Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 15:25:02 (2136)

1998-12-11 15:25:02# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. minni hluta KH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Lengi mátti maður bíða. Slíkar hremmingar hafa ekki oft verið við hina merku 2. umr. fjárlaga eins og nú er. En hún er nú loksins komin á dagskrá og hafin viku síðar en áætlað var en aðeins vika er eftir af áætluðu þinghaldi á þessari önn. Eftir ýmsum sólarmerkjum að dæma gætu orðið enn frekari breytingar á þeirri áætlun sem vissulega er ekki óþekkt fyrirbrigði á þessum árstíma á þessum vinnustað. Nóg um það að sinni.

Við ræðum nú fjárlagadæmi næsta árs og höfum við verið að fjalla um það hvern nýtan dag í hv. fjárln. allar götur síðan í september sl. Þar hefur gengið á ýmsu svo sem ekki er óvenjulegt en hið óvenjulega er tvímælalaust að þessu sinni sú staðreynd að hlutföll meiri og minni hluta stjórnar og stjórnarandstöðu hafa nú raskast. Má segja að þar hafi farið fram eins konar kristnitaka hin síðari. Öðrum stjórnarflokknum hefur bæst liðsmaður sem áður vann með okkur í minni hlutanum og staðan því orðin átta stjórnarliðar andspænis þremur stjórnarandstæðingum. Þetta hefur auðvitað haft sín áhrif á vinnulag og vinnuaðstæður en ekkert svo sem meira um það að segja. Það liggur hver sem hann hefur um sig búið.

En áður en ég mæli fyrir nál. minni hlutans vil ég færa öllum meðnefndarmönnum mínum, bæði í meiri hluta og minni hluta, sem er þá líklega orðinn minni minni hluti og hinn meiri meiri hluti, bestu þakkir fyrir samstarfið í gegnum súrt og sætt og ekki síður ritara nefndarinnar og öðrum sem hafa komið að verki og veitt aðstoð.

Herra forseti. Nál. minni hluta fjárln. er á þskj. 445. Undir það rita auk mín hv. þm. Gísli S. Einarsson og Sigríður Jóhannesdóttir.

Ég mun nú fara yfir álitið og bæta við það eftir því sem tilefni gefst.

,,Vegna stærðar og umfangs fjárlaganna hafa þau víðtæk áhrif á íslenskt efnahagslíf. Þau sýna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og ráða miklu um afkomu byggðarlaga og lífsafkomu fjölda fólks. Fjárlögin eru tæki til að gera aðstæður einstaklinga og fjölskyldna bærilegar og við núverandi aðstæður ættu þau að endurspegla skyldur stjórnvalda til að tryggja öllum landsmönnum hlut í bættum lífskjörum. Því miður gerir frumvarpið það ekki. Svartasti bletturinn er sú staðreynd að ekki skuli tekið á ranglætinu gagnvart öryrkjum og öldruðum sem hafa setið eftir meðan kjör annarra hafa batnað. Minni hlutinn leggur þunga áherslu á að hlutur þeirra verði réttur áður en fjárlög fyrir árið 1999 verða samþykkt. Annað er ekki sæmandi.

Þjóðhagshorfur og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

Efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins byggjast á þjóðhagsáætlun fyrir árið 1999. Þannig er áætlað að hagvöxtur verði um 4,6% á árinu 1999 eða 0,6 prósentustigum minni en spár fyrir þetta ár gera ráð fyrir. Til samanburðar er spáð um 2,5% meðalvexti landsframleiðslunnar í Evrópusambandsríkjunum á árinu 1999. Þannig er ljóst að hagþróun hér á landi er umtalsvert hraðari en víða annars staðar í nágrannalöndunum enda hafa ákvarðanir stjórnvalda undanfarin missiri, m.a. á sviði skattamála, ýtt verulega undir þá miklu eftirspurnarþenslu sem nú má sjá í íslensku efnahagslífi. Þrátt fyrir það er verðbólga talin verða fremur lítil eða um 2% og er það líklega fyrst og fremst að rekja til aukinnar samkeppni á ýmsum sviðum efnahagslífsins.``

Hér er raunar ástæða til að benda á þá skýringu sem fram kemur í haustskýrslu Seðlabankans að meginástæður hagstæðrar verðlagsþróunar séu aukin innlend framleiðni vinnuafls, sem áætlað er að vaxi að meðaltali um 3,5% á þessu ári, gengishækkun íslensku krónunnar og lækkun á erlendu verðlagi.

[15:30]

Herra forseti. Minni hlutinn hefur hvað eftir annað á undanförnum árum vakið athygli á ónákvæmni í spám um helstu þjóðhagsforsendur. Nægir að vísa til nefndarálita minni hlutans um fjárlagafrumvörp fyrir árin 1997 og 1998, en þar kom m.a. fram sú skoðun minni hlutans að spár um einkaneyslu væru verulega vanmetnar miðað við áætlaða aukningu ráðstöfunartekna heimilanna. Sú skoðun hefur sannarlega reynst á rökum reist því að nú er komið á daginn að aukning í einkaneyslunni á þessu ári er tvöfalt meiri en þjóðhagsspá gerði ráð fyrir.

Því má svo bæta við að einkaneysla á mann er á þessu ári komin rúmlega 4% umfram fyrra sögulegt hámark sem var á árinu 1987.

Spá þjóðhagsáætlunar um aukningu einkaneyslu og innflutnings á næsta ári vekur nokkra athygli. Samkvæmt henni mun draga verulega úr vexti einkaneyslunnar eða úr 10% á árinu 1998 í um 5% á næsta ári. Öllu athyglisverðara er þó að innflutningur mun hætta að vaxa á næsta ári ef spáin gengur eftir, en á þessu ári stefnir í að innflutningur vöru og þjónustu aukist um 22,6% en ekki 4,4% eins og lagt var til grundvallar í þjóðhagsáætlun. Minni hlutinn telur fráleitt að 5% aukning einkaneyslu sem spáð er á árinu 1999 muni ekki birtast í auknum innflutningi eins og gerst hefur undanfarin ár. Enn fremur er með hliðsjón af þróun undanfarinna mánaða fullkomlega óraunsætt að ætla að einkaneysla aukist aðeins um 5%. Að mati minni hlutans þarfnast því forsendur frumvarpsins um innflutning og einkaneyslu endurskoðunar. Slík endurskoðun gæti haft umtalsverð áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs. Niðurstaða minni hlutans er að enn einu sinni sé um gróflega vanáætlun að ræða á tekjuhlið frumvarpsins.

Þrátt fyrir að mörgu leyti hagstæða þróun á undanförnum árum eru nú ýmsar blikur á lofti í efnahagsmálum. Í skýrslu Seðlabankans frá 13. nóvember sl. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Efnahagsþróunin hér á landi hefur að undanförnu einkennst af öflugum hagvexti, minnkandi atvinnuleysi, launahækkunum sem eru mun meiri en í nágrannalöndum, vaxandi viðskiptahalla og lágri verðbólgu. Þessi þróun gefur tilefni til að ætla að hagkerfið hafi stefnt hratt að þeim mörkum sem til lengdar geta samrýmst stöðugleika í verðlagsmálum og kallar á aðhaldssama stefnu í bæði peninga- og ríkisfjármálum.``

Í þessum orðum felst alvarleg viðvörun sem ber að gefa gaum. Um 15% vöxtur er nú í útlánum bankakerfisins, en slíkur vöxtur peningamagns í umferð getur hæglega stefnt markmiðinu um verðstöðugleika í hættu. Aðgengi heimilanna að lánsfé hefur aldrei verið betra en um þessar mundir sem sést best í gríðarlegri aukningu einkaneyslu og fjárfestinga. Skuldaaukning heimilanna stefnir í að verða um 43 milljarðar kr. á árinu eða um 10%. Sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er áætlað að skuldir heimilanna muni nema um 138% í ár. Þetta sýnir hversu brýnt er að leita leiða til að stuðla að auknum sparnaði í þjóðfélaginu.

