Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 11:17:07 (2159)

1998-12-12 11:17:07# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[11:17]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir en þetta þakkarávarp er nokkuð seint fram komið. Viðhorf mín hafa ekki breyst um margra ára skeið og eru t.d. skráð rækilega niður í bók mína Sjónarrönd sem kom út fyrir þremur árum. Þar sagði ég að það ætti að vera algert forgangsatriði að borga niður skuldir ríkisins og þjóðarinnar. Það er úrslitamál. Í ríkisfjármálum finnst mér tvennt mikilvægast: Annars vegar að borga niður skuldir og halda þeim niðri og hins vegar að tryggja velferðarkerfið. Þetta eru atriði sem skipta jafnmiklu máli og á að leggja jafnmikla áherslu á vegna þess að ekkert velferðarkerfi verður til ef menn keyra ríkissjóð á hausinn.