig núverandi meiri hluti hefur tekið á málefnum Kópavogsbæjar. (JóhS: Og útsvarinu þar síðastliðin ár.) Ef við lítum á Kópavog sem bæ, eftir að þar hefur verið sjálfstæðismeirihluti í átta ár, þá hefur hann tekið algjörum stakkaskiptum. Hvað hefur gerst? (Gripið fram í.) Kópavogur hefur tekið forustu sveitarfélaganna af Reykjavíkurborg. Hvar er uppbyggingin í þessu landi? Hún er í Kópavogi. Ég held að hv. þingmenn séu komnir út á dálítið hálan ís þegar þeir eru að reyna að gagnrýna Kópavog sem hefur í raun staðið fyrir mestu uppbyggingu sem þekkst hefur í einu sveitarfélagi á undanförnum árum. Þar fyrir utan hafa þeir bætt menningarmál og önnur sem skipta íbúana gríðarlega miklu frá því sem áður var. Það er ekki nema von að hv. þingmönnum vinstri manna svíði undan þessum staðreyndum. Mig undrar það ekki neitt, herra forseti, og ég skil vel að fyrir þá sé erfitt að verja slíkt.

Staðreyndin er sú að Reykjavíkurborg óskar eftir því að flutningi á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna verði frestað. Ég veit ekki til þess, eftir því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, að óskað hafi verið eftir að fresta málinu um eitt ár. Ég veit ekki betur en óskað hafi verið eftir því að þessu máli yrði frestað og ósköp eðlilegt að það yrði gert um óákveðinn tíma, enda Reykjavíkurborg ekki tilbúin til þess að taka við þessum málaflokki. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ítrekaði það hér sjálf að hún vildi fá betri skýringar á hvers vegna Reykjavíkurborg hefði beðið um þessa frestun, en eins og ég hef sagt hér áður þá liggur það í augum uppi. Þeir treysta sér ekki til að taka við þessu.

(Forseti (GÁ): Forseti verður að minna hv. þm. á að málefni fatlaðra eru hér á dagskrá.)