Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:27:00 (2127)

1998-12-11 14:27:00# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:27]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Sem áheyrnarfulltrúi í heilbr.- og trn. sem setið hefur langflesta fundi nefndarinnar um þetta mikilvæga mál harma ég þessi málalok. Það er mjög sérkennilegt að upplifa það eftir það góða samstarf sem hefur átt sér stað í nefndinni að núna skuli svona hart keyrt. Eftir umræðurnar við 2. umr. var því lýst yfir að málið væri enn þá í vinnslu og við í minni hlutanum vorum tilbúin til þeirrar vinnu.

Síðan er á fundi í morgun rætt um að það verði fundardagar bæði á morgun í þinginu og á mánudaginn. Þá er tilkynnt að fundur verði í nefndinni í hádeginu og málið hugsanlega keyrt þar út. Það var vitað að þennan fund í hádeginu gátu tveir hv. þingmenn ekki setið, hvorki Bryndís Hlöðversdóttir né Ögmundur Jónasson sem er áheyrnarfulltrúi.

Ég harma því mjög þessi vinnubrögð og efnislega vil ég að það komi fram að verið er að gera eðlisbreytingar á frv. núna og það kom fram í máli tölvunefndar áðan að þessar breytingar væri ekki hægt að gera nema með skýrari lagastoð því um persónugreinanlegan grunn væri að ræða. Það er nefnilega nákvæmlega það. Þar með er grundvöllur fyrir þessu frv. brostinn og þess vegna vill meiri hlutinn hvorki fá til sín erfðafræðinga né fulltrúa frá Mannvernd né nokkrum öðrum samtökum heldur keyra málið í gegn.

Grundvöllur málsins er gjörsamlega brostinn og þetta er ólíðandi bæði efnislega fyrir þetta mál og ekki síður fyrir störf þingsins. Ég vil mótmæla þessum vinnubrögðum.