Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 12:34:16 (2183)

1998-12-12 12:34:16# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[12:34]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Við 1. umr. um fjárlög var þessum fjárlögum lýst sem miklum sólskinsfjárlögum. Hér ríkti glampandi sólskin en umfjöllun fjárln. og sú umræða sem orðið hefur um stöðu ríkisfjármálanna hefur leitt í ljós að þar er skýjað með köflum, dökku blettirnir eru ýmsir. Því verður ekki neitað, hæstv. forseti, að í efnahagsmálum okkar ríkir í heild gott ástand, verðbólga er afar lítil, verð á helstu útflutningsvörum okkar er hátt, atvinnuleysið er lítið og fer minnkandi, staða ríkissjóðs hefur verið að batna, erlendar skuldir hafa verið greiddar niður. Dökku hliðarnar eru að sá hagvöxtur sem við horfum upp á byggist fyrst og fremst á miklum fjárfestingum og þó öðru fremur á mikilli og vaxandi einkaneyslu þar sem heimilin í landinu eyða um efni fram. Það er kannski eitt helsta áhyggjuefnið, fyrir utan skuldir sveitarfélaganna sem hér hafa nokkuð verið til umræðu að undanförnu, hve skuldir heimilanna vaxa gríðarlega.

Í fylgiskjali sem minni hluti fjárln. lét fylgja nefndaráliti sínu er að finna hluta úr greinargerð Seðlabanka Íslands um peningamál: þróun, horfur og stefnu. Þar segir um skuldamálin og einkaneysluna, með leyfi forseta:

,,Á yfirstandandi ári spáir Þjóðhagsstofnun því að einkaneysla muni vaxa um 10% og verður að fara aftur til ársins 1987 til að finna samjöfnuð. Meginskýring þessa mikla vaxtar er mikil aukning kaupmáttar ráðstöfunartekna. Það er þó ekki fullnægjandi skýring þar sem áætlað er að kaupmáttur ráðstöfunartekna muni í heild aukast um nær 9%.`` Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Þannig er áætlað að skuldir heimilanna muni aukast um 43 milljarða kr. á þessu ári, eða um 9,5% að raungildi, sem er lítillega meira en á árinu 1997 og heldur meira en næstu fjögur ár þar á undan.`` Enn síðar í greininni segir, með leyfi forseta:

,,Sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er áætlað að skuldir heimilanna muni nema rúmlega 138% í ár en þær fóru yfir 130% árið 1996.``

Þessar tölur eru ógnvænlegar, hæstv. forseti, og kalla á margvíslegar skýringar. Ljóst er að margir höfðu saumað verulega að sér á undanförnum árum meðan við gengum í gegnum kreppuna. Víða var þörf ef þörf skyldi kalla. Sumt af þessu má kannski kalla gerviþarfir, margir þurftu að endurnýja bíla og heimilistæki og það er alkunna hve ferðaglaðir Íslendingar eru. Þeir hafa á þessu ári ferðast sem aldrei fyrr. Það er hægt að taka undir þau sjónarmið að verulega þurfi að efla sparnað í landinu og reyna að draga úr þeim gífurlega viðskiptahalla sem við horfum fram á og sjáum í dag. Við erum að eyða um efni fram þegar litið er á þjóðfélagið í heild.

Hæstv. forseti. Hópar í þjóðfélagi okkar standa meira og minna utan við þetta allt saman, hinir svokölluðu jaðarhópar. Mér fannst það athyglisvert þegar ég var í Svíþjóð um síðustu helgi og fram í miðja þessa viku, að þar las ég í blöðum og sá í sjónvarpi umræðuþátt sem fjallaði um hina svokölluðu nýfátækt. Svíar eru farnir að tala um nýfátækt. Við könnumst við hugtakið hinir nýríku en nú er að koma fram nýtt hugtak, hinir nýfátæku. Það eru þeir sem lenda utan við allan hagvöxtinn, breytingarnar og jafnvel bótakerfið, þeir sem lenda milli stafs og hurðar. Í þeim hópum er hluti aldraðra, hluti fatlaðra, hluti sjúklinga, hluti atvinnulausra, fíkniefnaneytendur og ýmsir fleiri. Þarna er ákveðinn hópur sem góðærið nær ekki til og að mínum dómi er vert að hafa miklar áhyggjur af og þarf að fylgjast mjög grannt með hverju fram vindur.

