Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:16:14 (2123)

1998-12-11 14:16:14# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:16]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vek athygli á því að þau tíðindi, sem nú hafa borist meðan þessi umræða hefur staðið yfir, eru mjög alvarleg. Ef það er rétt sem er upplýst að málið verið keyrt út með offorsi af meiri hlutanum þá stöndum við frammi fyrir mjög alvarlegum hnút sem þetta þing er komið í vegna þess að ég man ekki eftir að hafa kynnst slíkum yfirgangi af einni nefnd eins og hér er upplýst.

Við vorum mörg sem byggðum afstöðu okkar við atkvæðagreiðslu við 2. umr. um þetta mál í gær á því að málið væri ekki útrætt og það ætti eftir að fá ítarlegri skoðun í nefndinni. Nú, daginn eftir, berast þær upplýsingar að búið sé að keyra málið út úr nefndinni.

Herra forseti. Ég vek athygli á því að stofnanir og fulltrúar sem hafa óskað eftir að mæta aftur á fund nefndarinnar og koma skoðunum sínum á framfæri, eins og Mannvernd, Læknafélag Reykjavíkur, Læknafélag Íslands, siðfræðiráð og læknadeild háskólans, er meinað að koma á fund nefndarinnar. Ég man ekki eftir slíkri uppákomu og hef ég nú setið nokkuð lengi á þingi.

Þetta er dónaskapur og þetta er hneyksli. Þetta er svo mikill yfirgangur við minni hluta nefndarinnar og lýðræðið er svo fótum troðið að málið verður að takast upp á vettvangi forsætisnefndar að mínu mati og formanna þingflokka og knýja meiri hluta heilbr.- og trn. til að taka málið eðlilega upp. Þingið á ekki að bjóða virðulegum stofnunum úti í þjóðfélaginu upp á þann dónaskap að þær megi ekki koma og hitta fulltrúa nefndarinnar til að koma nauðsynlegum ábendingum á framfæri um þetta mál sem er kannski stærsta mál síðari tíma sem þetta þing hefur fjallað um. Þær ábendingar sem þetta fólk vill koma á framfæri skipta kannski miklu um málið, eru réttmætar ábendingar til þess að málið fái eðlilegan framgang á þinginu.

Þetta er mjög alvarleg staða, herra forseti, og á því hlýt ég að vekja athygli. Að við skulum hafa verið að afgreiða málið í gær við 2. umr. með því fororði að það ætti eftir að fara fram ítarleg umræða um málið í nefndinni og við erum fram undan með nefndardaga og málum sé þjösnað svona út úr nefndinni, ég hef aldrei orðið vitni að slíku fyrr. Aldrei.