Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 15:29:00 (2198)

1998-12-12 15:29:00# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[15:29]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem kom fram að menn eiga einmitt ekki að einblína á stóriðju sem allra meina bót en þess hefur allnokkuð gætt í umræðunni og ekki síst í því kjördæmi sem við erum þingmenn fyrir, við hv. 2. þm. Austurl. Ég held að menn þurfi að meta þau mál öll sömul með allt öðrum hætti og opnum huga og setja það í það almenna samhengi sem um er að ræða, bæði í samhengi alþjóðlegra samninga sem og í samhengi umhverfismálanna og þar eru grænir þjóðhagsreikningar hluti af því sem við þurfum að beita okkur að. Það sem ég nefndi var að hv. þm., framsögumaður fjárln., er ekki með sömu rosatölurnar uppi og voru í ræðu hans fyrir um tveimur árum um þetta efni en það er hægt að fletta upp á því. Stórar tölur voru dregnar upp sem hreinn, að ég mat, áróður á þeim tíma fyrir rosalegum umsvifum á þessu sviði sérstaklega sem hefðu komið við allt annað í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ég þakka fyrir skýringar við safnliðinn og ég vildi aðeins inna hv. þm. eftir hvort þessi þrenn samtök, Náttúruverndarsamtök Íslands, Fuglaverndarfélag Íslands og Félag um verndun hálendis Austurlands, fari þá ekki með sömu blessun og áherslu frá fjárln. til umhvrh.