Í umræðunni um fjárlögin og þeim tillögum sem hér liggja fyrir hefur margt mjög athyglisvert komið í ljós. Þar er ekki síst að nefna stöðu launamála hjá ríkinu. Við höfum á undanförnum árum orðið vitni að því hve gríðarleg spenna ríkir hjá hinu opinbera í launamálum og hve gríðarleg óánægja hefur verið hjá ýmsum hópum. Þá vil ég sérstaklega nefna kennara og heilbrigðisstéttirnar. Á þessu ári höfum við orðið vitni að því að kjarasamningar sem gerðir voru á síðasta ári hafa verið að koma til framkvæmda. Í ljós hefur komið að launakostnaður hefur orðið mun meiri en reiknað hafði verið með. Það sýnir hversu flóknir og furðulegir samningar voru þarna á ferð. Jafnframt hafa ýmsir hópar ekki sætt sig við niðurstöður kjarasamninga og gripið til hópuppsagna og þannig reynt að knýja fram enn frekari launahækkanir m.a. vegna þeirrar niðurstöðu sem kom út úr nýrri röðun í launaflokka.

Þetta er ekki gott ástand en það er hægt að segja að þannig hafi þetta verið svo lengi sem elstu menn muna. Það hefur verið gríðarleg spenna á vinnumarkaðnum hjá hinu opinbera allt frá, ég held að ég geti sagt árinu 1983 þegar launavísitalan var tekin úr sambandi. Við munum eftir því að á síðasta áratug fóru kennarar tvisvar ef ekki þrisvar í verkfall, fengu síðan á sig bráðabirgðalög og hafa verið í mikilli kjarabaráttu allan þennan áratug. Í tillögum meiri hlutans kemur greinilega í ljós hve launaliðurinn hefur verið vanmetinn og er nauðsynlegt að taka á því. Okkur fannst mjög athyglisvert í þeirri yfirferð sem ég varð vitni að, bæði í hv. menntmn. og hv. félmn., að sjá að hver einasta stofnun sem við kölluðum til okkar var í miklum vanda vegna launamálanna.

Þá vil ég víkja að einstökum liðum og málefnum og ætla þá fyrst að taka það sem heyrir undir hv. félmn. Ég kem þar fyrst að málefnum fatlaðra.

Eins og þegar hefur komið fram og lesa má um bæði í áliti minni hluta félmn. og minni hluta fjárln. er ástandið í málefnum fatlaðra, einkum í Reykjavík og í nágrannasveitarfélögunum, reyndar allt út á Reykjanes, í miklum ólestri. Ég ætla ekki að deila um hversu löng sú saga er eða hver tók hvaða ákvörðun. Staðreyndin er sú að langir biðlistar eru eftir þjónustu. Þetta er algjörlega óviðunandi ástand. Við erum aðallega að tala um börn og hóp fullorðna sem þarf oft og tíðum á mikilli þjónustu að halda. Við erum að tala um einhverf börn, um þroskaheft börn, um spastísk börn o.s.frv., börn, unglinga og fullorðið fólk sem þurfa mikla þjónustu. Samfélaginu ber að veita þeim þessa þjónustu. Það er okkur til háborinnar skammar að láta það viðgangast ár eftir ár að hér séu langir biðlistar eftir mjög brýnni þjónustu. Því betri sem þjónustan er, þeim mun meiri möguleikar eru á því að aðstoða þessi börn og unglinga til að verða sem mest sjálfbjarga og komast hugsanlega út í atvinnulífið. Þetta er algjörlega óþolandi.

Ég veit ekki hvort ég skildi hv. þm. Árna Mathiesen rétt hér áðan, að fjárln. ætlaði að líta sérstaklega á þessi mál milli 2. og 3. umr. eða hvort hann var að tala um framtíðina. Ég vil hins vegar beina því til formanns fjárln. sem hér situr í salnum að nefndin skoði þennan málaflokk sérstaklega hvað suðvesturhornið varðar. Svona getur þetta ekki gengið. Við leggjum miklar byrðar á foreldra og systkini og völdum ómældum óþægindum ef ekki kvölum. Þetta má ekki ganga svona lengur. Ef samfélagið hefur einhverjar skyldur, þá eru þær gagnvart þeim sem ekki geta annast sig sjálfir. Brýnustu skyldur hvers samfélags eru að annast þá sem ekki geta séð um sig sjálfir.

