Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 10:31:28 (2156)

1998-12-12 10:31:28# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[10:31]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Við höldum áfram umræðu um frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 en fjárlagagerðin er eitt veigamesta mál Alþingis á ári hverju og er í raun og veru lagarammi um umfang ríkisfjármála.

Fjárln. hefur fjallað um frv. milli umræðna undir dyggri stjórn hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formanns fjárln. og hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, varaformanns fjárln. og má segja að í fjárln. hafi ríkt einhugur og þar ríkir gott samstarf milli minnihlutamanna og meirihlutamanna. Fyrir það ber að þakka. Einnig ber að þakka starfsmönnum fjárln., ritaranum Sigurði Rúnari Sigurjónssyni og starfsmönnunum Ragnheiði Sumarliðadóttur og Bentínu Haraldsdóttur fyrir aðstoð þeirra og annarra sem komið hafa að þessum málum.

Í raun er ærinn starfi að sitja í fjárln. Við höfum hitt margt fólk sem hefur komið á okkar fund með tillögur og erindi og þau viðtöl skipta auðvitað miklu máli og það skiptir einnig miklu máli á hvern hátt þau erindi sem koma fyrir fjárln. eru sett fram. Því miður höfum við ekki úrlausn á öllum þeim erindum sem koma en í 2. umr. er einkum fjallað um útgjaldaliði fjárlagafrv.

Oft og tíðum þegar fjallað er um mál sem þetta velta menn fyrir sér styrkleikum málsins og veikleikum og má segja að styrkleikar þessa frv. séu margfalt fleiri en veikleikarnir. Það skiptir mjög miklu máli í ríkisfjármálum að núna um nokkurt skeið hefur verið lág verðbólga. Hagvöxtur er meiri hér á landi en hjá nágrannaþjóðunum. Þetta leiðir til þess að lánsfjárþörf er minni en verið hefur vegna þess að landsframleiðslan er núna meiri en hún hefur verið á undangengnum átta árum. Stöðugleiki ríkir í efnahagsmálum og sá stöðugleiki nýtist öllum, bæði heimilum á Íslandi, fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkissjóði þannig að öll áætlunargerð verður markvissari. Segja má að allar áætlanir sem gerðar eru nú á tímum séu mun nákvæmari en meðan verðbólga geisaði hér á landi.

Það sem skiptir líka veigamiklu máli þegar talað er um að styrkleika fjárlagagerðarinnar er að atvinna á Íslandi hefur aukist mjög mikið. Í upphafi kjörtímabils var atvinnuleysi liðlega 5% en nú er atvinnuleysi komið niður fyrir 3% þannig að þau fyrirheit Framsfl. um að auka störf um 12 þúsund fram til aldamóta --- menn eru í raun og veru hættir að gera grín að því markmiði okkar vegna þess að það er alveg ljóst að við munum ná því markmiði og gott betur.

Atvinnuleysisvofan var fylgifiskur síðustu ríkisstjórnar. Fjárlög eru afgreidd nú í jafnvægi þrátt fyrir að miklar skattalækkanir hafi verið á síðasta ári sem nema um 5 milljörðum. Laun hafa hækkað í landinu og tryggingabætur hafa einnig hækkað.

Þegar við fjöllum um styrkleikann má líka þakka að bókhaldskerfi ríkisins er mun öflugra og öruggara en verið hefur en bókhald er einmitt það stjórntæki sem nýtt er í fyrirtækjum og þarf að nýta það sem best í ríkisfjármálum.

Við megum aldrei missa sjónar af því að beint samband er á milli velferðar og atvinnulífs. Á síðasta ári fundum við hve mikill fjörkippur kom í íslenskt hagkerfi um það leyti sem undirritaður var samningur um stækkun álvers. Hvort heldur sem mönnum þykir sú framkvæmd góð eða ill skynjum við mjög vel í samfélaginu hve miklu máli þessi undirritun skipti.