Margt bendir til þess að samdráttarskeið sé hafið í alþjóðlegum efnahagsmálum og hætt við að áhrifa þess muni gæta að einhverju leyti í íslensku efnahagslífi á næstunni. Áframhaldandi efnahagsbati er að verulegu leyti háður verðþróun í útflutningsframleiðslu sjávarafurða, en afurðaverð í sjávarútvegi hefur farið verulega hækkandi á undanförnum mánuðum. Efnahagsþróunin í Asíu og Rússlandi gefur á hinn bóginn ástæðu til að ætla að afurðaverð geti farið lækkandi á komandi missirum sem óhjákvæmilega mun hafa áhrif í íslensku efnahagslífi.

Við þær aðstæður sem nú eru í þjóðarbúskapnum gegna aðgerðir stjórnvalda lykilhlutverki í að halda aftur af aukningu í eftirspurn og almennum umsvifum efnahagslífsins. Aðhald í útgjöldum ríkisins er grundvallarforsenda þess að árangur náist í þeirri viðleitni að minnka viðskiptahallann sem er orðinn geigvænlegur og bein ávísun á þenslu og vaxandi skuldasöfnun þjóðarbúsins.

Herra forseti. Það er verulegt umhugsunarefni og í rauninni skuggalegt að útflutningur á þessu ári vex aðeins um 1,5% á sama tíma og innflutningur vex um nærri 23% að magni. Við þeirri þróun er nauðsynlegt að bregðast.

Ríkisfjármálastefnan verður að vera samstillt peningamálastefnu ef árangur á að nást. Veruleikinn hefur reynst annar að þessu leyti síðustu missiri. Minni hlutinn sér ástæðu til að vísa sérstaklega til III. kaflans í haustskýrslu Seðlabankans sem fjallar um innlenda efnahagsþróun og er birtur sem fylgiskjal með þessu nefndaráliti.

Vafalaust hafa margir hv. þingmanna þegar fengið þessa skýrslu og kynnt sér efni hennar í bak og fyrir. En þær eru margar skýrslurnar og gögnin sem þingmönnum berast og því sáum við sem stöndum að þessu áliti ástæðu til að dreifa sem fskj. ljósriti af kaflanum um innlenda efnahagsþróun, svo að sá fróðleikur sem þar birtist væri örugglega við höndina við þessa umræðu.

Þar kemur margt umhugsunarvert fram. Þar er t.d. fjallað um skilyrði í sjávarútvegi og hvernig þróun á helstu mörkuðum hefur verið og hvernig hún gæti orðið áfram. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, vitna beint til þess sem segir um þetta efni:

,,Skilyrði til sjávar virðast góð og einn helsti og arðbærasti nytjastofninn, þorskstofninn, hefur verið á stöðugri uppleið undanfarin ár. Eigi að síður varð heildaraflinn á síðastliðnu fiskveiðiári (1. september 1997--31. ágúst 1998) nokkru minni en fiskveiðiárið á undan, sem var metaflaár, eða 1,7 milljónir tonna nú samanborið við 2,1 milljón tonna í fyrra. Aflasamdráttur varð hins vegar einkum í verðminni tegundum. Þorskaflinn varð t.d. á fyrstu níu mánuðum þessa árs um 28 þús. tonnum meiri en á sama tíma í fyrra. Þetta, ásamt umtalsverðri hækkun á verðlagi sjávarafurða, veldur því að verðmæti heildaraflans var um 13% meira fyrstu níu mánuði ársins en á sama tíma fyrir ári. Í nýrri þjóðhagsáætlun 1999 er gert ráð fyrir því að heildaraflinn á þessu ári verði nokkuð minni í tonnum talið en árið 1997 og að útflutningsframleiðsla sjávarafurða minnki að magni til um 2% en aukist um 6,6% að verðmæti. Mismunurinn stafar af hækkun meðalverðs sjávarafurða um 10--12% milli áranna 1997 og 1998.

Markaðsstaða íslenskra sjávarafurða er sterk um þessar mundir. Verðlag á sjávarafurðum í heild er nú með hæsta móti og verður að leita aftur til áranna 1990--91 til að finna álíka hátt verð. Flestar tegundir sjávarvöruframleiðslu hafa hækkað í verði án afláts frá miðju sumri 1997. Síðustu 14 mánuði hefur t.d. verð á frystum fiski hækkað um 15%, saltfiski um 25%, rækju um 8,5%, fiskimjöli um 18,5% og lýsi um rúm 44%. Í heild nam hækkunin 18% yfir tímabilið. Ástæður þessa háa verðlags eru bæði mikil spurn eftir nær öllu sjávarfangi og samdráttur í framboði mikilvægra tegunda. Þrátt fyrir verðhækkanir undanfarinna mánuða er raunverðlag sjávaraafurða enn mun lægra en á fyrri verðlagstoppum árin 1986--87 og 1990--91 og virðist verðlagið nú vera í takt við almenna þróun neysluvöruverðs þegar til lengri tíma er litið.

Ekki er hægt að greina að verðhækkunarferlið sé á enda þótt nokkuð hafi hægt á því. Talið er að verðlag muni haldast hátt enn um sinn og verð á ýmsum mikilvægum afurðum eins og á freðfiski muni halda áfram að hækka nokkuð. Er þá gengið út frá áframhaldandi líflegri eftirspurn og lítilli eða engri aukningu framboðs, sem m.a. kemur fram í því að birgðir eru nú með minnsta móti og víða gætir skorts á fiskafurðum á helstu mörkuðum. Verð á bræðsluafurðum hefur hins vegar verið í sögulegi hámarki að undanförnu og má því búast við að það muni nokkuð láta undan síga á næstu vikum og mánuðum. Gert er ráð fyrir að núverandi verðlag rækju og annars skelfisks muni lítið breytast á næstunni.

