Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 12:55:48 (2108)

1998-12-11 12:55:48# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[12:55]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrirspurnir hv. 4. þm. Austurl. voru um tvennt. Fjárveitingar til umhverfismála og þá tveggja stofnana sem heyra undir umhvrn. Ég get tekið undir að þarna er vandi á ferðinni. Við höfum reynt að hafa samráð við umhvrn. og fengum þeirra tillögur. Vissuleg er þarna við vanda að etja sem þarf alveg sérstaklega að huga að en tillögurnar gera ekki ráð fyrir því, það er rétt. Komið hefur verið til móts við nokkra þætti í umhvrn. en hvergi nærri allt eins og ég gat um í upphafsræðu minni þegar ég talaði um hvernig við hefðum sinnt verkefnum í heildina.

Hvað niðurgreiðslu á rafhitun varðar er það rétt að við 2. umr. er ekki gert ráð fyrir hækkun fram yfir 50 millj. frá yfirstandandi ári sem settar voru inn í upphafi. Það gerir ekki meira en að halda í horfinu en við áformum að vinna að þessu máli á milli 2. og 3. umr. og höfum nefnt húshitunarkostnaðinn sérstaklega sem verkefni sem huga þurfi að varðandi byggðamálaþátt þessa frv. Ég get tekið undir að það sé nærtækasta verkefnið ef vilji er til að taka á í byggðamálum og jafna aðstöðu manna. Við höfum viljað sjá hverju við hefðum úr að spila en vonandi getum við tekið á þessu fyrir 3. umr.