Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 13:33:45 (2191)

1998-12-12 13:33:45# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[13:33]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þegar hæstv. fjmrh. kynnti fjárlagafrv. í byrjun októbermánaðar tóku menn eftir því að það var gult á litinn og hæstv. ráðherra var fljótur að skýra út fyrir okkur að það væri vegna þess að það boðaði sólskin og hefur frv. stundum verið kallað sólskinsfrv. Eftir að menn hafa farið betur í saumana á þessu frv. hefur dregið meira fyrir sólu þótt vissulega sé þar ýmislegt jákvætt.

Talað hefur verið um að í landinu ríki góðæri og vissulega er það rétt þegar litið er til efnahagslífsins almennt, þá eru ytri skilyrði góð. Hér hefur aflast mjög vel, mikill fiskafli borist á land. Við höfum fengið fyrir hann gott markaðsverð, verð á olíu hefur farið lækkandi og áfram mætti telja. En allt endurspeglast þetta síðan í góðri afkomu fyrirtækjanna í landinu.

Í nál. minni hluta fjárln. er vísað til heildaruppgjörs þeirra 44 fyrirtækja að undanskildum hlutabréfasjóðum sem skráð voru á hlutabréfamarkaði á miðju ári en þar kemur fram hve góð afkoma þeirra er. Velta þessara fyrirtækja var rúmlega 10% meiri í janúar--júní 1998 en sömu mánuði 1997, jókst úr 112,8 milljörðum kr. í 124,3. Afkoman batnaði hvort heldur er miðað við hagnað af reglulegri starfsemi eða hreinan hagnað.

Annað er jákvætt í efnahagslífinu núna og það snýr að atvinnuleysinu sem hefur verið á niðurleið. Það stefnir í að atvinnuleysi verði undir 3% á þessu ári og menn eru að spá því að það fari jafnvel enn neðar á næsta ári. Þar er því spáð að atvinnuleysi verði 2,5. Það er hins vegar 2,5% of mikið vegna þess að Íslendingar eiga ekki að þurfa að búa við atvinnuleysi, allra síst þegar vel árar og þegar litið er til reynslunnar frá lokum seinna stríðs, er það svo að fram á þennan áratug var nánast ekkert atvinnuleysi í landinu, undir 1% að meðaltali að undanskildum síðustu árum 7. áratugarins þegar um var að ræða tímabundið atvinnuleysi.

Það svigrúm sem góðærið í efnahagslífinu almennt hefur skapað hyggst ríkisstjórnin nota til að ná skuldum ríkissjóðs niður og er það mjög jákvætt að mínum dómi. Það á að nota hin góðu ár til þess að greiða niður skuldir ríkisins vegna þess að þegar herðir að er slæmt og óæskilegt að þurfa að bera þungar skuldaklyfjar og verja skattpeningum til að greiða þær niður og borga vexti. Menn eru með mikla drauma og stór áform í þessum efnum. Í skýrslum ríkisstjórnarinnar og efnahagsspám er gert ráð fyrir því að ná skuldum ríkissjóðs niður á næstu árum úr um það bil 50% af vergri landsframleiðslu niður um heil 30% og færa þær niður í um 20% þegar komið er fram á árið 2003.

Þá er rétt að spyrja hvernig eigi að gera þetta og ekki bara á næstu árum heldur þurfum við að skoða líka hvernig ríkisstjórnin starfar nú, hvernig hún fer að því að greiða þessar skuldir niður, á hvaða forsendum hún starfar. Þá eru tvö lykilatriði. Það eru tvö lykilatriði sem við hljótum að spyrja um og þau eru raunsæi og réttlæti.

Í fyrsta lagi er ástæða til að ætla að raunsæi búi ekki að baki þeim spádómum sem ríkisstjórnin byggir á. Hún eða sérfræðingar hennar ætla að hagvöxtur verði áfram á næstu árum mjög mikill. Hann er rúm 5% á þessu ári og menn ætla að á næstu árum eða fram til 2003 verði hann að jafnaði um 3%. Menn ætla að við flytjum út eða aukum útflutning okkar á þessu tímabili um 3--4% á ári. Vandinn er bara sá að efnahagskerfin sem við þurfum að reiða okkur á um þennan útflutning standa á brauðfótum. Það sama á við um t.d. Evrópusambandið og okkar eigið land. Talað hefur verið um góðæri og góðan hag án þess að spyrja um réttlæti og innri skiptingu. Í Evrópusambandinu eru upp undir 20 milljónir manna atvinnulausir. Á undanförnum mánuðum höfum við fengið að kynnast því hve ótraust efnahagskerfi Asíu eru og allt er þetta samtengt. Þessir glöðu spádómar ríkisstjórnarinnar um batnandi hag okkar byggja ekki á traustari forsendum en efnahagskerfi viðskiptaaðila okkar bjóða upp á og þau eru ekki traust.

