Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:28:58 (2128)

1998-12-11 14:28:58# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er komin upp kunnugleg staða, mér liggur við að segja hefðbundin staða í samskiptum meiri hluta og minni hluta á þinginu á þessu kjörtímabili. Í raun og veru er þetta þó dæmigerðara fyrir þau samskipti sem hafa fylgt ríkisstjórn Davíðs Oddssonar alveg frá því að sá maður tók við slíkum mannaforráðum í landinu. Hér er komin upp hefðbundin, dæmigerð staða sem endurspeglar það þingræðislega ofbeldi og þann hroka sem hefur einkennt öll samskipti hæstv. forsrh. og ríkisstjórnar hans við Alþingi. Það er bara þannig. Dæmið frá því á þessum morgni á fundi heilbr.- og trn. er ósköp einkennandi fyrir þetta. Þegar settur er á fundur, gegn mótmælum, og stórmál rifið út úr nefnd á einum fundi þrátt fyrir alla þá umgjörð málsins sem liggur ljós fyrir.

Eins var það, herra forseti, hér í morgun ósköp dæmigert þegar átti að fara að afgreiða samkomulagsmál að þá notaði einn þingmanna stjórnarliðsins tækifærið og réðist með svívirðingum að meiri hlutanum í Reykjavíkurborg svona í framhjáhlaupi. Það var dæmigert fyrir hrokann og þá lítilsvirðingu sem stjórnarandstöðunni og þingræðinu er sýnd. Engin takmörk eru fyrir því, herra forseti, hversu langt menn ganga í þessum efnum.

Auðvitað er það grafalvarlegt mál sem hér er að gerast ef það á að skáskjóta þessu gagnagrunnsfrumvarpi þannig í gegn að það er látið líta út fyrir, alveg fram á síðustu stundu, að afgreiða eigi allt annað mál. Svo eru gerðar á því grundvallarbreytingar þegar þingið er í raun orðið afvopnað gagnvart því að fjalla eðlilega um málið. Þegar hinn þingræðislegi prósess er að mestu leyti orðinn aftengdur. Það eru auðvitað til mörg góð orð, tær og skýr orð á íslensku yfir framgöngu af þessum toga, herra forseti.

Ég leyfi mér að leggja það til við hæstv. forseta, að hann kalli til fundar með ríkisstjórninni og hæstv. forsrh. og formönnum þingflokka stjórnarliðsins og geri þó ekki væri nema úrslitatilraun þessa kjörtímabils til að kenna þessu liði einhverja mannasiði. Það er ekki hægt að hafa samskiptin með þessum hætti. Auðvitað kemur á daginn að hæstv. forsrh. hefur ekkert lært. Hann hefur ekkert lært frá því að hann reif þingið í sundur og sendi það heim í offorsi vorið 1992.

Hæstv. forsrh. er hins vegar góður leikari og honum hefur tekist ágætlega að leika annan mann að mestu leyti það sem síðan er liðið. En þó er það einstöku sinnum þannig að hann lendir út úr rullunni, eins og sagt er, hann gleymir sér og fer út úr hlutverkinu. Þá kemur hið rétta viðhorf til þingsins í ljós eins og við erum að upplifa þessa dagana. En allir vita hver er lókómótorinn á bak við það að þröngva þessu gagnagrunnsfrv. í gegn.

Ég legg til að forseti fresti fundinum og boði til fundar með þeim sem þarf að ræða við, þ.e. ríkisstjórninni og formönnum þingflokka stjórnarliðsins.