Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 18:04:55 (2150)

1998-12-11 18:04:55# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[18:04]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér talaði fulltrúi þingflokks jafnaðarmanna í fjárln. Ég tók eftir því að hv. þm. vék m.a. að iðnaðaruppbyggingu og orkunýtingu. Mér þótti fróðlegt að heyra hver væri stefna eða viðhorf hv. þm. og ég geri ráð fyrir að hann túlki stefnu síns þingflokks af því hann er talsmaður við þessa umræðu. Ef ég hef skilið hv. þm. rétt þá taldi hann mikla þörf á því að halda áfram beislun orku hérlendis til stóriðju þó einnig með tilliti til umhverfis, ef ég hef heyrt rétt, og allt er það á sínum stað. En mig langar til að fræðast frekar um það hjá hv. þm. hve langt hann telur rétt að ganga í þessum efnum, hvort hann telji eðlilegt að halda áfram frekari stóriðjuuppbyggingu á Grundartanga, svo dæmi sé tekið, sem og annars staðar í landinu og hvort hv. þm. hafi einhver mörk í huga um það hversu ráðlegt sé að ráðstafa mikilli orku í hefðbundinn orkufrekan iðnað hérlendis.

Þetta er tilefni þess að ég bið um orðið í andsvari og bæti við: Telur hv. þm. að stóriðja sem við köllum svo, orkufrekur iðnaður, sé helsta ráðið til þess að mæta atvinnuleysi ef atvinna yrði knöpp í landinu? Raunar er nú nokkurt atvinnuleysi. Telur hv. þm. að það sé leiðin til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi? Ég skildi hv. þm. svo að það væri þjóðráð.