Annað sem er líka áhyggjuefni er hinn mikli halli sem er á viðskiptum við útlönd. Það stefnir á 40 milljarða viðskiptahalla á þessu ári og þá spyr maður sig hvort innstæða sé fyrir þessum halla. Að hluta til má skýra viðskiptahallann í flugvélakaupum, í ýmsum framkvæmdum og fjárfestingum sem eiga hugsanlega eftir að skila sér í batnandi þjóðarhag en að hluta til fara skuldir fyrirtækja og heimila vaxandi. Skuldir heimilanna eru núna meiri en þær hafa nokkru sinni verið, um 400 milljarðar kr., meiri en nokkurn tíma í sögunni. Allt er þetta áhyggjuefni.

Það er annað sem við hljótum að staldra við þegar við lítum á spádóma ríkisstjórnarinnar. Það er að á sama tíma og hún spáir því að skuldir ríkisins fari lækkandi um heil 30% þegar litið er til vergrar landsframleiðslu, úr um 50% niður í 20% fram til ársins 2003, gerir hún ráð fyrir því að heildarskuldir þjóðarinnar verði orðnar meiri, þær verða orðnar hærri þegar kemur fram til þessa tíma. Menn eru að taka niður skuldir ríkissjóðs, fara með þær úr 50% niður í 20%, en á sama tíma spá þeir því að heildarskuldir Íslendinga verði orðnar hærri. Með öðrum orðum kemur samsetningin til með að breytast, hagur ríkissjóðs verður betri en þjóðarinnar í heild sinni lakari. Þá fer maður að spyrja: Hvað er það sem er að gerast? Hvers vegna getur ríkið farið niður með skuldir sínar en skuldir þjóðarinnar í heild sinni vaxa?

Margar ástæður eru fyrir þessu. Í fyrsta lagi er staðreynd að ríkissjóður hagnast á því að færa ýmis verkefni sem hafa hvílt á honum yfir til sveitarfélaganna, færa verkefni frá ríki til sveitarfélaganna. Það er athyglisvert að á sama tíma og gert er ráð fyrir því að reka ríkissjóð þannig að við höfum efni á að greiða upp skuldir eru sveitarfélögin í landinu rekin með halla, hátt á annan milljarð að því er menn ætla á þessu ári. Þegar peningaleg staða sveitarfélaganna er skoðuð, og það er eðlilegt að skoða hana þegar staða þeirra er metin því að hún gefur gleggsta mynd af raunverulegri stöðu, þá kemur í ljós að árið 1990 var peningaleg staða þeirra um 5 milljarðar í mínus. Árið 1993 er þessi tala komin í 13,5 milljarða, árið 1995 í 24 milljarða í mínus og áfram fer hún versnandi. 24,3 milljarða ætla menn að þetta sé á síðasta ári. Hagur ríkissjóðs fer batnandi en hann gerir það á kostnað sveitarfélaganna.

[13:45]

Það er annað sem skýrir að ríkisstjórnin eða ríkisvaldið mun hugsanlega ná niður eigin skuldum á sama tíma og skuldir þjóðarinnar fara vaxandi en önnur skýring á þessu eru breytingar sem verið er að gera á rekstrarfyrirkomulagi. Núna hefur svokölluð einkaframkvæmd verið boðuð á ýmsum sviðum, áður hjá Iðnskólanum í Hafnarfirði, held ég það sé, og einnig núna á sjúkrahúsum og öldrunarheimilum. Þetta er fyrirbrigði sem nýtur mikilla vinsælda, ekki bara hjá þeirri ríkisstjórn sem hér situr og ekki bara hjá íhaldsríkisstjórnum, ríkisstjórnum Thatcher og Johns Majors --- reyndar var þetta ekki komið í tísku þegar Thatcher sat heldur var það John Major sem tók þetta upp --- heldur einnig hjá krötum. Nýkratarnir í Bretlandi halda áfram þessari einkaframkvæmd, sem er nýtt orð, nýtt hugtak sem er notað um einkavæðingu. (Gripið fram í: Hvað eru nýkratar?) Hvað eru nýkratar? er spurt úti í sal. Það eru menn sem sigla undir fölsku flaggi. Þykjast boða félagshyggju og láta kjósa sig á grundvelli félagshyggjunnar en framkvæma örgustu frjálshyggju. Það eru nýkratar. Gegn þessari þróun eru að rísa vinstri hreyfingar, ekki bara hér á landi heldur víðs vegar um Evrópu og um heim allan. Menn sem ætla að fara undir skýrum markmiðum og ætla ekki að láta kjósa sig til valda á fölskum forsendum.

