Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:14:21 (2122)

1998-12-11 14:14:21# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), SighB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:14]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Eins og forseti sagði áðan er öllum þingmönnum kunnugt um að það er í andstöðu við vilja forseta að haldnir séu nefndarfundir á sama tíma og þingfundir standa nema í fullu samkomulagi. Öllum þingmönnum er kunnugt um þetta, líka meiri hlutanum í heilbr.- og trn. Engu að síður var þessi fundur haldinn og málið tekið út úr nefndinni gegn vilja minni hlutans eftir að þingfundur hófst, og einn nefndarmanna sem leitaði hér til forseta með þá ósk að sú afgreiðsla færi ekki fram á þennan hátt hafði ekki einu sinni tækifæri til að vera staddur á nefndarfundinum vegna þess að hann var að beina umræddri ósk til hæstv. forseta.

Virðulegi forseti. Ég endurtek það að öllum þingmönnum er ljóst að þetta eru starfsaðferðir sem eru í andstöðu við vilja forseta þingsins. Þess vegna treysti ég á að forseti þingsins beiti sér fyrir því að hnekkja þessum vinnubrögðum og að hann sjái til þess að heilbr.- og trn. geti afgreitt þetta mál eðlilega, enda er ekki gert ráð fyrir því, eins og hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan, að málið geti komið til umfjöllunar og 3. umr. á Alþingi fyrr en einhvern tíma í næstu viku.

(Forseti (ÓE): Hv. þingmenn hafa væntanlega tekið eftir því að gert var lengra hlé heldur en venja er, að beiðni nefndarinnar. Við þeirri beiðni var orðið, en ekki ætlast til að fundur stæði lengur en til klukkan tvö.)