Viðvera ráðherra og þingmanna við fjárlagaumræðu

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 13:07:56 (2113)

1998-12-11 13:07:56# 123. lþ. 38.93 fundur 158#B viðvera ráðherra og þingmanna við fjárlagaumræðu# (um fundarstjórn), MF
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[13:07]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur að það er illþolanlegt að hæstv. ráðherrar skuli ekki vera viðstaddir umræðu um fjárlögin. Þó að þekking hv. formanns fjárln. á því sem hér fer fram sé ekki dregin í efa þá er hér verið að ræða framlög til einstakra málaflokka og mjög margir þingmenn ætla að ræða það sérstaklega. Ég nefni heilbrigðismálin, menntamálin og félagsmálin. Menn vilja gjarnan heyra álit ráðherra á þeim tillögum sem bæði liggja fyrir frá meiri hlutanum og þeim erindum sem hafa verið send inn og ekki hafa fengist afgreidd, og draga auðvitað fram yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í einstökum málefnum, t.d. hvað varðar úrræði fyrir unga fíkniefnaneytendur, í heilbrigðismálunum, fyrir aldraða og öryrkja og fleira.

Ég tek því undir þá kröfu sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir setti hér fram um að ráðherrarnir yrðu flestir og helst allir viðstaddir umræðuna.