Einkaframkvæmdin byggir á því að fela fyrirtæki að reisa og starfrækja stofnanir á borð við sjúkrahús, á borð við fangelsi, á borð við skóla. Hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde hefur boðað þetta fagnaðarerindi hingað.

Vandinn er hins vegar sá fyrir skattborgarann, fyrir þjóðina, að þetta fyrirkomulag er bæði óhagkvæmara og miklu dýrara. Miklu dýrara fyrir skattborgarann en hefðbundinn rekstur. Hvernig stendur á því? Það stendur þannig á því að einkafyrirtækið þarf að ná í fjármagn á miklu dýrari kjörum en hið opinbera getur gert. Í annan stað ráðast fyrirtæki ekki í svona framkvæmd af góðmennskunni einni heldur til þess að hafa af þessu arð, geta tekið arð út úr þessari starfsemi. Það er að sjálfsögðu á kostnað skattborgarans.

Hvar liggur þá freistingin? Hvar liggur freistingin fyrir stjórnmálamennina? Hvar liggur freistingin fyrir breska íhaldið eða breska nýíhaldið sem gengur undir nafninu breski verkamannaflokkurinn? Hvar liggur freistingin? Freistingin liggur í því að hægt er að blekkja kjósendur með bókhaldsbrellum vegna þess að skuldin kemur hvergi fram. Hún er greidd samtímis en kemur hvergi fram. Menn gera samning við fyrirtækið um að sjá því fyrir kúnnum, fyrir viðskiptavinum. Hverjir eru kúnnarnir, viðskiptavinirnir? Það geta verið skólanemar, það geta verið fangar, það geta verið sjúklingar. Ríkið eða sveitarfélagið skuldbindur sig til 10, 15, 20, 30 ára eftir atvikum til að sjá fyrirtækinu fyrir viðskiptavinum og greiðir fyrir þjónustuna árlega.

Fyrirtækið er hins vegar með skuldirnar sem þarf að fá fjárfestinguna í bókhaldi sínu. Það kemur hvergi fram, hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélagi. Þess vegna koma stjórnmálamennirnir glaðir og reifir til kjósenda sinna þegar þeir opna skólana og sjúkrahúsin og fangelsin og segja: Hér hafið þið þessar nýju, fínu stofnanir, sjáið þið hvað við stöndum okkur vel. Það sem kjósandinn fær ekki að vita er að það er verið að ávísa skuldbyrðinni inn í framtíðina. Hvaða lausn hafa menn þá þegar ekki verður til peningur til að fjármagna hana? Hvaða lausn hafa menn þá í skólunum, sjúkrahúsunum? Það eru þjónustugjöld. Þetta er ávísun á misrétti í framtíðinni. Þetta er dýrara og erfiðara á alla lund fyrir hið opinbera og hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir skattborgarann þegar hann er beittur blekkingum af þessu tagi. Þetta er ein ástæðan fyrir því að hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde kemur galvaskur og segir: Á næstu árum ætlum við að ná skuldum ríkissjóðs niður um heil 30%, úr 50% af vergri landsframleiðslu niður í 20% árið 2003. Hvernig á að gera þetta?

Það er m.a. með þessu. Með því að skuldsetja sveitarfélögin og með því að setja á eitt allsherjarblekkingarleikrit í bókhaldi ríkisins. Það er þetta sem á að gera. Skuldirnar munu hvíla á öllum þessum fyrirtækjum. Það mun ekki koma fram í bókhaldi ríkissjóðs. Þess vegna er hægt að birta okkur svona gleðitíðindi, sólskinstíðindi eins og þessi. En þetta er ávísun á misrétti í framtíðinni. (ÖS: Þetta er árás á Reykjavíkurlistann.) Árás á Reykjavíkurlistann, segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Þetta er í rauninni gagnrýni á alla þá sem framkvæma þessa stefnu. Við erum með málefnalega umræðu um þetta tiltekna málefni. Mér er nákvæmlega sama hvað sá heitir sem framkvæmir hana, hvort sem það er íhaldið í Bretlandi eða verkamannaflokkurinn þar eða R-listinn í Reykjavík sem hefur því miður tekið upp ýmsa frjálshyggjubábiljuna á þessu sviði sem öðrum. Ég hef gagnrýnt það t.d. hvað varðar orkubúskapinn. Auðvitað var það áhyggjuefni þegar Reykjavíkurborg og R-listinn í Reykjavík hafði forgöngu um að markaðsvæða raforkubúskapinn í landinu. Auðvitað á hver sem á í hlut að gagnrýna það. Það er þetta sem vantar inn í pólitíkina núna. Það er afl sem er sjálfu sér samkvæmt, sem siglir ekki undir fölsku flaggi og það er það sem við erum að bjóða upp á sem erum að fylkja okkur undir fána Vinstri hreyfingar --- græns framboðs.

