Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 13:10:42 (2188)

1998-12-12 13:10:42# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[13:10]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristín Ástgreirsdóttir bryddar upp á mjög spennandi hlut um byggingu eins stórs sjúkrahúss. Þá er hún sammála þeim sem telja að það eigi að sameina spítalana. En af því að hv. þm. spyr hvað þetta kostar og hv. þm. fjárln. hefur þegar sagt að það kostar ekki undir 50 milljörðum kr., þá verðum við að miða okkur við byggingar í Skandinavíu af svipaðri stærð. Ég minni á að barnaspítalinn einn kostar einn milljarð í byggingu þannig að við erum að tala um hlut sem er ekki kominn á teikniborðið hjá okkur enn enda afskaplega fjárfrek framkvæmd.

En það er alveg hárrétt sem hv. þm. sagði að tækniþróunin er svo ör. Við erum sífellt að breyta. Við sáum ekki fyrir fyrir 10 árum hversu miklar breytingar hafa orðið t.d. varðandi göngudeildarþjónustu. Á Ríkisspítölum og víðar er t.d. búið að byggja upp göngudeildarþjónustu á fjórum árum í hluta sjúkrahúsanna sem höfðu áður verið legudeildir því að legutími styttist mjög en í staðinn koma sjúklingar í ríkari mæli inn á göngudeild.

Af því að hv. þm. spurði þá höfðum við skoðað þetta gróft en kostnaðartölurnar eru slíkar að við höfðum ekki leyft okkur að fara lengra.