Þótt ekki virðist hafa dregið úr verðhækkunum svo umtalsvert sé eru blikur á lofti. Ef efnahagskreppan í Asíu og Rússlandi heldur áfram og breiðist út, gæti það leitt til svo mikils samdráttar í neyslu sjávarafurða í löndum sem efnahagskreppan nær til að framboð inn á aðra markaði aukist verulega og verð lækki þar einnig, jafnvel þótt ekki verði beinn samdráttur á þeim mörkuðum.``

Aðeins aftar í þessu fylgiskjali segir svo, þar sem fjallað er um afkomu fyrirtækja, með leyfi forseta:

,,Hálfsársuppgjör þeirra 44 fyrirtækja, að undanskildum hlutabréfasjóðum, sem skráð voru á hlutabréfamarkaði á miðju ári, gefa til kynna góða afkomu þeirra á árinu. Velta þessara fyrirtækja var rúmlega 10% meiri í janúar--júní 1998 en sömu mánuði 1997, jókst úr 112,8 milljörðum króna í 124,3 milljarða króna. Afkoman batnaði hvort heldur er miðað við hagnað af reglulegri starfsemi eða hreinan hagnað. Hagnaður af reglulegri starfsemi jókst um rúmlega 21% og hreinn hagnaður um 5%. Afkoman virðist nú mun jafnari en áður. Staðalfrávik hagnaðar af reglulegri starfsemi sem hlutfall af veltu er 15,9%, en var 20,6% á fyrri hluta ársins 1997. Mun fleiri fyrirtæki sýndu aukinn hagnað á þessu ári en á sama tíma í fyrra, eða 26 fyrirtæki, en 18 fyrirtæki sýndu minni hagnað.

Góðærið í sjávarútveginum kemur glögglega fram í afkomutölum og efnahagsyfirlitum sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkaði. Þótt gera megi ráð fyrir að afkoma og efnahagur sjávarútvegsfyrirtækjanna 15, sem flest eru meðal stærri sjávarútvegsfyrirtækja landsins, sé nokkru betri en meðalafkoma fyrirtækja í greininni, hefur afkoma og efnahagur sjávarútvegsins greinilega batnað til muna frá fyrra ári. Útflutningsvelta nemur u.þ.b. 45--47% af heildarútflutningsveltu.

Hálfsársuppgjör fyrirtækjanna 15 sýna rúmlega fjórföldun hagnaðar af reglulegri starfsemi miðað við fyrri hluta árs 1997. Hreinn hagnaður jókst um tæplega 37%. Rekstrarafkoma (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) sem hlutfall af veltu hækkaði úr 16,3% á fyrri hluta ársins 1997 í 18,4% á þessu ári. Hlutfall hagnaðar af reglulegri starfsemi fjórfaldaðist milli ára, úr 1,8% í fyrra í 7,5%, og hreinn hagnaður, sem var 5,8% á fyrri hluta liðins árs, hækkar í 8% nú. Bættur efnahagur sjávarútvegsfyrirtækjanna birtist einnig í hækkun eiginfjárhlutfalls úr 36% í 37%.``

Þetta eru athyglisverðar tölur, herra forseti, og fagnaðarefni er að mörg fyrirtæki búa nú við svo góða stöðu. Almenna niðurstaðan er sú að staða atvinnuveganna sé tiltölulega góð um þessar mundir, en reyndar mun betri í sjávarútvegi en í öðrum atvinnugreinum. Þetta er allt nauðsynlegt að hafa í huga við umfjöllun um efnahagsforsendur frv.

Nánar verður fjallað um efnahagsforsendur og tekjuhlið frumvarpsins við 3. umræðu, en minni hlutinn leggur enn og aftur áherslu á brýna nauðsyn þess að skila ríkissjóði með afgangi við núverandi aðstæður, m.a. til að vega upp á móti þensluáhrifum vegna kjarasamninga og skattalækkana. Í þjóðhagsáætlun kemur fram að Þjóðhagsstofnun telji nauðsyn á festu í fjármálum hins opinbera til að færa halla á viðskiptum við útlönd aftur til jafnvægis: ,,Þannig [sé] dregið úr heildareftirspurn, jafnvægi viðhaldið á vinnumarkaði og stuðlað að stöðugleika í verðlagi,`` eins og þar stendur.

[15:45]

Herra forseti. Áður en gert var hlé á fundinum til þess að þingmenn gætu nærst og jafnvel farið til fundar sem hefur nú farið á ýmsa vegu þá gerði ég athugasemd við stjórn fundarins og vakti athygli á því að hæstv. ráðherrar sýndu ekki umræðunni þann sóma að vera viðstaddir. Hér hafði enginn hæstv. ráðherra sést og raunar voru ekki í húsinu fleiri en tveir. Ég setti fram að mér fannst sjálfsagða kröfu um að hæstv. ráðherrar væru látnir vita af því ef það hefði farið fram hjá þeim að 2. umr. um fjárlög færi fram í dag. Það gladdi mig að sjálfsögðu að sjá að nokkrir þeirra höfðu brugðist við þessu ákalli og voru mættir þegar umræðan átti að hefjast kl. tvö en þá hefur greinilega þrotið örendið því hér er aðeins hæstv. fjmrh. sem hefur vitanlega mikla burði og getur sjálfsagt tekið við öllum þeim skilaboðum sem ætlunin var að leyfa öðrum hæstv. ráðherrum að heyra. En ég spyr hæstv. forseta hvaða hæstv. ráðherrar séu til staðar í húsinu svo hægt sé að tala við þá.

(Forseti (GÁS): Vegna þessarar fyrirspurnar hv. þm. vill forseti upplýsa að í húsi eru fimm hæstv. ráðherrar.)

Sei, sei.

(Forseti (GÁS): Áðurnefndur hæstv. fjmrh., hæstv. heilbrrh., félmrh., menntmrh. og samgrh. Forseti mun gera ráðstafanir til þess að óska nærveru þeirra við þessa umræðu.)

Ég þakka hæstv. forseta. Það er einmitt hæstv. heilbrrh. sem ég hefði fyrst viljað að væri viðstödd það sem ég ætla hér að segja. Innan tíðar mun ég líka beina máli mínu til hæstv. félmrh. og þannig koll af kolli. Ef hæstv. heilbrrh. er nær þá þætti mér gott að hún kæmi enn þá nær.

Herra forseti. Vegna þess að svolítið illa hefur gengið að halda umræðunni áfram mun ég ekki gera lengra hlé á máli mínu því mér er annt um að þingstörfin geti haldið áfram. Það er ekki síður mikilvægt að þessi skilaboð komist til annarra ráðherra. Fagna ég því að sjá hæstv. heilbrrh. komin í salinn.

Ég vík mér þá að umfjöllun um gjaldahlið frv. sem minni hlutinn hefur að venju ýmsilegt við að athuga, áherslur og forgangsröðun sem þar birtist. Megingagnrýni minni hlutans varðar að þessu sinni hlut fatlaðra, öryrkja og aldraðra.

Þeir sem hafa eingöngu framfærslu af grunnlífeyri og tekjutryggingu eru algjörlega háðir ákvörðunum ríkisstjórnar um slíkar greiðslur. Sú ákvörðun að miða skuli lífeyrisgreiðslur við meðaltalslaunahækkanir í stað viðmiðunar við lægstu laun hefur valdið því að þeir sem byggja afkomu sína á þessum launum hafa dregist verulega aftur úr miðað við þróun lægstu launa. Staðreyndir málsins eru þær að hækkun grunnlífeyris á árunum 1995--1998 er 15%, launavísitalan hefur hækkað um 20% en lágmarkslaun um 29%. Þannig má sýna fram á að á síðustu fjórum árum, þ.e. 1995--1998, hefðu þessir hópar haft samtals 1.842 milljónum króna meira til skiptanna miðað við grunntölur og 1.151 milljón kr. meira þegar sérstökum uppbótum er bætt við grunnlífeyri og tekjutryggingu. Ef á hinn bóginn er miðað við meðaltalslaunahækkanir vantar á árinu 1998 146 milljónir samtals til umræddra hópa og miðað við fjárlagafrv. fyrir 1999 vantar þar 330 milljónir króna ef standa á við meðaltalsviðmiðunina svo ósanngjörn sem hún er í þessu tilviki. Hér verður að bregðast við.