Ég sagði að þegar við fjöllum um efnahagsmálin, þegar við fjöllum um þann ásetning ríkisstjórnarinnar að ná skuldum ríkisins niður, sem er jákvætt, þurfum við að spyrja um tvennt. Við erum að spyrja um raunsæi og við erum að spyrja um réttlæti. Ég hef rakið að því miður má ætla að þetta mat ríkisstjórnarinnar byggi ekki á raunsæi. Þetta stendur allt á brauðfótum. Við stefnum í 40 milljarða viðskiptahalla á þessu ári og því miður er margt sem bendir til þess að ekki sé innstæða fyrir þessari miklu þenslu. Þá sitjum við uppi með skuldir. Þegar ég segi ,,við`` þá er ég að tala um fyrirtækin í landinu og ég er að tala um heimilin í landinu sem eru meira skuldsett nú en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni, upp á 400 milljarða kr.

Síðan nefndi ég það, þegar ég var að tala um þessa breyttu samsetningu á skuldum þjóðarinnar, að ég óttast að við munum koma til með að rekja þær til einkaframkvæmdar, einkaframkvæmdar í opinberum rekstri og tengdi það því að þetta mundi því miður vera ávísun á félagslegt ranglæti þegar farið verður að rukka skólanema og sjúklinga í vaxandi mæli á komandi árum ef þessi stefna nær fram að ganga. Þá er náttúrlega komið að því sem er svívirðilegast af öllu og það er að ríkisstjórnin hefur gert bakið á öryrkjanum, hinum öldruðu og hinum atvinnulausu að vinnuborði sínu. Það er á kostnað þessa fólks sem verið er að greiða niður skuldir þjóðarinnar.

Þegar ég nefni að það sé fagnaðarefni að ná niður skuldum þá verður það að gerast þannig að réttlætissjónarmiða sé gætt. Það er ekki gert. Skerðing á kjörum aldraðra hefur átt sér stað á þessum áratug, hófst skipulega árið 1992. Farið var að skerða kjör aldraðra skipulega árið 1992. Þetta hefur verið staðfest núna nýlega af hálfu Ríkisendurskoðunar en þar kemur fram að ef grunnlífeyrir elli- og örorkulífeyrisþega með tekjutryggingu án uppbóta hefði tekið sömu breytingum og lágmarkslaun á árunum 1995--98 hefðu bætur lífeyristrygginga orðið 1.842 millj. kr. hærri á þessu fjögurra ára tímabili en raun varð á. Hlutfallslega mest var haft af ellilífeyrisþegum og öryrkjum árið 1997 --- það var árið sem góðærið hóf innreið sína --- en það ár hækkuðu lágmarkslaun verulega eða um 13% borið saman við hækkun grunnlífeyris um tæp 4%. Á sama tíma og góðærið, góð skilyrði sem Íslendingar búa við, ytri skilyrði, fer að skila sér til fyrirtækja og hópa launafólks er þetta fólk skilið skipulega eftir. Bara á þennan hátt eru hafðir af öryrkjum og lífeyrisþegum 1.842 millj. kr., á annan milljarð króna. Síðan hafa kjör þessara hópa verið skert með ýmsum hætti að auki. Auðvitað er umhugsunarefni að í tillögum sem koma frá ríkisstjórninni er gert ráð fyrir að skera niður við Framkvæmdasjóð fatlaðra um hátt á þriðja hundrað millj. kr. Og menn eru að tala um góðæri. Ekki hjá þessu fólki.

Margar mjög góðar blaðagreinar hafa birst að undanförnu þar sem vakin er athygli alþingismanna á kjörum aldraðra. Ég er með blaðagrein sem Helgi Seljan, sem er framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins, skrifar í Morgunblaðið á fimmtudaginn í síðustu viku. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Það líður óðum að afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Það fer ekki milli mála að eftir þeirri afgreiðslu verður tekið af mörgum, ekki síst þeim sem eiga afkomu sína að miklu leyti undir því komna hversu endanlega þar verður málum ráðið. Það er líka dagljóst öllum, ekki síst þeim sem málum stjórna, til hverra þeir verða öðrum fremur að líta þegar þeir endanlega afgreiða fjárlög næsta ár.``

[14:00]

Helgi Seljan, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins, heldur áfram og spyr:

,,Eru menn þarna inni virkilega ekki orðnir læsir á annað en úrvalsvísitölur verðbréfanna? Ég neita að trúa fyrr en ég tek á því þó hin símalandi gróttakvörn markaðsvæðingarinnar setji margt mannlegt úr skorðum. En ríkjandi stjórnarmeirihluti sem gumar af því að færa allt til betri og bjartari vegar verður einmitt dæmdur af því fyrst og síðast hvaða kjör þeim eru búin sem þeir hafa svo afgerandi áhrif á að sköpum skiptir. Öryrkjar bíða enn, en það skulu menn vita að þolinmæði þeirra og þolgæði um leið eru takmörk sett.

