Tilhögun þingfundar

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 17:28:10 (2148)

1998-12-11 17:28:10# 123. lþ. 38.98 fundur 162#B tilhögun þingfundar#, RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[17:28]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þessi dagur ætti að kenna okkur öllum nokkuð um vinnubrögð og með hvaða hætti farsælt er að leiða mál til lykta þannig að þingstörf geti ekki bara verið eðlileg heldur að þau gangi vel fyrir sig. Það er ekki hægt að segja það um daginn í dag. Hins vegar vil ég þakka forseta fyrir það hvernig hann hefur brugðist við. Fundir okkar með honum í dag hafa verið með ágætum og við horfum svolítið fram á veg með þinghaldið þó við tökum einn dag í einu. Mér finnst einnig mjög mikilvægt að forseti skuli beita sér fyrir fundi með heilbrrh. og fulltrúum í heilbr.- og trn. og ég þakka fyrir það.

Fyrst og fremst óska ég eftir því, herra forseti, að þessi dagur og niðurstaða eftir okkar fundi geti orðið til þess að við förum svolítið nýjar leiðir í vinnu okkar með þingsköpin og samvinnu minni og meiri hluta þegar við tökum til við þau mál að loknu jólahléi. Við það bind ég vonir og tel að mál verði að vera með nokkuð öðrum hætti en hingað til hefur skipast ef frekari þróun á að verða í ábyrgð minni hlutans á þingstörfunum. En ég þakka forseta fyrir hans þátt í þessu máli.

(Forseti (ÓE): Forseti þakkar sýndan samstarfsvilja og vonast til að þingstörf geti gengið sem greiðast fyrir sig.)