Málefni fatlaðra

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 11:04:51 (2100)

1998-12-11 11:04:51# 123. lþ. 38.5 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[11:04]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í gær stóðu fundir mun lengur en gert hafði verið ráð fyrir vegna þess að eftir þrábeiðni stjórnarflokkanna var fallist á að taka fyrir nokkur mál eftir umræðuna um gagnagrunninn. Það endaði með því að fundi lauk ekki fyrr en seint á tíunda tímanum í gærkvöldi. Síðan féllst stjórnarandstaðan á að taka fyrir nokkur mál á málasviði félmrh. nú á undan fjárlagafrv. í dag. Við gerðum þá ráð fyrir því, og formaður þingflokks Sjálfstfl., að sú umræða tæki kannski ekki mjög langan tíma.

Núna hefur Sjálfstfl. beitt sér fyrir því að þessi umræða hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir. Það er þakkarvert og þýðir væntanlega jafnframt að stjórnarflokkarnir séu fallnir frá því að ræða fjárlagafrv. í dag. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því, og formann þingflokks Framsfl. líka sem er hér stödd, hvort tilfellið sé þá að stjórnarflokkarnir séu ákveðnir að ræða ekki um fjárlagafrv. í dag heldur um málefni fatlaðra sem nauðsynlegt er að ræða, sérstaklega í ljósi þess mikilvæga málflutnings sem hér hefur verið hafður í frammi af hálfu hv. þm. Kristjáns Pálssonar.

Ég vil því spyrja hvort ekki sé nauðsynlegt að skoða þessa stöðu á ný og segi sem mína skoðun: Ég tel að nú eigi að gera fundarhlé og endurmeta fundarhaldið. Það gengur ekki að þvæla málum svona undan sér eins og nú er. Með þessu áframhaldi verður hér fundur langt fram á nótt í nótt og allan daginn á morgun um fjárlagafrv. eins og málin standa núna. Það hafði verið gert ráð fyrir að þannig tækist að halda á málum að fram færi atkvæðagreiðsla um fjárlagafrv. í fyrramálið og nefndarfundir yrðu á morgun og á mánudaginn.

Ef menn hins vegar kjósa, sem er þakkarvert, að ræða málefni fatlaðra, þá tel ég að við eigum að taka um það ákvörðun. Ég spyr hæstv. forseta hvort honum sé kunnugt um að það sé ákvörðun stjórnarflokkanna að dagurinn í dag verði tekinn í umræður um málefni á sviði félmrh., þar á meðal málefni fatlaðra, eða hvort ætlunin er að fara í fjárlagafrv. Það verður að gera annað hvort en hvort tveggja verður ekki gert. Í þessum sal er eins og kunnugt er bara einn ræðustóll.

(Forseti (GÁ): Forseti vill taka fram að hann taldi, þegar þessi þrjú mál á málefnasviði hæstv. félmrh. voru tekin fyrir í morgun, að þau mundu taka örstutta stund og vonast reyndar enn til að svo verði.)