Minni hlutinn hefur látið gera sérstaka úttekt á stöðu þessara mála og lagt allar upplýsingar varðandi þessi mál fyrir nefndina og þar með ríkisstjórnarfulltrúa. Í framhaldi af því hefur minni hlutinn krafist tafarlausrar leiðréttingar og mun fylgja því eftir með öllum tiltækum ráðum.

Hér er rétt að skjóta því inn í að eftir því sem fram kom í máli hv. formanns fjárln. er verið að athuga þessi mál. Verður að vonast til þess að myndarlega verði tekið á því. Vonandi getur hæstv. heilbrrh. eða hæstv. fjmrh. gefið upplýsingar við þessa umræðu um það hvernig þessi mál standa og hvað er ætlunin að gera í málefnum þessara hópa. Ég fer fram á það hér með.

Þess skal getið að öryrkjar á Íslandi eru um 8.000 talsins en um 1.400 manns eru þannig settir að tafarlausra aðgerða er þörf. Ámóta fjöldi er lítið betur settur. Á það skal bent að öryrkjar með varanlega 75% örorku sem eru eignalausir leigjendur húsnæðis og/eða í sambúð hafa minnst allra úr að spila eða aðeins 43--63 þús. kr. á mánuði. Sérfræðingar um málefni þessa fólks hafa sagt að lægstu umsamin laun, þ.e. rúmar 70 þús. kr. á mánuði, haldi fólki neðan fátæktarmarka. Það sýnir að þessu fólki verður að tryggja hærri tekjur þegar í stað.

Þá sér þess enn ekki stað hvernig ríkisstjórnin ætlar að standa við fyrirheit um að draga úr tengingu tekjutryggingar við tekjur maka. Það óréttlæti hefur verið gagnrýnt harðlega að undanförnu og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í því efni verður ekki liðið.

Herra forseti. Ég hafði ætlað mér að ræða aðeins um málefni fatlaðra næst og óska þess að hæstv. félmrh. verði gert viðvart. En þar sem hæstv. heilbrrh. sem situr nú í sæti sínu og skrifar af kappi ætla ég núna að taka fyrir kafla um heilbrigðismál sem er í nál. minni hlutans. Þar stendur:

,,Á undanförnum árum hefur verið vegið að velferðarkerfinu hér á landi með ítrekuðum niðurskurði og óraunhæfum sparnaðarkröfum í heilbrigðisþjónustunni. Í lok síðasta árs var staðan orðin slík að varla fyrirfannst nokkur einasta heilbrigðisstofnun í landinu sem var ekki rekin með meiri eða minni rekstrarhalla. Fyrir mikla málafylgju, m.a. fulltrúa stjórnarandstöðu, hefur nú tekist að lagfæra slæma fjárhagsstöðu margra þessara stofnana og það er vel. Eftir stendur hins vegar að stærstu sjúkrahús landsins, hátæknisjúkrahúsin í Reykjavík, sitja enn uppi með mikinn rekstrarhalla sem verður að bæta úr og tryggja þeim þar með viðunandi rekstrarstöðu. Eins og fram kom í nefndaráliti minni hlutans um frumvarp til fjáraukalaga fyrir þetta ár nemur uppsafnaður fjárhagsvandi þessara tveggja sjúkrahúsa samtals rúmlega 1 milljarði kr. í lok árs 1998 að teknu tilliti til framlags á fjáraukalögum. Enn hafa ekki sést neinar tillögur frá meiri hlutanum um aukin framlög til Ríkisspítalanna og Sjúkrahúss Reykjavíkur umfram það sem fram kemur í frumvarpinu. Verði ekkert að gert stefnir því í uppsafnaðan halla sem nemur 1,6 milljörðum kr. í árslok 1999 miðað við óbreyttan rekstur sjúkrahúsanna. Minni hlutinn varar alvarlega við afleiðingum þess og boðar breytingartillögur við 3. umr. ef sýnt verður þá að meiri hlutinn skirrist við að taka á vandanum.

Rétt er að skjóta inn í að fram kom í ræðu hv. formanns fjárln. að verið væri að vinna að þessum málum og við bíðum vitaskuld með mikilli eftirvæntingu þeirra tillagna sem sjá vonandi dagsins ljós á næstu dögum.

Rétt er að benda á að vandi stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík einskorðast ekki við uppsafnaðan rekstrarhalla fyrri ára, heldur blasa við ótal verkefni sem þau hafa ekki tök á að sinna eins og vert væri vegna fjárskorts. Í október sl. voru t.d. nær 3.000 manns á biðlistum eftir aðgerðum á Ríkisspítölunum. 292 biðu aðgerða á sviði almennra skurðlækninga, 291 beið eftir bæklunaraðgerð, 378 biðu eftir lýtaaðgerð, 48 eftir hjartaskurðaðgerð, 159 eftir þvagfæraaðgerð, 47 eftir æðaskurðaðgerð, 287 biðu eftir augnaðgerð, 100 biðu eftir þjónustu á sviði barnalækninga, 160 eftir kransæðaþræðingu og 52 eftir kransæðavíkkun, 450--500 biðu eftir glasafrjóvgun, 382 konur biðu eftir aðgerð á sviði kvenlækninga, 377 biðu eftir svefnrannsóknum og 105 biðu eftir plássi á barna- og unglingageðdeild. Þetta ófremdarástand veldur ekki aðeins óvissu og þjáningum sjúklinga og aðstandenda heldur er það beinlínis óhagkvæmt fjárhagslega. Hér er því í raun verið að spara eyrinn en kasta krónunni. Þessa biðlista verður að stytta.

Enn verður að minna á viðhaldsþörf fjölda bygginga í heilbrigðiskerfinu, svo og þörf þeirra fyrir fé til viðhalds og endurnýjunar tækja. Líklega er þó hvergi jafnslæmt ástand og á Sjúkrahúsi Reykjavíkur þar sem gerð hefur verið áætlun um kostnað við endurbætur og viðhald sem nemur á annan milljarð króna. Viðgerðir utan húss eru þegar hafnar og munu kosta a.m.k. 410 millj. kr. Ljóst er að viðhald og viðgerðir eru þeim mun kostnaðarsamari því lengur sem dregst að ráðast í verkið. Minni hlutinn bendir á nauðsyn þess að gera 4--8 ára áætlun um viðhald heilbrigðisstofnana og endurnýjun tækjakosts svo að þessar stofnanir geti sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað og sjálfsögð krafa er um af hálfu þjóðarinnar.

Þá er mikið áhyggjuefni að víða um land er vaxandi vandi vegna skorts á læknum og hjúkrunarfræðingum. Ljóst er að grípa þarf til aðgerða, m.a. í menntunarmálum lækna, til að reyna að ráða bót á því alvarlega ástandi sem veldur óvissu og öryggisleysi íbúa víða á landsbyggðinni. Þetta mál þarf að taka föstum tökum og leita allra hugsanlegra leiða til að ráða bót á.