Ný atvinnutækifæri í vísindaheiminum eru að skapast og nú er orðin gríðarleg samkeppni um vel menntað fólk á milli landa og það skiptir mjög miklu máli að skapa samfélag á Íslandi þar sem það skapast störf fyrir vel menntað fólk, annars missum við það í burtu. Þetta á auðvitað líka við um samkeppnina milli þéttbýlis og dreifbýlis. Við þurfum að skapa samfélag fyrir vel menntað fólk úti á landsbyggðinni og það kemur einmitt fram í þessari fjárlagagerð og mun ég víkja að því síðar í ræðu minni.

Auðvitað eru líka ákveðnir veikleikar í fjárlagagerðinni eins og gerist og gengur þó svo ég leggi áherslu á það að styrkleikar þessara fjárlaga eru meiri en veikleikarnir. Veikleikarnir eru einkum þeir að það er neikvæður viðskiptajöfnuður og sparnaður á Íslandi er í lágmarki. Það er einlæg skoðun mín að við þurfum að kenna meðferð fjármála í grunnskólum og í framhaldsskólum landsins. Þessu er öðruvísi farið hjá nágrannaþjóðum okkar þar sem t.d. í Danmörku gera fjölskyldur mjög gjarnan fjárhagsáætlanir um það hvenær þær ætla að ferðast, hvenær þær ætla að kaupa nýja bíla o.s.frv. Á Íslandi gerum við þetta ekki, við eyðum um efni fram. Þess vegna er mjög brýnt að við kennum meðferð fjármála í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Sparnaður á Íslandi er of lítill þó svo að ríkisstjórnin hafi verið að gera ráðstafanir í þeim efnum sem er ekki ljóst í dag hvort skilar sér en vonandi tekst það.

Einn af veikleikum þessa fjárlagafrv. er hugsanlega sá að það verður of lítill tekjuafgangur og má segja að það séu sömu lögmál í ríkisfjármálum og gilda í rekstri heimila landsins.

Í fjárlagafrv. er hugað að ýmsum fortíðarmálum og reyndar framtíðarverkefnum. Landbrh. vinnur nú að samningum vegna uppgjörs á jarðabótastyrkjum samkvæmt jarðalögum en eins og þingheimur veit þá skuldar ríkissjóður bændum umtalsverðar fjárhæðir. Ekki hefur verið farið að lögum hvað jarðabótastyrki áhrærir og landbrh. er einmitt að vinna að samningum og uppgjöri og vonandi tekst það í þessari fjárlagagerð enda er það til vansa fyrir ríkissjóð að fara ekki að lögum og gera ekki upp þær skuldir sem þarna eru.

Landbrh. hefur tekið á mörgum stórum málum á kjörtímabilinu. Þar má nefna GATT-samkomulagið sem var í raun í strandi þegar ríkisstjórnin tók við völdum og GATT-samkomulag er í höfn og einnig er í höfn búvörusamningar um sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu.

Í fjárlagagerðinni er tekist á við ákveðin umhverfisverkefni sem skipta mjög miklu máli. Um langt skeið hafa fyrirhleðslumál verið í ólestri á Íslandi og við höfum í raun varið allt of litlum peningum til fyrirhleðslumála vegna þess að ár hafa verið að brjóta ræktað land. Við höfum lagt mikla áherslu á landgræðslu og skógrækt en við höfum gleymt því að í mörgum tilvikum eru árnar að brjóta land, ræktað dýrmætt land, og við erum að verja í þessari fjárlagagerð umtalsvert meiri peningum í fyrirhleðslumál enda höfum við í raun um langt árabil varið allt of litlum peningum í þennan málaflokk.

Fram undan er 10 ára áætlun um fyrirhleðslumál á Markarfljóti og í þessum fjárlögum er gert ráð fyrir að verja 15 millj. til fyrirhleðslumála við Markarfljót. Einnig verjum við 6 millj. í fyrirhleðslumál við Klifanda en Klifandi hefur verið að brjóta land við Pétursey, í raun og veru afar dýrmætt land, en Mýrdalurinn er vagga lífrænnar ræktunar. Einnig er tekið á fleiri fyrirhleðslumálum í þessu fjárlagafrv.

