Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 13:00:24 (2110)

1998-12-11 13:00:24# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[13:00]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í rauninni ekki miklu við að bæta það sem ég sagði í upphafi. Ég vil þó aðeins segja um húshitunarkostnaðinn að það eru að sjálfsögðu rafhitunarsvæðin sem eiga við mestan vanda að etja og verður auðvitað að líta sérstaklega til þess. Það er óþægilegt að berjast við hækkanir Landsvirkjunar í þessu sambandi þegar við viljum sækja fram. Eins og síðast þá gerðu þær 50 milljónir sem við settum til aukningar í þessu aðeins að halda í horfinu. Það er ljóst. Ég endurtek að fullur vilji er til þess hjá meiri hluta nefndarinnar að skoða þetta mál.

Um umhverfismálin er það að segja að það er alveg rétt að sýnileg fjárþörf er í þeim málaflokki á næstu árum. Og vegna ábendinga hv. þm. um hin þrjú verkefni, hann bætti einu við í síðari hluta andsvars síns, þá blasir mikil fjárþörf við vegna framkvæmdar skipulagslaga. Við höfum því miður ekki getað komið á móts við hana að þessu sinni. En það er alveg ljóst að þetta er verkefni sem þarf að fást við og útgjaldaþörf sem blasir við innan tíðar. Ég tek undir það. En við höfum ekki getað mætt öllu og tillögurnar gera ekki ráð fyrir því að þessu verði mætt þrátt fyrir að ýmsum erindum umhvrn. hafi verið sinnt. Það hefur ekki verið svo að umhvrn. hafi ekki vakið athygli á þessum málum og við höfum sinnt ýmsum erindum þaðan.