Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 15:35:41 (2201)

1998-12-12 15:35:41# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[15:35]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar um málið. Það er það sem ég var einmitt að inna eftir. Augljós vandkvæði hafa komið upp um að ná saman hjá sveitarfélögunum um verkefni eins og Menntaskólann á Egilsstöðum. Ég held ég megi segja að frekari þróun bygginga við þann skóla gjaldi fyrir það að þar hafi ekki náðst utan um þetta. Þetta tengist sumpart því að aðsóknarsvæði svona stofnana eru ekki nægjanlega vel skilgreind. (Fjmrh.: Upplandið?) Já, upplandið, aðsóknarsvæðið eða bakhjarlinn, sveitarfélagabakhjarlinn. Þetta tengist félagslegri uppbyggingu okkar að við erum bara með tvö stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélag. Ef við værum með þriðja stigið þar sem menntamálin, framhaldsskólinn væri alveg skilgreindur þá væri þarna skýr aðili til að taka á öllu svona. Varðandi verkmenntaskóla á Austurlandi var hins vegar farið í samningagerð sem tókst samkomulag um með mismunandi greiðslum frá sveitarfélögum, sumpart eftir íbúafjölda og fjarlægð frá stað en þetta er nokkuð flókið verkefni. Búið var að þræða upp drög að samningi um þetta varðandi Menntaskólann á Egilsstöðum en ég hef grun um að því hafi ekki verið fylgt eftir á leiðarenda. Ég vil samt ekki alveg fullyrða um þá stöðu. Eins og hæstv. ráðherra nefndi varðandi Menntaskólann í Reykjavík er þar mál sem ekki hefur verið fullskýrt milli borgar og ríkis.