Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 14:34:25 (2195)

1998-12-12 14:34:25# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[14:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að til fjárln. koma á einhverju stigi máls flestir þeir aðilar sem ég taldi upp. En ástæðan fyrir því að ég spurði hvort þessir aðilar hefðu verið kallaðir aftur til viðræðu og legg áherslu á að svo verði gert, er sú að greinilegt er að ríkisstjórnin hefur ekki skilið vandann. Ríkisstjórnin hefur ekki skilið þann vanda sem þessir hópar standa frammi fyrir. Það er greinilegt að það þarf að leita leiða til að upplýsa hana og þá eru talsmenn þeirra hópa sem í hlut eiga og heitast brennur á best fallnir til þess að stafa þennan vanda ofan í ríkisstjórnina.

En það er hægt að útrýma fátækt á Íslandi. Það er hægt og sú fátækt sem ég hef gert að umræðuefni er af völdum ríkisstjórnarinnar. Hér er fátækt sem er af völdum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Kjör lífeyrisþega, kjör atvinnulausra, kjör öryrkja ráðast af ákvörðunum sem teknar eru á Alþingi. Það er Alþingi og ríkisstjórnin og meiri hlutinn sem stendur að baki ríkisstjórninni sem hefur skert kjör þessara hópa um milljarða króna á undanförnum árum. Þetta á að leiðrétta, þetta er hægt að leiðrétta og þetta á að gera í þeim fjárlögum sem nú liggja fyrir þinginu.