Þeir vita að það kostar ekki nema svo sem 1% fjárlagadæmisins að lagfæra kjör þeirra verulega.``

Þetta segir m.a. Helgi Seljan, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins, sem flestum öðrum fremur hefur látið sig kjör öryrkja skipta og verið einarður talsmaður og baráttumaður þeirra í langan tíma.

Við í þingflokki óháðra leggjum mjög ríka áherslu á að áður en endanlega verður gengið frá fjárlögum næsta árs verði málefni aldraðra og öryrkja tekin til sérstakrar skoðunar og að þessum aðilum verði tryggt sómasamlegt líf.

Hvað er sómasamlegt líf? Öryrki skrifaði mér bréf og væntanlega mörgum öðrum þingmönnum og ráðamönnum einnig þar sem hann spyr sjálfan sig þessarar spurningar: Hvað er sómasamlegt líf? Hann svarar á þennan hátt: ,,Mitt svar er í hnotskurn það að fólk þurfi ekki að vera upp á aðra, svo sem ættingja, komið með brýnustu nauðsynjar eins og fjölmörg dæmi eru til um, að fólk geti lifað sjálfstæðu lífi.``

Eitt málefni sem Öryrkjabandalagið og öryrkjar hafa lagt mjög mikla áherslu á í þessu efni er að afnema það ranglæti sem felst í því að skerða kjör öryrkja gangi þeir í hjónaband. Þetta hefur margoft verið reifað á Alþingi, en til upprifjunar má geta þess að öryrki getur í hæsta lagi fengið um 63 þús. kr. á mánuði. Hann getur í hæsta lagi fengið um 63. þús. á mánuði. Ef hann gengur í hjónaband hrapar hann við það eitt niður í 44 þús. á mánuði. Ef makinn aflar teknar þá skerðast tekjur öryrkjans hlutfallslega og þannig að ef makinn er með sem nemur meðaltekjum einstaklings innan BSRB eða ASÍ þá eru tekjur öryrkjans færðar niður í 15 þús. kr. á mánuði. Þetta er náttúrlega svo mikið ranglæti að það er réttnefni að tala um mannréttindabaráttu þegar sú krafa er sett fram að úr þessu verði bætt. Ég hvet mjög eindregið til þess að ríkisstjórnin horfi sérstaklega til þessa þegar fjárlög eru tekin til endanlegrar afgreiðslu.

Á öðrum málum þyrfti einnig að taka og reyndar þegar spurt er hvað sé til ráða þá þarf að taka bæði tekjur og gjöld hins opinbera til mjög róttækrar endurskoðunar til að koma hér á réttlátara fyrirkomulagi. Það þarf að taka skattkerfið til endurskoðunar, allt tekjuöflunarkerfi ríkisins. Þar hefur allt verið fært í ranglætisátt á undanförnum árum og þá er ég að horfa til þessa áratugar alls. Tekjuskattur fyrirtækja hefur verið stórlækkaður. Hann hefur verið færður úr um 50% niður í 30%. Fjármagnstekjuskattur var settur á sem ívilnaði stórlega eignafólki. Skattar sem eignamenn höfðu verið að greiða og voru samsvarandi tekjusköttum voru færðir niður í 10%. Og ef ég man rétt þá minnkaði skattstofn af arði og hlutabréfagróða um milljarð. Ég hef oft tekið dæmi af því hvernig fyrirtæki högnuðust. Ég man að á þeim tíma sem þetta var gert var verið að greiða út arð upp á 14--15 milljónir í einu stórfyrirtæki í Reykjavík og fyrir skattabreytingar ríkisstjórnarinnar voru menn að greiða skatta af þessu í kringum 5--6 milljónir. En þeir voru lækkaðir niður í hálfa aðra milljón eða þar um bil. Þetta voru þær skattabreytingar sem ríkisstjórnin hefur sett fram, allar í ranglætisátt, á sama tíma og hún hefur verið að setja á endalausa sjúklingaskatta og skert kjör þeirra sem hafa minnst handa á milli í þjóðfélaginu.