Síðar í mínu máli mun ég einmitt koma að því á annan hátt og einnig þar sem ég mæli fyrir brtt. minni hlutans.

Þá mun ég aftur fara framar í nál. vegna þess að ég er fús til að gera ýmislegt til að létta hæstv. ráðherrum þá kvöð og skyldu, vonandi ljúfa skyldu, að sitja hér og hlusta á hvað við í minni hlutanum höfum að segja um þau málefni sem þeir bera ábyrgð á. Það er þá fyrst til að taka málefni fatlaðra.

[16:00]

Minni hlutinn átelur harðlega hvernig tekið er á málefnum fatlaðra í frumvarpinu. Fyrirhugað var að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaga á næsta ári, en því hefur nú verið frestað um óákveðinn tíma. Þ.e. ef við getum einhvern tíma haldið áfram að ræða það þingmál sem hér var til umræðu í morgun og fór dálítið illa í meðförum hv. þingmanna í umræðunni. Sveitarfélögin í landinu eru fús til að taka málaflokkinn að sér, en það getur ekki orðið fyrr en ríkið hefur tekið á þeim vanda sem þar blasir við. Hann er víða sár og gífurleg þörf fyrir aukna þjónustu, einkum í umdæmum Reykjaness og Reykjavíkur þar sem fólk bíður tugum saman eftir úrræðum. T.d. voru 133 á biðlista hjá Svæðisskrifstofu Reykjaness í maí á þessu ári. Í Reykjanesumdæmi er þörfin slík að áætlaður heildarstofnkostnaður vegna nýrra þjónustustaða fyrir fatlaða er áætlaður rúmlega 1,1 milljarður kr. Hér er um að ræða sambýli, þjónustuíbúðir, áfangaheimili, heimili fyrir börn, skammtímavistun, hæfingarstöðvar og vinnustaði. Ástandið í þessum málaflokki er með öllu óviðunandi og mikill ábyrgðarhluti að taka ekki fastar á en ætlunin er á næsta ári.

Samkvæmt markmiðum laga um málefni fatlaðra ber ,,að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi`` eins og segir í markmiðsgrein laga um málefni fatlaðra. Langt er frá því að þessi markmið hafi verið uppfyllt og ræður þar mestu að uppbygging húsnæðis og þjónustu fyrir fatlaða hefur dregist úr hófi vegna sífellds niðurskurðar á lögboðnum tekjustofni til framkvæmda. Samkvæmt lögum á Framkvæmdasjóður fatlaðra m.a. að fá til sinna verkefna óskertar tekjur erfðafjársjóðs, en sá tekjustofn hefur árlega verið skorinn niður af mikilli hörku auk þess sem framlagið er tekið í síauknum mæli til reksturs. Tekjur af erfðafjárskatti eru áætlaðar 480 millj. kr. á næsta ári, en aðeins 235 millj. kr. eiga að renna í Framkvæmdasjóð fatlaðra samkvæmt frumvarpinu. Rúmur helmingur tekjustofnsins er þannig tekinn til annarra mála en ætlast er til í lögum.

Þessu mótmælir minni hlutinn harðlega og leggur til að Framkvæmdasjóður fatlaðra fái þessar tekjur óskertar.

Ég undirstrika þessa skoðun minni hlutans og bendi á þá tillögu sem lögð hefur verið fram. Það er ekki forsvaranlegt að taka ekki betur á í þessu efni.

Vík ég mér þá að menntamálum. Minni hlutinn leggur áherslu á að stóraukna fjármuni þurfi í menntakerfið á næstu árum vegna þess að samkeppnishæfni þjóðarinnar mun ekki síst ráðast af gæðum skólastarfs og menntunar. Gæði skólastarfs verða ekki aukin án þess að kosta til þess fjármunum.

Ljóst er að sveitarfélögin hafa almennt metnað til að bæta grunnskólann og eru fús til að veita til þess fjármagn eftir aðstæðum. Þegar þau tóku við grunnskólanum virðast þau hins vegar ekki hafa reiknað með verulega auknum launakröfum kennara við einsetningu sem hefur það í för með sér að kennarar geta ekki lengur bætt kjör sín með endalausri yfirvinnu. Fjölmörg sveitarfélag hafa þurft að gera viðbótarkjarasamninga til að halda í sína kennara og er slíkt mikill baggi fyrir sveitarfélög sem stóðu illa fjárhagslega fyrir. Það er skoðun minni hlutans að með tilliti til breyttra viðhorfa og mjög aukinna krafna samfélagsins til skólanna þurfi hið fyrsta að endurskoða samningana milli ríkis og sveitarfélaga varðandi kostnað við grunnskóla. --- Og vonandi eru hæstv. félmrh. og hæstv. menntmrh. einmitt að ræða þetta sín á milli núna því ég sé að þeir eru mjög önnum kafnir að ræða málin, um endurskoðun samninga milli ríkis og sveitarfélaga varðandi kostnað við grunnskóla.

Greiðslustaða framhaldsskólanna gagnvart ríkissjóði var neikvæð um hálfan milljarð króna fyrstu 11 mánuði ársins. Þessi slæma staða er mikið áhyggjuefni. Að vísu var hún bætt að nokkru leyti í fjáraukalögum --- sem við vonandi náum að samþykkja fyrir þinghlé --- en svo virðist sem enn vanti töluvert upp á. Virðist einhver misskilningur hafa verið í gangi varðandi samninga Hins íslenska kennarafélags og ríkisins um það hvað þeir mundu kosta og þarf auðvitað að ganga þannig frá málum í framtíðinni að ljóst sé hvað undirritaður samningur hefur í för með sér. Þá tekur minni hlutinn undir gagnrýni forsvarsmanna minnstu framhaldsskólanna á landsbyggðinni á reiknilíkanið sem lagt er til grundvallar við útreikninga fjárframlaga til framhaldsskóla. Gæta þarf sjónarmiða þeirra betur við uppbyggingu líkansins þannig að minnstu skólarnir fái við unað.

Minni hlutinn bendir á að vegna breyttra aðstæðna í Kennaraháskólanum þar sem sameinaðir voru fjórir skólar þarf hann mjög auknar fjárveitingar á næsta ári. Kostnaður eykst vegna dómnefndarvinnu, námskrárgerðar, kennsluskrárgerðar, skipulagsvinnu og biðlauna fyrrverandi skólastjóra. Einnig lækkar umtalsvert vinnuskylda kennara sem unnu í þeim þremur skólum sem hingað til hafa verið á framhaldsskólastigi og hefur það að sjálfsögðu aukinn kostnað í för með sér. Kostnaður við kjarasamninga, rannsóknarorlof og vinnumatssjóð vegna rannsókna er einnig vanmetinn, en við sameiningu skólanna öðluðust 30 kennarar til viðbótar rétt til greiðslu.