Í fjárlagafrv. styrkjum við einnig fjölmörg landgræðslu- og skógræktarverkefni. Hér er um mjög spennandi framtíðarverkefni að ræða. Þar má nefna Suðurlandsskóga sem eru 40 ára verkefni, mjög metnaðarfullt. Aukið fjármagn er til Héraðsskóga, skjólskóga á Vestfjörðum og margt fleira mætti nefna. Skógrækt er að verða afar vinsæl grein á Íslandi og gaman er til þess að vita hve margir hafa áhuga á skógrækt og landgræðslu og það kemur vel fram í þessu fjárlagafrv.

Við erum líka að verja auknu fjármagni til ýmissa velferðarmála. Í 3. umr. munum við taka fyrir málefni fatlaðra. Við munum taka fyrir málefni sjúkrahúsanna. Við gerum ráð fyrir því að verja auknum peningum til Sjúkrahúss Suðurlands með tilliti til þess að þar verður væntanlega byggt hjúkrunarheimili í framtíðinni en það er auðvitað mjög brýnt verkefni fyrir Sunnlendinga að byggja hjúkrunarheimili við Sjúkrahús Suðurlands.

Herra forseti. Í þessari fjárlagagerð er líka hugað að framtíðinni. Við verjum auknu fjármagni til Háskóla Íslands og annarra háskóla á Íslandi. Gaman er til þess að vita hve langt Kennaraháskóli Íslands hefur náð í fjarnámi. Þar eru um 520 nemendur sem stunda fjarnám vítt og breitt um landið og reyndar víða um lönd. Það skiptir afar miklu máli fyrir landsbyggðarfólk að það geti stundað nám í gegnum fjarkennslu og þar er verulegum upphæðum varið einmitt til fjarnáms í þessum fjárlögum en fjarnám er byggðamál sem skiptir mjög miklu máli. Í fyrradag var ég á afar skemmtilegum fundi á Selfossi þar sem Sunnlendingar eru að byggja upp háskólasamfélag í gegnum fjarnám. Þar er mjög metnaðarfull áætlun og einmitt í fjárlögum þessum er ákveðið að verja fjármunum til þess að byggja upp fjarnám vítt og breitt um landið. Þetta mun hjálpa hinum dreifðu byggum.

Annað mál sem við höfum verið að taka á í fjárlagagerð bæði núna og á síðasta ári er jöfnun námskostnaðar. Kannski gera ekki allir sér grein fyrir því hve dýrt það er fyrir fólk að senda ungt fólk í framhaldsnám af landsbyggðinni í þéttbýlið eða í heimavistarskóla en í þessum fjárlögum munum við verja 25 millj. til viðbótar í þennan málaflokk og hugsanlega munum við taka enn betur á enda skiptir þetta verulegu máli fyrir hinar dreifðu byggðir.

Einnig eru fjárveitingar til ýmissa smáverkefna vítt og breitt um landið og þessi smáverkefni skipta hinar dreifðu byggir afar miklu máli. Í raun og veru eru þær fjárveitingar sem við erum að verja í þessi verkefni oft og tíðum ákveðinn aflvaki fyrir fólkið í hinum dreifðu byggðum þó ekki sé alltaf um mjög háar upphæðir að ræða. Þetta verður til þess að hægt verður að halda áfram verkefnum eða hrinda þeim í framkvæmd og það skiptir miklu máli.

Herra forseti. Þegar við lítum yfir fjárlagagerð ársins 1999 kemur í ljós eins og ég sagði í upphafi máls míns að styrkleikar þessa fjárlagafrv. eru mun fleiri en veikleikarnir og í 3. umr. munum við síðan fjalla um tekjuliði fjárlagafrv. Í stórum dráttum held ég að óhætt sé að segja að við getum verið stolt af þessum fjárlögum og ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem sitja í nefndinni hvort heldur menn eru í minni hluta eða meiri hluta, sá samhugur sem ríkir þar skiptir okkur miklu máli.