Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 15:37:56 (2202)

1998-12-12 15:37:56# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[15:37]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Í yfirgripsmikilli ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um fjárlögin kom hv. þm. inn á umhverfisþáttinn og þær hugmyndir sem hann hefur varðandi það að draga úr mengun og þá sérstaklega loftslagsmengun. Út af fyrir sig hef ég verið stuðningsmaður þess að reyna að finna allar leiðir til að ná niður mengun í andrúmsloftinu. Menn greinir að sjálfsögðu á um leiðir eins og gefur að skilja en ég tók sérstaklega eftir því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson tók fram að hann vildi fresta þeim hugmyndum sem komið hafa fram um að tvöfalda Reykjanesbrautina og að kannaðar yrðu sérstaklega járnbrautir sem valkostur í stað tvöföldunar enda væri hann með fsp. í þinginu þar sem mæla ætti sérstaklega mengun sem fylgdi Reykjanesbrautinni.

Mig langar að spyrja hv. þm. að því hvort hann telji í alvöru að járnbraut geti í sjálfu sér þrifist á þessari leið þegar nú þegar er ljóst og hefur verið kannað að slíkur kostur er afskaplega dýr fyrir það fyrsta. Járnbrautir af þessum toga kosta milljarðatugi og rekstur þeirra er þar að auki afskaplega óhagkvæmur og dýr enda eru Íslendingar ekki nema 275 þús. manns og ekki nema hluti þjóðarinnar sem nýtir sér þennan valkost ef til kæmi og rekstur hans mun því aldrei geta staðið undir sér. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort það sé vegna útblásturs frá þessum eina vegi sem honum dettur í hug að fresta þessari framkvæmd eða hvort eitthvað annað sé á bak við hugmynd hv. þm.