Málefni fatlaðra

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 11:07:50 (2101)

1998-12-11 11:07:50# 123. lþ. 38.5 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, KH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[11:07]

Kristín Halldórsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Samkvæmt starfsáætlun þingsins stóð til að 2. umr. um fjárlög færi fram fyrir viku. Lengi vel átti hún að fara fram á þriðjudaginn var eða miðvikudag. Nú er kominn föstudagur. Hér stóð til að ræða fjárlög íslenska ríkisins en hvorki Reykjavíkurborgar né Kópavogskaupstaðar því ekki veitir af deginum til að ræða fjárlög íslenska ríkisins.

Ég dróst á það með miklum semingi í gær, af tillitssemi við hæstv. félmrh., að hér yrði mælt fyrir þremur málum sem þurftu að komast til nefndar. Hæstv. félmrh. var vant við látinn hluta dagsins í gær. Því var haldið fram, eins og fram kom hjá hæstv. forseta, að þessi mál mundu taka mjög skamman tíma í umræðu. Hér heldur fulltrúi Sjálfstfl. hins vegar uppi ræðuhöldum og þrasi. Ég mótmæli því að þannig sé gengið á þann tíma sem verja átti til umræðu um fjárlög næsta árs. Ég legg til að þessum málum verði hreinlega frestað og tekið til við að ræða fjárlögin eins og til stóð.