Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 16:49:32 (2144)

1998-12-11 16:49:32# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. minni hluta KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[16:49]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristín Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að minna mig á til hvers þessi liður var ætlaður. Ég var búin að steingleyma því enda eru þeir liðir sem við fjöllum um á fjöldamörgum fundum fjárln. svo margir að eiginlega væri ofurmannlegt að ætla að muna hvað er á bak við hvern þeirra. Hins vegar er hann kannski skírður allt of stóru nafni til þess að fólk átti sig á hvað hér er um að ræða. Og það var einmitt það sem ég var að benda á og tók þennan lið sem eins konar tákn eða dæmi um það að við mættum hugsa stærra í þeim efnum og ég sný ekkert aftur með þá skoðun mína og þá fullyrðingu.

En hafi ég verið með hugaróra í sambandi við þessa samninga sem ég hef margsagt að ég er ekki að segja að hafi ekki verið staðið við og sveitarfélögin segja heldur ekki að ekki hafi verið staðið við, þá koma fulltrúar þeirra, hver á fætur öðrum, fyrir fjárln. og hafa samband við þingmenn og aðra og láta í ljósi þá skoðun að þeir hafi ekki fyllilega gáð að sér við endanlega samninga um tilflutning grunnskólans vegna þess að hér hafi orðið meiri kostnaður við framkvæmd mála en þeir hafi gert sér grein fyrir. Og hugarórarnir --- það er þá væntanlega verið að vísa með því orðalagi til ærið margra í þessum efnum. Það hafa fjölmargir þá skoðun að eðlilegt væri og sanngjörn krafa að þessir samningar væru skoðaðir upp á nýtt. Ég endurtek að ég hef hvergi sagt það og fulltrúar sveitarfélaganna hafa hvergi sagt það að samningar hafi verið brotnir eða rofnir, heldur að það þurfi að taka þá upp og kanna hvort ekki sé hægt að standa betur að verki.