Háskóli Íslands og stúdentaráð Háskóla Íslands lögðu mikla áherslu á aukið fé til að hægt verði að lengja opnunartíma safnanna í Þjóðarbókhlöðu og tryggja námsmönnum lesaðstöðu. Fjárlaganefnd hefur samþykkt að verða við þeim óskum og er það vel. Minni hlutinn hefði hins vegar einnig viljað verða við óskum háskólans um aukið fé til fleiri þátta, einkum til þess að efla og styrkja framhalds- og rannsóknarnám sem er eitt af forgangsverkefnum skólans. Slíkt nám er nú í boði við nær allar deildir skólans og á aðeins fjórum árum hefur nemendum í framhaldsnámi fjölgað úr fáum tugum í vel á fjórða hundrað. Lögð er áhersla á aukna þjónustu skólans við þessa nemendur og tengsl þeirra við íslenskt atvinnulíf og rannsóknastofnanir. Meðal þess sem háskólinn vill geta boðið upp á er framhaldsnám í lækningum, ekki síst heimilislækningum. Og kem ég þá að því sem ég ræddi áðan í kaflanum um heilbrigðismál, þann yfirvofandi skort á heimilislæknum sem margir sjá fyrir sér. Ef boðið yrði upp á framhaldsnám í heimilislækningum í Háskóla Íslands er einmitt líklegt að það geti dregið úr þeim skorti sem blasir við í þessari grein og er mjög mikilvægt að skoða þann möguleika vel. Háskólinn fór fram á 34,6 millj. kr. hækkun til þessa þáttar í starfsemi skólans og er það ekki mikil upphæð ef hún gæti orðið til að draga úr þeim skorti sem margir sjá fram á.

Minni hlutinn telur að styðja þurfi Tækniskóla Íslands betur en raun er á. Skólinn sækir m.a. um tæpar 72,8 millj. kr. vegna tækjakaupa og búnaðar til viðbótar því sem honum er ætlað í frumvarpinu. En þess skal getið hér, herra forseti, sem mér láðist að gera við samningu þessa nál. að fjárln. leggur til hækkun framlags til tækjakaupa Tækniskólans að upphæð 15 millj. króna. Það breytir þó ekki því að þörfin er enn mikil og þyrfti að gera áætlun í samráði við forsvarsmenn skólans um hvernig ríkissjóður gæti komið til móts við þessa bráðu þörf skólans sem allt of lengi hefur verið litið fram hjá. Tækin sem nemendur hafa til þjálfunar eru oft úrelt miðað við þann búnað sem þarf að vinna með úti í atvinnulífinu. Á síðastliðnu ári var tölvukostur skólans þó nokkuð bættur en mikið átak þarf að gera innan skólans hvað varðar annan tækjakost. Ef einhvers staðar er þörf öflugs átaks í skólamálum okkar þá er það ekki síst á sviði tækni- og verkmenntunar. Stofnanir sem annast kennslu á þeim sviðum þurfa að hafa til þess tækjakost sem jafnast á við það besta sem til er. Hér er enn ástæða til að skjóta inn í þetta nál. að nýlega, þ.e. í gær, barst mér og sjálfsagt öllum öðrum sem í fjárln. sitja erindi frá Sjómanna- og stýrimannaskólanum þess efnis að þar er mjög slæmt ástand og mikil viðhaldsþörf sem nauðsynlegt er að mínu mati að skoða vel á milli umræðna.

Nokkur aukning framlaga til menningarstarfsemi er í frumvarpinu, en betur má ef duga skal. Minni hlutinn leggur áherslu á mikilvægi öflugs menningarlífs og almennrar þátttöku í listum um allt landið. Minna má á áherslur um þetta efni í tillögu um byggðaáætlun sem liggur fyrir þinginu og ljóst að þar eru kveiktar væntingar um aukinn stuðning við menningarstarfsemi um allt land.

Í frv. er á engan hátt komið til móts við þær væntingar að mínu mati þó að vafalaust megi tína til einhverja smáupphæðir hér og þar. Ég bendi t.d. á einn lið í þeim tillögum sem hér liggja fyrir og það er ósköp lítill og yfirlætislaus liður sem heitir þó Menning um landið og ætti vitanlega að vera stór og myndarlegur liður. Hann fær 400 þús. kr. Auðvitað veit ég að ýmsar aðrar fjárveitingar koma til þessara mála en þessi liður stingur í augu: Menning um landið 400 þúsund. Væri nú ekki hægt að gera svolítið betur á þessu sviði? Ég mæli þessi orði vitanlega bæði til hæstv. menntmrh., sem ber ábyrgð á þessum málum, og svo meiri hluta þingsins.

Minni hlutinn gagnrýnir enn einu sinni þær breytingar sem gerðar voru á fyrirkomulagi framlaga til starfsmenntunar í atvinnulífinu fyrir tveimur árum. Sérmerkt framlög til Starfsmenntasjóðs annars vegar og til atvinnumála kvenna hins vegar voru þá felld niður, en þessir liðir heyrðu áður undir liðinn Vinnumál á fjárlögum. Þess í stað var vísað á Atvinnuleysistryggingasjóð með því fororði að þar væru tryggðir fjármunir til þessara verkefna. Starfs- og endurmenntun er hins vegar sjálfstætt mál og á ekki að tengja atvinnuleysi eða Atvinnuleysistryggingasjóði. Minni hlutinn leggur áherslu á að brýnt er að efla starfs- og endurmenntun í landinu í samvinnu skóla og atvinnulífs og telur óhjákvæmilegt að breyta færslum til fyrri vegar og auka fjármagn til þessarar starfsemi.

Mun ég nú segja fáein orð um aðgerðir gegn fíkniefnavandanum.

Neysla vímuefna veldur gríðarlegum vanda, ekki aðeins einstaklinga og fjölskyldna, heldur þjóðfélagsins alls. Þótt nokkuð hafi verið reynt að bregðast við þessum vanda er fjarri því að nóg sé að gert. Styrkja þarf forvarnir og meðferðarúrræði og efla tollgæslu og löggæslu til að gera þeim kleift að ráðast af krafti gegn innflutningi og dreifingu fíkniefna. Neysla ólöglegra fíkniefna óx skyndilega mjög mikið fyrir þremur árum og virðist ekkert lát þar á, neytendur verða sífellt yngri og ofbeldi er mikið innan þessara hópa. Mikill vandi blasir við vegna skorts á meðferðarúrræðum fyrir unga fíkniefnaneytendur. Þess eru jafnvel dæmi að 14 ára börn hafi ánetjast eiturlyfjum sem vitaskuld kallar á bráðameðferð. Það er allsendis óviðunandi að bjóða unglingum og fjölskyldum þeirra upp á margra mánaða bið eftir meðferð. Hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár kallar á greiðari aðgang að meðferð og fleiri heimili til langtímavistunar unglinga. Sú fjölgun vistrýma sem stefnt er að á næsta ári nægir ekki. Hér verður að taka verulega á til að ná betri árangri við björgun og endurhæfingu þeirra sem lent hafa í klóm eiturefna. Meiri stuðningur stjórnvalda skilar sér margfalt aftur til samfélagsins.

[16:15]

Ég vil bæta því við að vissulega er reynt að bjóða upp á ýmis fleiri úrræði og þar hafa haft frumkvæði bæði einstaklingar og félagasamtök úti í þjóðfélaginu. Flestöll þessi úrræði eru einmitt til komin vegna þess að einstaklingum og félögum hefur ofboðið staðan í þessum málum og sett af stað og á stofn meðferðarúrræði fyrir fólk í vanda vegna fíkniefnaneyslu, og þá á ég bæði við lögleg og ólögleg fíkniefni. Það er í rauninni ekki forsvaranlegt hversu lengi hefur dregist að koma til móts við þá aðila sem af mikilli fórnfýsi eru að bregðast við algjöru neyðarástandi og neyðarkalli þeirra sem hér eiga um sárt að binda.