[12:45]

Það vakti athygli okkar í félmn. og urðu um það umræður í haust hver staðan er hjá ungum fíkniefnaneytendum og öðrum þeim unglingum sem eiga í vanda með líf sitt. Komið hefur fram að hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18 ár kallar á ný meðferðarúrræði. Ég fæ hins vegar ekki séð að meiri hluti fjárln. bregðist nægilega vel við. Það þýðir að vandinn mun halda áfram. Það þarf fleiri heimili þó sérstaklega þurfi að bæta úr í Reykjavík. Þar fer sjálf greiningin fram þannig að sá flöskuháls sem þar hefur myndist leysist, brotni eða hvernig sem maður á að orða það. Það er ákaflega brýnt að taka á þeim málum.

Ég vil ekki láta hjá líða að koma inn á þann þátt sem við í minni hluta félmn. vekjum sérstaka athygli á en það er starfsmenntun í atvinnulífinu. Í nefndaráliti minni hluta fjárln. kemur fram að hann leggur afar mikla áherslu á að settir verði meiri peningar í menntakerfið. Við vitum að framtíð þjóðarinnar byggist að miklu leyti á því að við séum vel menntuð og getum brugðist við miklum breytingum. Það á ekki aðeins við um skólakerfið. Það á ekki síður við um atvinnulífið. Maður heyrir það hvar sem rætt er um framtíðina eða atvinnulífið, fyrirtækjastjórnun eða hvað sem er, að mál málanna er endurmenntun, þ.e. símenntun, að búa fólk undir breytingar og endurnýjun á vinnumarkaði. Að mínum dómi erum við langt á eftir í þessum málum.

Fyrir tilviljun heyrði ég í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi viðtal við menn sem fást við ráðgjöf til fyrirtækja eða eru í fyrirtækjastjórnun. Þeir nefndu einmitt að flest íslensk fyrirtæki væru langt á eftir í stjórnunarháttum sínum, menn hefðu áttað sig á því að eitthvað væri til sem héti gæðastjórnun fyrir nokkrum árum og tekið hana upp en nú gengi rekstur fyrirtækja alls staðar í heiminum út á að vinnandi fólk sé ánægt í vinnunni, hafi tækifæri til þess að mennta sig og endurmennta. Í því samhengi vil ég nefna, þó ég sé enginn sérstakur aðdáandi Evrópusambandsins en þar er þó ýmislegt gott gert, að framkvæmdastjórn þess samþykkti nýlega að beina því til aðila vinnumarkaðarins að taka meira tillit til menntunarmöguleika starfsfólks. Sérstaklega var hvatt til þess að samið yrði um aukna menntunarmöguleika starfsfólks í kjarasamningum.

Þarna þurfum við svo sannarlega að taka okkur á. Hér er alltaf verið að blanda starfsmenntun inn í atvinnuleysismál og hengja alla starfsmenntun í atvinnulífinu á Atvinnuleysistryggingasjóð. Það gefur ákveðin skilaboð en er bara alls ekki það sem málið gengur út á. Það að endurhæfa eða veita atvinnulausum tækifæri, reyna að aðstoða þá í atvinnuleit, bæta menntun þeirra o.s.frv. er allt annað en hin almenna starfsmenntun í atvinnulífinu sem hvert einasta fyrirtæki, hver einasta stofnun, þarf að horfa til á komandi árum og gera starfsmenntun að ákveðnum hluta af starfsemi sinni. Hver einasti vinnandi maður þarf að hafa tækifæri til að fylgjast með, bæta menntun sína og jafnvel að skipta um starfsvettvang o.s.frv. En hér er forneskjan ríkjandi og alltaf verið að hengja þetta á atvinnuleysismálin.

Ég vil sérstaklega nefna vanda framhaldsskólanna. Mér sýnist, og hef það staðfest frá hv. formanni fjárln., að í brtt. meiri hlutans sé komið til móts við þörf framhaldsskólanna vegna launamála. Það er kannski ekki síst í framhaldsskólunum sem samið var um töluverðar launahækkanir, sem betur fer. Ég vona að það skili sér í bættu starfsumhverfi og betri anda. Samt sem áður hafa framhaldsskólarnir eins og háskólarnir verið sveltir á undanförnum árum og þarf að taka á ýmsum málum varðandi umhverfi, tækjakost og fleira slíkt.