Ég vil vekja athygli á tveimur breytingum við fjárlagatillögur ríkisstjórnarinnar sem lagðar hafa verið fram og lúta að komugjöldum á heilsugæslustöðvar. Þar er lagt til að varið verði 250 millj. kr. til þess að afnema þessi komugjöld. Auðvitað þyrfti að afnema sjúklingaskatta og gjöld í heilbrigðiskerfinu almennt. En þarna á að stíga skref þegar í stað. Það hefur komið fram og kom fram í skýrslu landlæknis á sínum tíma að fólk með litlar tekjur veigrar sér við að leita sér lækninga. Tekjulágt fólk veigrar sér við að leita lækninga og það sýnir okkur að við höfum, eða að þeir sem því hafa stýrt hafa sett of háa þröskulda inn á sjúkrastofnanir og þá þröskulda ber að fjarlægja. Það ber að fjarlægja þá. Þetta var gert fyrr á þessum áratug. Þá var hafist handa um þetta til að reyna að koma inn kostnaðarvitund, eins og það var kallað, hjá sjúku fólki. Þetta var náttúrlega skelfilega svívirðilegt og óafsakanlegt. Menn hafa stundum verið að réttlæta þetta með því að samdráttur hafi verið í þjóðfélaginu. Menn hafa verið að réttlæta það að níðast á sjúklingum og öryrkjum og fátæku fólki á þeirri forsendu að svo miklar þrengingar hafi verið í efnahagslífinu. Þetta þætti mjög skrýtin hagfræði á heimilum, að draga úr mjólkurkaupum en halda sig við konfekt með kaffinu, því að ekkert var hert að þeim sem hafa peninga í landinu, alls ekki. Það var verið að hygla þeim öllum stundum, minnka á þá álögurnar. En það var hamast á hinum vegna þess að það voru svo miklar efnahagsþrengingar. Þetta er náttúrlega alveg gersamlega út í hött og menn ættu aldrei að láta sér svona um munn fara. En ég hef heyrt þessu haldið fram hér í þingsal af þeim sem stýrðu för á þessum tíma. Þar er ég að vísa til ýmissa talsmanna Alþfl. sem réttlættu þessar breytingar, þessa sjúklingaskatta á sínum tíma, í ljósi þess að þetta hefði verið gert vegna efnahagsþrenginga Íslendinga. Þetta á að sjálfsögðu ekki við og er ekki forsvaranlegt því að á þessum sama tíma var verið að létta byrðum af fyrirtækjum, þeim fyrirtækjum sem best stóðu sig og högnuðust. Það var verið að lækka tekjuskatta fyrirtækjanna.

Annað sem ég vildi nefna hér er 263,7 millj. kr. hækkun til sjúkratrygginga til þess að koma til móts við aldraða, öryrkja og unglinga varðandi tannviðgerðir. Í þeirri skýrslu sem ég vitnaði til áðan, skýrslu landlæknis sem sýnir fram á að tekjulítið fólk veigrar sér við að leita sér lækninga, kom fram að þessi tilhneiging sýndi sig fyrst varðandi tannlækningarnar. Við létum reikna út fyrir okkur hvað það mundi kosta að auka hlutdeild almannatrygginga gagnvart öldruðum og öryrkjum --- þá erum við að tala um rúmar 100 millj. kr. --- með því að gera tannlæknakostnað þessara hópa ókeypis. Þetta eru um 100 millj. kr., sennilega um 80 millj. fyrir aldraða. Það er eins og lífeyrir eins bankastjóra. Það er nú ekki meira. Þetta eru hins vegar miklar byrðar fyrir einstaklinginn og það hefur sýnt sig að margt aldrað fólk á Íslandi hefur ekki lengur efni á að leita sér tannlækninga. Það getur t.d. ekki keypt sér falskar tennur, er tannlaust, vegna þess að það hefur ekki efni á að borga fyrir. En það kostar ekki mikla peninga að koma því þannig fyrir að þetta verði ókeypis.

Við höfum lagt fram frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar og þá er ég að vísa í þann sem hér stendur, Hjörleif Guttormsson, Kristínu Ástgeirsdóttur og Steingrím J. Sigfússon. Ég er að vísa í frv. sem við lögðum fram um breytingu á almannatryggingalögum sem gerir ráð fyrir því einnig að auka hlutdeild almannatrygginga í tannlæknakostnaði unglinga, hækka aldursviðmiðið og auka þennan hlut. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér. Ég hef gert það margoft áður.

Síðan þarf að sjálfsögðu að koma meira fjármagn í húsnæðiskerfið. Það þarf að koma miklu meira fjármagn í húsnæðiskerfið. Það er gert ráð fyrir að veita fjármagn til að byggja allt að 120 leiguíbúðir, sem er hlægilega lítið. Þetta er nánast brandari. En fólki sem er á götunni er ekki hlátur í hug. Það var utandagskrárumræða um þetta efni fyrir fáeinum dögum. Þá komu fram upplýsingar um ástandið og það er vægast sagt geigvænlegt. Í Reykjavík einni eru um þúsund manns, um þúsund einstaklingar og fjölskyldur á biðlista. Þar af eru tæplega 500 í brýnni þörf. Og samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér hjá félagsmálastofnun og þeim aðilum sem hafa með þessi mál að gera --- nei, það var reyndar ekki félagsmálastofnun heldur hjá húsnæðisnefnd Reykjavíkur --- er sagt að sýnt sé að margar fjölskyldur verði á götunni.