Verkefni á sviði umhverfismála fara sífellt vaxandi, bæði hér innan lands og í alþjóðlegu samstarfi. Minni hlutinn telur óhjákvæmilegt að efla stofnanir og verkefni á þessu sviði, en en því miður skortir verulega á skilning stjórnvalda í þeim efnum.

Lítið hefur verið komið til móts við óskir Hollustuverndar ríkisins sem enn glímir við mikinn vanda í mannahaldi og rekstri. Stofnunin hefur orðið að taka að sér síaukin verkefni, einkum vegna ákvæða EES-samningsins og fleiri bindandi alþjóðasamninga. Fyrir tveimur árum var fyrirtækið Skipulag og stjórnun ehf. fengið til þess að kanna mannaflaþörf Hollustuverndar ríkisins með tilliti til hlutverks hennar og verkefna. Var niðurstaðan sú að 20,5 stöðugilda aukning svaraði til algerrar lágmarksþarfar. Því fer fjarri að tekið hafi verið tillit til þeirrar niðurstöðu. Nú er unnið að endurskipulagningu stofnunarinnar í framhaldi af nýjum lögum sem tóku gildi um mitt þetta ár og ljóst að ekki verður lengur undan því skorast að efla stofnunina.

Erindi Náttúruverndar ríkisins til fjárlaganefndar bera með sér hve stakkur þeirrar stofnunar er þröngt skorinn miðað við þau verkefni sem við blasa. Stofnunin ber ábyrgð á rekstri og umsjón með friðlýstum svæðum þar sem margar helstu gersemar íslenskrar náttúru er að finna. Brýnt er að auka landvörslu og eftirlit, og vinna þarf verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn í Skaftafelli. Fyrirhugaðar eru breytingar á rekstri þjóðgarðanna í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum og er nauðsynlegt að veita fé til framkvæmda í tengslum við þær breytingar.

Viðhorf og áherslur í umhverfismálum hafa breyst mikið á undanförnum árum og eru sífellt að breytast, ekki síst fyrir árvekni og ötula baráttu frjálsra félagasamtaka. Minni hlutinn telur að slíka starfsemi beri að efla og styrkja miklu betur en gert hefur verið.

Vægi ferðaþjónustu í atvinnulífi landsmanna hefur aukist sífellt á undanförnum árum og ljóst er að enn eru vannýttir miklir möguleikar á því sviði. Umsvif og tekjuaukning í greininni eru slík að ferðaþjónusta skipar nú annað sætið á eftir sjávarútvegi sem gjaldeyrisskapandi atvinnugrein. Gjaldeyristekjur þessa árs stefna í 26 milljarða kr. Einn af kostum þessarar greinar er að hún skapar mikinn fjölda starfa miðað við fjárfestingu og þau störf dreifast nokkuð jafnt um landið. Þó virðist sem aukning í ferðaþjónustu utan háannatímans hafi ekki skilað sér nægilega utan höfuðborgarsvæðisins og þarf að kanna ástæður þess. Stjórnvöld hafa sýnt þessari mikilvægu atvinnugrein tómlæti og látið undir höfuð leggjast að styrkja Ferðamálaráð til öflugri starfsemi. Nú á hins vegar að leggja fram fé til markaðsstarfs, en sérkennileg er sú ráðstöfun að færa það undir ýmis verkefni samgönguráðuneytis. Ferðamálaráði er gert að búa við sama kost og áður og engin aukning fjár er til aðkallandi verkefna á fjölsóttum ferðamannastöðum. Aukinn straumur ferðamanna kallar á fyrirbyggjandi aðgerðir gegn spjöllum á náttúru landsins og brýnt er að efla rannsóknir til að leggja grunninn að uppbyggingu á hinum ýmsu sviðum ferðaþjónustu.

Að lokum segir í nál. minni hlutans, með leyfi forseta:

,,Fjárlaganefnd hefur nánast eingöngu fjallað um útgjaldahlið frumvarpsins og tekjuhlið þess bíður því 3. umræðu. Minni hlutinn fjallar nánar um þá hlið frumvarpsins við þá umræðu en ítrekar hér aðeins þá skoðun sem fram kemur fyrr í þessu áliti að tekjur næsta árs séu enn eitt árið verulega vanáætlaðar. Einnig er eftir að fjalla nánar um lánsfjárgrein frumvarpsins og heimildargrein þess, svo og nokkur önnur atriði.

Breytingartillögur meiri hlutans nema 1.749,7 millj. kr. og styður minni hlutinn margar þeirra, en auk þess flytur minni hlutinn nokkrar tillögur sem sýna þær áherslur sem fulltrúar hans vilja ná fram við ráðstöfun ríkistekna. Hljóti þær tillögur stuðning Alþingis og sýnt þykir að þær raski markmiðinu um hallalaus fjárlög mun minni hlutinn flytja tillögur til breytinga á tekjuhlið frumvarpsins við 3. umræðu þess.

Undir nál. rita Kristín Halldórsdóttir, Gísli S. Einarsson og Sigríður Jóhannesdóttir.

Herra forseti. Hér hefur verið farið yfir þetta nál. með ýmsum innskotum og viðaukum. En því er við að bæta að við sem skipum minni hlutann flytjum sameiginlega fimm brtt. við frv. sem sýna þær áherslur sem okkur eru efst í huga á þessum tíma.

Eins og ég sagði áðan munum við styðja margar af brtt. meiri hlutans, enda höfum við tekið þátt í umfjöllun og ákvörðun um margar þeirra, meðan aðrar hafa reyndar komið fullskapaðar frá viðkomandi ráðuneytum. Sú var tíðin að brtt. nefndarinnar voru settar fram á annan hátt en hér má nú sjá, þar sem hluti þeirra var borinn fram af fjárln. óskiptri og annar hluti þeirra af meiri hlutanum. Það finnst mér eðlilegri og réttari framsetning og veit raunar ekki hvenær þessi breyting varð á. Þess vegna vil ég benda á þetta og vona að hv. formaður fjárln. hafi heyrt þessa athugasemd og taki e.t.v. tillit til hennar.

Ég vil ekki eyða tíma þingsins í að fara yfir tillögur nefndarinnar og tína til í smáatriðum hvað ég er sátt við og hvað ekki. Ég vil þó sérstaklega nefna átak sem nú á að gera til eflingar fjarkennslu í landinu og byggist m.a. á samstarfssamningi Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands og Kennaraháskólans, en þeir ætla að vinna saman að uppbyggingu fjarkennslu og auka þannig aðgengi fólks um allt land að háskólamenntun. Einnig er lagt fé til fjarkennslu- og símenntunarstöðva í öllum kjördæmum landsins og tel ég það afar mikilvægan stuðning við þá uppbyggingu í þessum efnum sem nú á sér stað og er mikið áhugaefni um allt land. Þetta vil ég sérstaklega nefna. Ég gæti svo sem tínt til ýmislegt fleira.