Í sambandi við Háskóla Íslands vil ég sérstaklega taka fram að ég þakka hv. fjárln., bæði minni og meiri hluta fyrir það hve þau brugðust vel við beiðni háskólastúdenta, háskólans og Þjóðarbókhlöðunnar um fjárveitingu svo hægt væri að lengja opnunartímann. Mér finnst þetta mikið fagnaðarefni og tel það mikið framfaraskref sem þarna er stigið. Þetta snýr ekki eingöngu að námsmönnunum heldur og ekki síður að fræðimönnum og öllum þeim sem reyna að stunda einhvers konar rannsóknir eða grúsk í frítíma sínum eða utan vinnutíma síns. Það hefur hamlað og verið fólki mjög til tafar hve opnunartími hinnar ágætu Þjóðarbókhlöðu hefur verið takmarkaður. Fullvinnandi fólk hefur væntanlega ekki tíma fyrr en síðdegis og um helgar til að sækja safnið. Þetta er því til gríðarlegra bóta og verður örugglega til þess að auka notkun Þjóðarbókhlöðunnar.

Eins og aðrir í minni hlutanum vil ég benda á að miklar breytingar hafa átt sér stað í Kennaraháskóla Íslands. Þar hafa skólar verið sameinaðir og þarf verulega að taka á. Auðvitað ætti að stefna að því að fjórða árið verði tekið upp í kennaramenntuninni. Það hefur komið glögglega í ljós að verulega þarf að bæta kennaramenntun í landinu. Ein leiðin til þess er vitanlega sú að lengja kennaramenntunina í fjögur ár þannig að kennarar verði betur búnir til að sinna þeim sívaxandi og margvíslegu hlutverkum sem lögð eru á þeirra herðar.

Af einstökum mennta- og menningarmálum vil ég sérstaklega taka upp málefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Því miður hefur meiri hluti fjárln. ekki orðið við beiðni sinfóníunnar um aukin fjárframlög. Hljómsveitin fer þess sérstaklega á leit, og það ekki í fyrsta sinn, að geta fjölgað í strengjasveitinni. Allir þeir sem þekkja til sinfóníuhljómsveitar Íslands vita að hún hefur tekið gríðarlegum framförum á undanförnum árum eða um það bil áratug. Þangað hafa verið fengnir afar góðir stjórnendur og mikið af því unga fólki sem við höfum menntað hefur skilað sér heim. Stöðurnar í hljómsveitinni eru of fáar og strengjasveitin er allt of veik miðað við það sem gerist og gengur í góðum sinfóníuhljómsveitum. Sinfóníuhljómsveitin benti á það í umsókn sinni að gríðarleg verkefni eru fram undan, plötuupptökur, allar þær hátíðir sem hér eru fram undan: menningarborg Evrópu árið 2000, kristnitökuafmælið, landafundaafmælið o.s.frv. Þar verður sinfónían kölluð til í stórum stíl. Þá væri auðvitað til sóma að hún gæti komið fram með fullum styrk og sinnt því viðamiklu verkefni sem henni verður falið að sinna. Því skora ég á hv. formann fjárl. að skoða þetta mál sérstaklega milli 2. og 3. umr. og Sinfóníuhljómsveit Íslands fái úrbætur þó að menn geri ekki annað en stíga skref í átt til þess sem um er beðið.

Ég get ekki látið hjá líða að koma sérstaklega að stöðu sjúkrahúsanna í Reykjavík enn einu sinni. Þetta er auðvitað orðin sagan endalausa, hvernig farið er með stóru sjúkrahúsin í Reykjavík. Ekki þarf annað en vísa til greinar í Morgunblaðinu 9. des. sl. þar sem finna má heilmikla yfirferð yfir skuldastöðu sjúkrahúsanna. (Gripið fram í: Og leiðarann í dag.) Já, ég er ekki búin að lesa hann, hv. þm. En þetta getur ekki gengið svona lengur. Þessu verður að linna. Ár eftir ár er sjúkrahúsum gert að vinna í anda kreppustjórnunar. Sérfræðingar segja mér að þetta séu þeir heimskulegustu stjórnunarhættir sem fyrirfinnast, að halda stofnunum í klemmu og gíslingu ár eftir ár. Mér skilst reyndar að hér hafi komið einhver fyrirheit um að reynt verði að leysa vandann en þegar horft er yfir það sem fram undan er hjá stóru sjúkrahúsunum, endurnýjun tækja, endurnýjun bygginga, nýbyggingar og nýjar stöður, m.a. vegna vinnutímatilskipunar Evrópusambandsins, þá eru þetta gríðarlegar upphæðir fyrir utan hinn uppsafnaða halla. Þarna er úr vöndu að ráða og gífurlegir fjármunir sem þarna þarf. Ég ítreka það enn einu sinni að svo vitlaust hefur verið haldið á málum, ekki síst á síðasta kjörtímabili, að það er mikil sorgarsaga. Nú vantar hæstv. heilbrrh. í salinn og ég veit ekki hvort hv. formaður fjárln. treystir sér til að svara þeirri spurningu sem ég hef velt fyrir mér: Er ekki skynsamlegra að byggja nýtt sjúkrahús í Reykjavík eins og mér er sagt að hafi verið gert m.a. í Ósló? Ég minnist þess að Helgi Sigurðsson krabbameinslæknir skrifaði grein í Morgunblaðið líklega í fyrra þar sem hann færði rök fyrir því að þessar byggingar og það skipulag sem sjúkrahúsin búa við væru svo mikill þrándur í götu allrar þróunar að það mundi borga sig að byggja nýtt sjúkrahús.