[14:15]

Svo ég rifji upp þessar tölur, þá nefndi ég í fyrrnefndri utandagskrárumræðu að hjá Öryrkjabandalaginu eru 261 á biðlista, 545 hjá félagsmálastofnun, hjá húsnæðisnefnd borgarinnar 110 og hjá leigumiðlunum 81, samtals 997. Í Kópavogi eru það 120. Á Akureyri eru yfir 100 eintaklingar og fjölskyldur á biðlista og um 70 í Hafnarfirði. Og menn eru að tala um það í alvöru að veita fjármagn til að byggja allt að 120 íbúðir.

Hvernig ætla menn að leysa þennan vanda? Því miður er núna að koma í ljós að þau varnaðarorð sem frá stjórnarandstöðunni komu í vor þegar verið var að þröngva hinni umdeildu húsnæðislöggjöf í gegnum þingið, voru á rökum reist. Það var ákveðið með lagabreytingunni þá að leggja félagslega húsnæðiskerfið af, að markaðsvæða kerfið, sem þýðir að vextir sem höfðu verið í 2,4% fara upp í markaðsvexti sem liggja í kringum 5% raunávöxtun. Það er sýnt að fátækasti hluti þjóðarinnar --- og það er drjúgur hluti hennar --- hefur ekki efni á því að afla sér húsnæðis.

Í gamla kerfinu komust stórir hópar ekki inn í félagslega húsnæðiskerfið. Þeir höfðu ekki einu sinni efni á því. Og það fólk átti þann kost í stöðunni að leita eftir leiguhúsnæði. Núna fjölgar í þessum hópi alveg stórlega, enda var það fyrirséð. Þetta lá alveg á boðrinu. Menn eru núna að gera könnun á þessu atriði á vegum félmrn. Þetta var allt vitað.

Það var vitað t.d., og okkur var á það bent bæði af þeim sem hafa með þessi kerfi að gera á Akureyri og í Kópavogi, að flestir þeirra skjólstæðinga mundu fara út á leigumarkað. Það var gerð könnun t.d. í Kópavogi á 110 manns, minnir mig að það hafi verið, eða fjölskyldum sem höfðu fengið félagslegt húsnæði á undangengnum tveimur árum og menn ætluðu að um tíu þessara aðila, einstaklinga og fjölskyldur, kæmust inn í nýja kerfið. Og hvað verður um hina? Það er leigumarkaðurinn. En þá þarf hann að vera fyrir hendi. Hann er ekki til. Og nú er í ríkara mæli farið að nýta húsnæði sem er ekki mönnum bjóðandi. Annars vegar er þetta að gerast og hins vegar er húsaleigan á uppleið. Menn hafa komið með húsaleigubætur og það breyttist við síðustu lagasmíð, en þessar húsaleigubætur eru étnar upp af leigunni og því miður hefur það gerst t.d. í Reykjavík að þar hækkaði --- þar var félagslega húsnæðiskerfinu breytt í hlutafélag, auðvitað og að sjálfsögðu, til að þetta heyrði til nútímanum. Þá var því breytt í hlutafélag --- húsaleigan var færð upp í raunkostnað sem kallað er. Þessi ráðstöfun þýddi það að húsaleigubæturnar sem voru þó að koma inn til fólks í sveitarfélögunum voru étnar upp.

Margir kjósa að búa í leiguhúsnæði og vilja það ef hægt er að tryggja öryggi í slíku fyrirkomulagi, félagslegt öryggi. En það er ekki fyrir hendi og þessi markaður er ekki fyrir hendi. Hann er ekki til. Þess vegna spyr ég og fróðlegt væri að heyra svar formanns fjárln.: Hvaða umræðu fengu þessi mál í fjárln.? Hvernig var farið yfir þessi mál? Til hverra var leitað? Hvað býr að baki tillögum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Því að ég fæ ekki betur séð en að þetta sé algerlega óklárað mál og ávísun á að það sé verið er að setja fólk tugum og hundruðum saman út á götuna. Það er sett á guð og gaddinn. Það er gert. Þetta er staðreynd.

Svo eru menn að tala um sólskinsfjárlög. Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Sólin skín ekki á þetta fólk. Hún gerir það ekki.

