Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:38:16 (2133)

1998-12-11 14:38:16# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skil vanda forseta að hann getur ekki svarað fyrir forkastanleg vinnubrögð meiri hlutans í heilbr.- og trn. Það ætti sá meiri hluti að sjálfsögðu sjálfur að gera. En af einhverjum undarlegum ástæðum er hann gufaður upp, sést ekki hér í þingsalnum og engir hafa reynt að halda uppi neinum vörnum, enda ekki hægt, fyrir framgönguna á þessum morgni.

Auðvitað söknum við alveg sérstaklega hins vaska varaformanns heilbr.- og trn., sem var mærð hér sérstaklega í gær fyrir góð störf í þágu meiri hlutans af hæstv. ráðherra. Hvar er nú sú vaska manneskja, 4. þm. Reykn., sem var hlaðin lofi hér í gær fyrir dugnað sinn sem varaformaður í heilbr.- og trn.?

Ég held, herra forseti, að óhjákvæmilegt sé að menn fái nú við þessar aðstæður hlé til fundahalda því forseti þarf að ræða við formenn þingflokka. En ég harma það að forseti skuli ekki taka undir þá skynsamlegu hugmynd mína að hann eigi sérstakan fund með ríkisstjórninni og fái jafnvel aðstoð við það verkefni að reyna að koma vitinu fyrir hana frá sérfræðingum á því sviði, sem auðvitað er hægt að kalla til ofan úr háskóla eða einhvers staðar að. (Gripið fram í: Eða ræða bara beint við Kára sjálfan.) En betra en ekki er þó að ná til formanna þingflokka stjórnarliðsins.

Ég tel óhjákvæmilegt að stjórnarandstaðan fái einnig tíma til að halda fundi á þessum sólarhring. Mér sýnist ekki óeðlilegt að ætla að fulltrúar minni hlutans í heilbr.- og trn. óski eftir hléi til að ræða við þá aðila um gagnagrunnsfrv. sem var neitað um að fá á fund heilbr.- og trn., og er auðvitað algerlega fáheyrt, herra forseti. Ég held að leitun sé að slíkri framgöngu hjá ráðandi meiri hluta í þingnefnd að þegar í hlut á stórmál af því tagi sem gagnagrunnsfrv. er og uppi eru við afgreiðslu málsins viðsjárverðar aðstæður eins og óumdeilanlega eru í því máli, hvaða afstöðu sem menn svo hafa, að þá skuli menn skjóta þannig undan sjálfum sér lappirnar að þeir neiti að taka á móti aðilum úr þjóðfélaginu að koma til viðtals við þingnefnd um mál af því tagi. Það er þvílíkur blettur á störfunum hér sem þannig er settur á með slíkri framgöngu að það er okkur öllum áfall að verða vitni að slíku.

En, herra forseti, ég held að það væri afar hyggilegt að byrja á því að fresta þessari umræðu um sinn og jafnvel fá sér kaffibolla og draga djúpt andann svona eins og tvisvar sinnum og vita hvort við finnum þá ekki a.m.k. einhverjar leiðir til að þokast áfram.

(Forseti (ÓE): Allt eru þetta góðar ráðleggingar en við skulum nú leyfa þeim sem vilja tala um fundarstjórn forseta að ljúka ræðum sínum.)