Fyrr í ræðu minni nefndi ég Svíþjóðarferð mína og þar hitti ég margt ágætt fólk, m.a. Guðjón Magnússon, skólastjóra Norræna heilsuháskólans. Í tal barst hvernig þessi mál væru að þróast í Svíþjóð. Hann sagði að þróunin þar væri svipuð, mörgum sjúkrahúsum hefði verið lokað og sjúkrahús sameinuð, m.a. er verið að sameina stóru sjúkrahúsin í Stokkhólmi. Í ljós hefur komið að nægileg þörf hefur verið fyrir húsnæðið. Þeim hefur verið breytt í hjúkrunarheimili, þau nýtt sem skólastofnanir eða eitthvað slíkt.

Ég skal viðurkenna það að ég hef ekki verið hlynnt sameiningu sjúkrahúsanna. Ég hef talið að gott væri fyrir fólk að geta valið á milli stofnana og á milli lækna. Ég tel gott að hafa svolitla, ég vil ekki endilega segja samkeppni en að menn hafi tækifæri til að reyna mismunandi leiðir á mismunandi sjúkrahúsum. Þegar maður horfir á hinn hrikalega kostnað þá held ég að það sé a.m.k. möguleiki sem þurfi að skoða, hvort ekki sé einfaldlega betra fyrir samfélagið að undirbúa fyrr en síðar byggingu nýs sjúkrahúss.

Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið skoðað á viðhlítandi hátt eða kostnaður við það metinn. Ég beini þeirri spurningu til formanns fjárln.: Hefur það verið gert? Ef maður bara horfir á tækjaþáttinn ... --- Nú gekk hæstv. heilbrrh. í salinn og get ég þá endurtekið spurningu mína. Ég spurði hvort gerð hefði verið úttekt á kostnaði við að byggja nýtt sjúkrahús í Reykjavík, hvort það væri hagkvæmara fyrir samfélagið miðað við þann gríðarlega kostnað sem fram undan er á báðum stóru sjúkrahúsunum.

Nú skal ég upplýsa, hæstv. forseti, vegna þess að ég veit að það er áætlað matarhlé, að ég er alveg að ljúka ræðu minni. Ég ítreka að svona getur þetta ekki gengið og verður að taka á hallanum og skoða hvaða leiðir eru til úrbóta.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég mæla fyrir brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um sérstakt framlag til Kvennasögusafns Íslands, 3 millj. kr. Þetta er reyndar aðeins lægri tala en Kvennasögusafnið bað um. Kvennasögusafnið hefur nokkuð sérstaka stöðu innan Þjóðarbókhlöðunnar. Kannski má segja að því hafi ekki verið tekið nægilega vel þar innan dyra. Þeim hefur í raun verið gert að afla fjár. Þetta er mjög merkilegt safn og varð til vegna framtaks Önnu heitinnar Sigurðardóttur, blessuð sé minning hennar. Hún fór snemma að safna ýmsu sem snerti sögu kvenna og átti mjög merkilegt skjala- og bókasafn sem nú er varðveitt í Þjóðarbókhlöðunni. Hins vegar hefur gengið illa að fá þá stöðu sem safninu ber innan Þjóðarbókhlöðunnar. Það er auðvitað ekki nægilega gott en safnið þarf að fá sitt framlag. Það hefur einn starfsmann á launum og reynir að sinna því sem til þess berst, skrá og greina. Ég legg til að þessu safni verði sýndur sómi með 3 millj. kr. framlagi.