Síðan hefði mátt hyggja betur að ýmsu sem lýtur að menningunni og umhverfismálum. Það eru þættir sem við höfum vanrækt í of ríkum mæli. Ég vek athygli á því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur lagt fram tillögu um að varið verði einum 10 millj. kr. til undirbúnings gerðar svokallaðra grænna þjóðhagsreikninga, nokkurs sem er ný hugsun sem við innan hinnar nýju Vinstri hreyfingar --- græns framboðs, leggjum áherslu á vegna þess að við leggjum áherslu á umhverfismálin. Þetta er nokkuð sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson mun án efa skýra nánar í sinni ræðu á eftir. En þarna eru að verða kaflaskil í íslenskum stjórnmálum þegar aukin áhersla er lögð á þessa þætti í okkar samfélagi, okkar landi.

Eitt vekur sérstka athygli mína í brtt. ríkisstjórnarinnar, nokkuð sem þarf í rauninni ekki að vera gagnrýnivert, alls ekki. En það vekur engu að síður athygli mína. Gert er ráð fyrir því að verja 35 millj. kr., held ég að það hafi verið, til að undirbúa heimssýninguna í Hannover árið 2000. Ríkisstjórnin er núna að koma með brtt. um 35 millj. kr. í það verkefni. Menn ætla að heimssýningin í Hannover árið 2000 komi til með að kosta okkur 200--250 millj. kr.

Til hvers erum við að gera þetta? Hvers vegna erum við að verja 35 millj. núna á þessu stigi til að undirbúa heimssýninguna í Hannover og ætlum að verja 200--250 millj. til þess að kosta það verkefni? Það er til þess að auka hróður Íslendinga á erlendri grundu. Það er til að sýna hvers við erum megnug og hvað við höfum upp á að bjóða, íslenska þjóðin og íslensk fyrirtæki. Við erum að kynna okkur erlendis í alþjóðasamfélaginu.

En það höfum við líka verið að gera með öðru frv. Við höfum líka verið að kynna okkur erlendis með öðru frv. um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Þar höfum við líka verið að kynna okkur á erlendri grundu. Því miður hefur það ekki verið þess efnis að það auki hróður okkar. Hvaðanæva að úr heiminum berast mótmæli og varnaðarorð frá helstu vísindastofnunum heimsins. Frá vísindamönnum víðs vegar um heiminn berast varnaðarorð um það að Íslendingar skuli vera að hafa forgöngu um að stíga aftur inn í forneskjuna með því að ætla að fara að selja aðgang að upplýsingu og þekkingu. Við ætlum að hafa forgöngu um það að gerast talsmenn þröngsýnnar gróðahyggju í vísindasamfélagi þjóðanna, þar sem við og okkar vísindamenn hafa farið, víða um heim, og verið þiggjendur. Þekkingin hefur staðið þeim opin hvert sem þeir hafa farið. Og í alþjóðavísindasamfélaginu er tekist á um þetta.

Ýmsir úti um allan heim vilja láta gróðahyggjuna ráða för, að seldur sé aðgangur að upplýsingunni og þekkingunni. En íslenska ríkisstjórnin hefur forgöngu um þetta.

Það vantar ekki peninginn í heimssýninguna í Hannover til að auka hróður Íslendinga. Hér er á ferðinni mikil mótsögn og mjög dapurleg, afar dapurleg mótsögn.

Því miður er það svo þegar þetta fjárlagadæmi er skoðað og fjárlögin að þá er nú orðið harla lítið eftir af sólskininu. Það er orðið ansi þungskýjað (Gripið fram í: Það eru dimmir skuggar.) og dapurlegt þegar málin eru skoðuð ofan í kjölinn og í ljós kemur hversu ríkisstjórnin hefur klúðrað þeim góðu ytri skilyrðum sem við búum við, hversu illa hún hefur klúðrað hinum góðu og hagstæðu skilyrðum sem við höfum búið við, metafla þjóðarinnar og góðu markaðsverði. Olían er á niðurleið. Það er eiginlega sama hvert litið er, alls staðar eru góð ytri skilyrði. En henni tekst að búa svo um hnútana að þetta er gert á kostnað þeirra hópa í samfélaginu sem verst standa að vígi. Bak öryrkjans, hins aldraða, hins atvinnulausa og lífeyrisþegans er vinnuborð íslensku ríkisstjórnarinnar. Hún vinnur á baki þessa fólks. Og þær breytingar sem hún gerir eru allar á kostnað þessa fólks. Þúsundir fjölskyldna eru settar á guð og gaddinn, gerðar húsnæðislausar með því að rústa húsnæðiskerfið. Og nú á að halda áfram með því að einkavæða heilbrigðiskerfið.

Ég held að það sé kominn tími til að skipta um ríkisstjórn á Íslandi.