Viðvera ráðherra og þingmanna við fjárlagaumræðu

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 13:05:51 (2112)

1998-12-11 13:05:51# 123. lþ. 38.93 fundur 158#B viðvera ráðherra og þingmanna við fjárlagaumræðu# (um fundarstjórn), HG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[13:05]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er nú ekki við hæstv. forseta að sakast að þingmenn séu ekki hér fleiri undir þessari umræðu og sama má segja um hæstv. ráðherra. En ég tek eindregið undir það sem fram kom í máli hv. 12. þm. Reykn. að svipurinn á þessari umræðu er mjög dapurlegur, svo maður noti nú það lýsingarorð að þessu sinni. Það er ekki aðeins almenn óvirðing við þingið að ekki skuli vera meiri þátttaka í þessu og viðvera. Auðvitað kemst maður ekki hjá því að hugsa til þeirra sem vinna í fjárln., fyrir utan formann og einstaka nefndarmenn, að þeir skuli ekki sjá ástæðu til þess að vera hér við framsögu hv. formanns nefndarinnar sem hefur flutt ágætt yfirlit til þingsins um störf nefndarinnar. Ég held að allir viðurkenni að hann vinni störf sín af mikilli samviskusemi. Mér finnst ekki bragur á því að ekki skuli vera betur fylgst með máli hans og umræðunni í heild sinni.

Ég tek undir það sjónarmið að auðvitað eigum við í raun kröfu á að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir umræðuna. Þó að gott sé að vita af hæstv. fjmrh. einhvers staðar á sveimi þá hefði ég heldur kosið að hæstv. ráðherra sæti sem mest við undir umræðunni meðan hún fer fram. Það sama gildir auðvitað um aðra ráðherra eins og nefnt hefur verið.