Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 14:32:18 (2194)

1998-12-12 14:32:18# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[14:32]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu að bæta við það sem ég sagði áðan. Ég vil eingöngu bæta því við af því hv. þm. talaði um ýmis samtök þjóðfélagsins sem væri rétt að kalla til viðræðu í þessu sambandi. Það er nú svo að fjöldinn allur af þessum samtökum kemur til nefndarinnar í viðtöl og auðvitað ræða þeir þá þau mál sem á þeim brenna, m.a. húsnæðismál, og við reynum að setja okkur inn í þau mál eftir föngum. Við erum auðvitað bundin í starfi okkar af markmiðinu um hallalaus fjárlög. Ef við settum 1% af fjárlögum í þetta verkefni sem þingmaðurinn nefnir, yrðum við að taka það fjármagn einhvers staðar annars staðar frá en ég er ekki viss um að slíkt mundi útrýma fátækt á Íslandi eins og hv. þm. kemst að orði. Við erum ætíð í baráttu við þann vágest og ég get tekið undir að það á að vera takmark að fækka þeim aðilum sem leita til hjálparstofnana enda hefur þeim fækkað. En við verðum að stíga skref í áttina til að bæta kjör þessa fólks og það er í skoðun hjá ríkisstjórn og við munum taka við þeim niðurstöðum og ræða þær þegar þar að kemur.