Ég vil líka nefna það að ég er mjög ánægð með að loksins eigi að hefjast handa við endurbætur á Reykjavíkurflugvelli. Ég hef margsinnis fjallað um það og gagnrýnt það úr þessum ræðustóli hvernig látið hefur verið undir höfuð leggjast að ráðast í bráðnauðsynlegar endurbætur á Reykjavíkurflugvelli sem er orðinn þannig nú að hann er beinlínis hættulegur. En það hefði vitaskuld átt að gerast miklu fyrr.

Það er aðeins eitt sem ég vildi nefna í sambandi við fjárveitingar til hinna ýmsu verkefna sem ég vil hvetja menn til að íhuga betur og það er að styðja betur við ýmiss konar starfsemi sem er sjálfsprottin, má segja, úti í þjóðfélaginu, að styðja betur við frjáls félagasamtök sem auðvitað munar um hvern hundraðkallinn, en framlög og stuðningur við ýmsa þá starfsemi sem unnin er í sjálfboðavinnu og af brýnni þörf úti í þjóðfélaginu þarf að vera miklu meiri. Þessi félagasamtök gegna mjög mikilvægu hlutverki og spara í raun hinu opinbera gríðarlega mikla fjármuni. Það væri sannarlega verkefni að reyna að athuga hversu mikið þessi félagasamtök og ýmsir aðilar leggja til nauðsynlegrar starfsemi og þjónustu í samfélaginu. Reyndar gæti maður litið í eigin barm og skoðað allar þær kvittanir sem maður á í pússi sínu fyrir alls konar stuðningi og greiðslum fyrir happdrætti hinna ýmissu félaga sem vinna þjóðþrifastörf en hið opinbera styður of lítið. Slík félög og félagasamtök hafa lagt alveg gríðarlegar fjárhæðir til ýmiss konar þarfra verkefna í þjóðfélaginu og nægir kannski að minna á öll þau tæki sem ýmis félög og félagasamtök hafa keypt til sjúkrahúsa og annarra þjónustustofnana á vegum ríkisins. Nóg um það að sinni

Brtt. minni hlutans eru á þingskjali 446 og mun ég nú gera grein fyrir þeim.

Hin fyrsta er um 34,6 millj. kr. hækkun til Háskóla Íslands og eru þær ætlaðar til hækkunar á liðnum 1.20 Rannsóknarnám. Í rauninni hef ég þegar rökstutt þessa tillögu í nál. þar sem fjallað er um Háskóla Íslands í kaflanum um menntamál, en þar kemur fram að framhalds- og rannsóknarnám er eitt af forgangsverkefnum skólans. Einn þeirra þátta sem lögð hefur verið áhersla á er framhaldsnám í lækningum, ekki síst heimilislækningum, og gæti það verið, eins og ég sagði áðan, liður í því að koma í veg fyrir skort á heimilislæknum í landinu eins og nú virðist stefna í. Ég bið hv. meirihlutamenn að íhuga vel þessa tillögu og hverju hún gæti komið til leiðar.

Tillaga númer tvö er einnig rökstudd í nál. Hún er um 15 millj. kr. aukið framlag til átaksverkefnis í löggæslu vegna fíkniefnamála þannig að verkefnið fái samtals 50 millj. kr. á næsta ári. Sú tala þyrfti líklega að vera miklu hærri ef vel ætti að vera því hér er mikið í húfi, að reyna að stemma stigu við því ástandi sem skapast hefur vegna síaukins innflutnings og dreifingar fíkniefna. Hér hefði út af fyrir sig verið ástæða til að leggja fram brtt. um að bjóða upp á fleiri meðferðarúrræði fyrir þá sem lent hafa í neyslu, en mér er kunnugt um að verið er að athuga þau mál eitthvað frekar, auk þess sem ég vissi og við vissum það í minni hlutanum að fram mundu koma ýmsar tillögur um þau efni.

[16:30]

Þriðja tillagan er um hækkun framlags til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Hann fær samkvæmt frumvarpinu 235 milljónir til sinna verkefna og fær þó ekki allt til framkvæmda eins og lög gera ráð fyrir, heldur er sífellt tekið meira af þessu fé til rekstrar eins og ég fór yfir áðan. Eins og fram kemur í álitinu á framkvæmdasjóður lögum samkvæmt að fá til framkvæmda tekjur af erfðafjárskatti, en þær eru áætlaðar 480 milljónir kr. á næsta ári. Við leggjum einfaldlega til að sjóðurinn fái þær tekjur óskertar og veitir ekki af þegar litið er til alls þess sem ógert er til að koma til móts við þarfir fatlaðra í samfélaginu.

Í fjórða lagi leggjum við til 476 milljón króna hækkun lífeyristrygginga vegna launabreytinga, en samkvæmt sérstökum útreikningum er það sú heildarupphæð sem á vantar á þessu ári og hinu næsta til þess að þeir sem hafa ekki aðrar tekjur til framfærslu en grunnlífeyri plús tekjutryggingu hafi fengið hliðstæðar launahækkanir og viðmiðunarhóparnir. Minna er ekki hægt að sætta sig við í þeirra hlut, herra forseti, og verður nú enginn þeirra of sæll af þeim kjörum.

Loks er svo tillaga um 10,9 milljón króna aukið framlag til Náttúruverndar ríkisins, til liðar sem nefnist Þjóðgarðar og friðlýst svæði. Hér er raunar um algjöra lágmarksupphæð að ræða til að verða við brýnni þörf. Þarna er um að ræða aukinn kostnað við landvörslu á Hornströndum og við Mývatn og til að hefja aftur landvörslu við Gullfoss og Geysi, auk þess sem ætlunin er að efna til og efla samstarf við sveitarstjórnir um landvörslu á friðlýstum svæðum. Loks er hluti fjárhæðarinnar ætlaður til að kosta undirbúning og gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn í Skaftafelli. Verndar\-áætlun hefur verið gerð fyrir þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum og þess vegna er ljóst hver kostnaður kann að verða við þetta verkefni og ekki annað eftir en að hefjast handa. Þetta eru allt saman brýn verkefni og eins og ég sagði er þessi upphæð í rauninni aðeins til að mæta brýnustu þörf.

Verkefni Náttúruverndar ríkisins eru ærin og ljóst að stofnunin þarf á næstu árum að fá miklu meira fé til ráðstöfunar. Fyrirhugaðar eru breytingar á rekstri þjóðgarðanna í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum sem kalla á talsvert fé og fyrirsjáanlegt er að ekki verður undan vikist að taka til hendinni á friðlýstum svæðum sem eru mörg hver meðal fjölsóttustu ferðamannastaða landsins. Ef ekki verður að gert gæti þurft að loka svæðum til að koma í veg fyrir skemmdir á dýrmætri náttúru.

Til er áætlun um kostnað við uppbyggingu á friðlýstum svæðum í umsjón Náttúruverndar ríkisins sem talin er nema nær 160 milljónum króna. Sums staðar þarf að leggja göngustíga, annars staðar vantar bílastæði, girðingar, borð og bekki, upplýsingaskilti vantar alls staðar, tjaldsvæði, salerni, og þannig mætti áfram telja. Allt eru þetta brýn verkefni og þarf sem fyrst að móta áætlun um forgangsröðum og efna til samstarfs Náttúruverndar ríkisins við sveitarfélög, Vegagerðina og Ferðamálaráð Íslands og tryggja þannig samræmt átak og markvissa uppbyggingu.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.